24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (688)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Guðmundsson:

mér sýnist til lítils að halda uppi umr. um þetta mal, því að flestir eru farnir úr deildinni. Ég vil þó fara fáeinum orðum um brtt. á þskj. 220, frá meiri hl. fjhn. mér hefir skilizt á því, sem fram hefir komið við þessa umr., að þessi till. eigi að koma í staðinn fyrir þær greinar, sem felldar voru úr frv. samkv. úrskurði hæstv. forseta við 2. umr. Ég vil spyrja meiri hl. hv. fjhn. um það, hvort það sé ekki meining hans með þessari till., að stj. fái þar heimild til að hækka tekju- og eignarskattinn eftir að þingið er búið að ganga frá frárl. Ef svo er, þá er þetta annað en sú till., sem hér var til meðferðar við 2. umr., því að þar var gert ráð fyrir, að þetta skyldi gera fyrirfram, en það yrði ekki eftir brtt. Ég skal ekkert um það segja, hvernig úrskurður forseta fellur um þetta, en ég vil bara segja það, að ef það er ólöglegt, að löggjafarvaldið feli fjárveitingavaldinu að ákveða þetta, þá er það jafnóheimilt að fela það ríkisstj.

Um brtt. hv. þm. Dal. þarf ég ekkert að ræða, þar sem hæstv. fjmrh. hefir sagt, að hann gæti sætt sig við hana, og mun ég því greiða atkv. með henni.

Þá eru brtt. á þskj. 209, og vil ég aðallega minnast á þær till., sem hæstv. fjmrh. mælti með eða lét hlutlausar.

Hæstv. ráðh. mælti með því, að skattanefnd Reykjavíkur hefði talsvert lengri tíma til að undirbúa sína skattskrá en aðrar skattanefndir. Ég verð að segja það, að ég skil ekki, hvers vegna þess er þörf; þó að ég geti viðurkennt, að þar séu fleiri gjaldendur og því meira starf að vinna en annarsstaðar á landinu, þá getur þetta ekki verið annað en spurning um fólksfjölgun á skattstofunni vissan tíma á árinu.

Því hefir verið haldið fram, að tíminn þurfi að vera svona langur, vegna þess, að svo margir gjaldendur séu í Reykjavík. Þá mætti halda fram með sama rétti, að í milljónaborgum eins og London, New-York og París væri ekki hægt að koma fram með skattskrana fyrr en árið eftir eða jafnvel eftir mörg ár. Það er undarlegt, að Reykjavík skuli þurfa einhverja sérstöðu, þó að íbúarnir séu margir. Það ætti ekki að þurfa neitt annað en að bæta við vinnukrafti.

Hæstv. ráðh. mælti ennfremur með brtt. við 20. gr., b.-lið, sem er um það, að verð hlutabréfa skuli vera metið eftir efnahagsreikningi hvers félags. Ég held ekki, að þetta verði hentugt í framkvæmdinni, því að vel stætt félag getur þá að nokkru leyti skapað sér lágan skatt með því að meta sín hlutabréf lagt í efnahagsreikningi, en félag, sem er illa stætt, gæti, til þess að láta ekki sjást, að það eigi ekki fyrir skuldum, metið hlutabréf sín í efnahagsreikningi hærra en þau væru í raun og veru verð.

En það, sem kom mér sérstaklega til að standa upp, var 16. brtt. hv. þm. Ísaf., þar sem ræðir um að setja dráttarvexti á allan tekju- og eignarskatt, ef greiðsla dregst meira en mánuð fram yfir gjalddaga, sem er á manntalsþingum. Ég held, að þetta ákvæði væri óþægilegt, a. m. k. fyrir sveitirnar. Gjaldendur þar eru margir búsettir í fjarlægð frá innheimtumanni, og víða í sveitum er erfitt með peningagreiðslur á þessum tíma. Ég get ekki heldur seð, að það geri ríkissjóði verulega til, þó að skattar séu ekki allir komnir inn fyrr en á hausti eða jafnvel undir áramót, því að hann þarf ekki á tekjum sínum að halda fyrr en smátt og smátt.

Mér finnst ekki nema sanngjarnt að sýna gjaldendum þá linkind, að þeir þurfi ekki að borga á ákveðnum degi, sérstaklega þegar þeir búa langt frá innheimtumanni, og þegar það er vitað, að á þeim tíma er lítið um peninga meðal bænda.

Að fjmrh. geti ákveðið í reglugerð, að tekju- og eignarskatt megi greiða smátt og smátt, kann að vera til bóta í Reykjavík, en varla úti um land, enda geri ég ekki ráð fyrir, að þetta ákvæði yrði notað þar. Ég er ekki viss um nema innheimtumaður gæti gert þetta, þó að það væri ekki heimilað í lögum, alveg eins og hann getur látið það vera í marga mánuði að gera lögtak.

Það ætti líka að vera hægt að leyfa innheimtumönnum að taka á móti skattinum í smápörtum, og ég efast ekki um, að þeir gerðu það, ef gjaldendurnir vildu. Ég hygg, að enginn mundi neita að taka á móti þessháttar greiðslum; það er a. m. k. ólíklegt.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að við, sem vorum í mþn. í skattamálum, hefðum unnið þar litið. Það getur náttúrlega verið álitamál, en ég verð að segja það, að ég hefi ekkert slæma samvizku út af því, hvernig þar hefir verið unnið. Og þegar hv. þm. er að kvarta yfir, að ekki hafi verið raskað grundvellinum fyrir skottunum, þeim grundvelli, sem áður hefir verið, þá er hann eingöngu að kvarta yfir því, hvernig sú skoðun sé, sem meiri hl. þingsins og n. hefir, en til þess hefir hann ekkert leyfi; það er okkar mál, en ekki hans. Eins og við viljum lofa honum að hafa sína skoðun í friði, er hann skyldugur til að lofa okkur að hafa okkar skoðun í friði. Það hefir sýnt sig við meðferð þessa máls, að þótt við hv. 1. þm. N.-M. hvor úr sínum flokki bærum okkur ekkert saman við okkar flokka, þá hafa þeir getað fylgzt að um þessi frv., sem ennþá hafa verið hér til meðferðar.

Hv. þm. talaði um samning, sem ég og hv. 1. þm. N.-M. hefðum gert um það, að ekki ætti að draga frá skattskyldum tekjum nema helming af tekju- og eignarskatti og útsvörum, í staðinn fyrir, að allt hefði verið dregið frá áður. Þegar hann heldur því fram, þá fer hann með rangt mál. Það er undarlegt, að hann, sem er í fjhn., skuli ekki hafa kynnt sér þetta mál betur. Í n. var ágreiningur milli mín og hv. 1. þm. N.-M. um þetta atriði. Ég vildi draga allt frá, en hann ekkert. Það fór þannig inn á þing í fyrra, að ekkert átti að draga frá, en í meðferð málsins var ákveðið, að draga skyldi helming frá, svo að hafi verið um samning að ræða, þá er það ekki milli mín og hv. 1. þm. N.-M. Annars get ég ekki tekið þátt í hinni miklu hryggð hv. 2. þm. Reykv. út af því, hversu vel Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum kemur saman í skattamálunum. Ég hefi aldrei heyrt neinn maka bera sig verr yfir tryggðrofum vinar en hv. þm. ber sig yfir því, hvernig Framsóknarflokkurinn hefir farið að í skattamálunum.