20.03.1931
Efri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (690)

140. mál, skekkjur í bráðabirgðauppgerð ríkissjóðs árið 1930

Fyrirspyrjandi (Jón Þorláksson):

Ég skal byrja á því að viðurkenna eitt af því fáa, sem ég heyrði hæstv. fjmrh. segja rétt. Það kemur oft fyrir, að unnið er á árinu áður fyrir eitthvað af þeirri upphæð, sem heimilað er að nota til framkvæmda næsta ár. Getur vel verið, að þörf sé svo aðkallandi, að verkið megi ekki bíða, og þá hefir aldrei verið neitt við því sagt, þó að einhver upphæð sé notuð fyrirfram. En þetta var líka sú einasta gilda afsökun, sem hæstv. fjmrh. hafði til að bera fyrir sig. Það er einasta gilda ástæðan, sem ég þekki fyrir því, að flytja þannig fjárveitingar milli ára.

Þrátt fyrir þetta fer fjarri því, að hæstv. fjmrh. hafi gert grein nema fyrir litlum hluta af þessum 550 þús. kr., sem hann hefir undanfellt að telja af því fé, sem gengið hefir til vegagerða og símalagninga. Hann nefndi aðeins tvo vegi, þar sem unnið hefði verið fyrirfram samkv. heimild í fjárl. fyrir árið 1931. Það var vegurinn áleiðis til Dalasýslu og vegur austur í Skaftafellssýslu. Og á yfirliti vegamálastjóra sé ég, að hin fyrrnefnda upphæð nemur 5 þús. kr., en austur í Skaftafellssýslu er um tvo vegi að ræða; til annars eru greiddar 8 þús., en til hins 18 þús. kr. Ef hærri talan er sú, sem hér á við, eru það líklega einar 72 þús. af 550 þús. kr., sem telja má, að hæstv. fjmrh. hafi gert rétta grein fyrir. Að öðru leyti er fyrsta lið fyrirspurnar minnar ósvarað enn.

Þá lýsti hann yfir því um 2. og 3. lið fyrirspurnarinnar, að okkur bæri saman um upphæðir. Hér væri ekkert falið, og því væri einungis um formsatriði að ræða. Hann lagði áherzlu á það, að bráðabirgðauppgerðina mætti ekki skoða sem endanlega niðurstöðu og að gera mætti ráð fyrir, að þar kæmu fram mismunir. Um þetta er ekkert að fást. Svo kom hann að sinni höfuðsvörn fyrir það, að hafa fellt þessi gjöld úr yfirliti sínu. Í þetta yfirlit ætti ekki að taka annað gjaldamegin en það, sem sett yrði á rekstrarreikning. Ég ætla að gera grein fyrir því, að í fyrsta landsreikningnum, sem ég samdi, fyrir árið 1923, þá var þeim í fyrsta sinn skipt í þrjá reikninga. Fyrst var reikningur um innborganir og útborganir, sem svaraði nánast til fyrri reikninga. Annað var rekstrarreikningur. Þriðja var sjóðs- og viðskiptareikningur. Nú verður þá að líta svo á, eftir yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að ekki sé búið að taka með í bráðabirgðauppgerðina nema þær greiðslur, sem kæmu á miðreikninginn, rekstrarreikninginn. En þá rekur maður sig á, að hann hefir ekki verið búinn að uppgötva þennan vísdóm, þegar hann fullgerði þessa bráðabirgðauppgerð, því að þá telur hann þar til tekna 400 þús. kr., sem sannarlega geta ekki komið tekjumegin á rekstrarreikning. Þetta er þess vegna fyrirsláttur, sem hæstv. ráðh. hefir búið sér til síðan. Þá mætti taka hverja upphæð sem væri á rekstrarreikning, ef rétt er að taka þessa, þó að náttúrlega geti oft verið álitamál, hvað eigi að taka á þann reikning. Hæstv. fjmrh. sagði, að ég hefði ekki talið á landsreikningi 1923 það, sem goldið hefði verið upp í Esju, sem þá var í smíðum, með rekstrargjöldum. Fyrirrennari minn, Klemens Jónsson, hafði ekki tekið það með í bráðabirgðaskýrslu sinni í þingbyrjun 1924, og bar ég vitanlega ekki ábyrgð á því. Ef hann hefir sleppt að telja það með rekstrarútgjöldum með ráðnum huga, þá var það a. m. k. hvöt fyrir mig til þess að gera ekki niðurstöðu hans óhagstæðari en hún varð. Og því hefi ég talið þessa upphæð á 3. reikningnum, sjóðs- og viðskiptareikningi, þar sem hún er talin 358697.62 kr. Í raun og veru virðist, að ekki sé svo mikið að athuga við það, þótt borgun fyrir skip, sem enn er í smíðum og borgað er fyrir utanlands, sé tekin upp á sjóðs- og viðskiptareikning. Það nær engri átt að draga þar af, að þann kostnað skuli ekki telja með gjöldum ríkissjóðs, því að allt, sem talið er á þessum þremur reikningum, telst auðvitað með tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Það á allt að koma fram í bráðabirgðauppgerð. Og ég slæ því föstu, að hvorki hæstv. fjmrh. sjálfur né fyrirrennarar hans hafa fylgt annari reglu, þó að nefna megi einstöku upphæðir, sem kunna að hafa fallið úr í bráðabirgðauppgerð. — Þetta var nú aðalvörnin, sem hæstv. fjmrh. hefir fyrir sig að bera, og honum hefir orðið það á að eyðileggja hana fyrir sér með því að víkja sjálfur frá henni í bráðbirgðauppgerð sinni. Þá sagði hann, að telja ætti fram tekjur og gjöld samkv. fjárlögum og önnur hliðstæð gjöld. Nú skal ég nefna dæmi um, hvernig það hefir verið gert. Hér hefir staðið í nokkur ár á byggingu landsspítalans. Á hverju þingi hefir fjmrh. talið það, sem til hans hefir gengið, með gjöldum, á hverjum landsreikningi hefir það ennfremur verið talið með gjöldum og fært á rekstrarreikning. Nú ber svo við, þegar um er að ræða stærstu upphæðina, sem nokkurn tíma hefir farið til spítalans á einu ári, að þá er hún ekki talin með gjöldum í bráðabirgðauppgerðinni, heldur er henni stungið þar út. Að vísu er getið um þessi 847 þús. annarsstaðar í ræðunni.

Þá má nefna byggingu landssímastöðvarinnar í Reykjavík. Á hverju ári hafa verið byggðar símastövar, og hefir það alltaf verið talið í bráðabirgðayfirliti gjaldamegin og á rekstrarreikningi. Hvað réttlætir það að fara nú að afnema þessa reglu og stinga þessari miklu upphæð undir stól og telja hana ekki með gjöldum ríkissjóðs? — þá má líka minnast á útvarpsstöðina. Á hvaða leyti er hún frábrugðin öðrum framkvæmdum, svo að eigi megi telja kostnaðinn við hana með gjöldum ríkissjóðs eða færa hana á rekstrarreikning, sem er auðvitað ekkert höfuðatriði?

Þannig má halda áfram að telja. Og niðurstaðan verður sú, að hin eina röksemd hæstv. ráðh. getur sumpart alls ekki átt við alla þá gjaldaliði, sem taldir eru í fyrirspurn minni, þar sem sumir þeirra hljóta að koma á rekstrarreikning og sumpart hefir henni verið mótmælt af hæstv. ráðh. sjálfum. Ég verð því að líta svo á, að þessi upphæð, um 4½ millj. kr., sé vantalin gjaldamegin í þessu yfirliti um tekjur og gjöld ríkissjóðs árið 1930.

Það er engin afsökun fyrir hæstv. fjmrh., þó að heimilt sé að greiða kostnað af slíkum fyrirtækjum með lánsfé. Landsreikningarnir eru alltaf samdir þannig, að það er látið koma fram í þeim, ef lán eru tekin til þess að standast greiðslur, sem telja verður gjaldamegin.

Þá kem ég að 3. lið fyrirspurnarinnar. Um þann lið sagði hæstv. fjmrh. fátt annað en það, að um hann giltu sömu rök og um 2. lið. Það eru þá víst þau rök, að ekki sé skylt að telja þessa upphæð, 1½ millj. kr., með gjöldum, því að hún eigi ekki heima á rekstrarreikningi. Nú keypti ríkið þarna hlutabréf við ákveðnu verði, og fer um þau eins og önnur kaup, en óvíst er, hve mikið þau muni gefa af sér. Að vísu hefir ríkissjóður fengið verðmæta eign fyrir þetta fé, hvort sem hún er þess virði, sem fyrir hana var greitt, eða ekki.

Það er engin afsökun, þó að ríkissjóður eignist einhver verðmæti; það verður ekki hjá því komizt að telja þær upphæðir, sem greiddar eru fyrir eignirnar, til gjalda ríkissjóðs. Hvar sem litið er í skýrslur um tekjur og gjöld ríkisins, sést það, að eignir ríkisins fara vaxandi frá ári til árs og að ríkissjóður eignast ýms verðmæti fyrir töluvert mikið af því fé, sem talið er til gjalda, og það jafnvel rekstrargjalda.

Hæstv. fjmrh. reyndi að verja sig með því, að einn af fyrirrennurum hans, núv. hv. 1. þm. Skagf., hefði lagt upphæð af enska láninu frá 1921 til Íslandsbanka og ekki talið hana með gjöldum. Það er rétt, að þessi upphæð var lögð til Íslandsbanka, en ég held, að það hafi ekki komið í hlut hv. 1. þm. Skagf. að ákveða, hvort þetta skyldi talið með gjöldum eða ekki, heldur hafi það verið eftirmaður hans, Magnús Jónsson, sem samdi landsreikninginn um þetta ár, og taldi hann þessa upphæð hvorki tekjumegin sem lán eða gjaldamegin sem útgjöld. Mátti verja þetta með því, að þó að ríkissjóður væri þarna lánþegi, þá rann fé þetta til Íslandsbanka samkv. lögum, og bankinn tók að sér að standa allan straum af þessu láni. Skal ég hvorki verja eða lasta þessa ráðstöfun, og ber Magnús Jónsson ábyrgð á því, að þessi aðferð var tekin upp. En ólíku er þessu saman að jafna og því, er ríkið kaupir hlutabréf í fyrirtæki. Þessi upphæð er afturkræf skuld, en hitt vita allir, að fé, sem keypt eru fyrir hlutabréf, er ekki afturkræft. Bréfin eru eign þess, sem kaupir, og getur hann selt þau, ef hann finnur að þeim kaupanda, en enginn er skyldur að kaupa þau.

Það er því tilgangslaust fyrir hæstv. fjmrh. að reyna að verja mál sitt með því að vísa í enska lánið frá 1921.

Það, sem hæstv. ráðh. endurtók undir þessum lið viðvíkjandi rekstrarreikningunum, er ég búinn að tala um undir 2. lið og þarf því ekki að endurtaka það.

Þá kem ég að 4. liðnum, sem hæstv. ráðh. þótti auðsjáanlega leiðinlegt að tala um. Hann sagði þó, að þó að fært væri eins og ég vildi, yrði samt enginn greiðsluhalli, því að lánin kæmu þá tekjumegin. Þetta er rétt; ég hefi sagt, að greiðsluhallinn hafi verið jafnaður með lántökum. En sá er munurinn á þessu og uppgerð hæstv. ráðh., að þar sem hann sýnir tekjuafgang, með því að strika út þá liði, sem honum finnst minnst óþægindi að losna við, þá myndi það hafa sezt af bráðabirgðauppgerðinni sjálfri, að tekjurnar hafi hvergi nærri hrokkið til útgjaldanna árið 1931, heldur hafi orðið að taka stór lán til þess að jafna hallann. Þegar svo fer, þá á það að koma skýrt fram í uppgerðinni. Þessar aðferðir hæstv. fjmrh. minna mig á manninn, sem hélt, að hann væri alltaf að græða, en var orðinn öreigi, áður en hann vissi af.

Ég get því slegið því föstu, að hæstv. ráðh. hafi alls ekki sýnt fram á það með neinum rökum, að réttmætt hafi verið að fella þá gjaldaliði, er ég hefi talið upp, úr upptalningu gjalda ríkissjóðs.

Þá er ég kominn að svari hæstv. fjmrh. ú af því, sem ég sagði um skiptingu ríkisskuldanna. Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði rétt til þess að skipta skuldunum eins og honum sýndist. Þann rétt hefi ég líka, úr því að hæstv. forseti leyfði mér að sýna, hvernig þessi skipting hefði litið út, ef farið hefði verið eins að og hingað til hefir verið. Hæstv. ráðh. sagði, að af sinni skiptingu væri alls ekki að ráða, hvaða skuldir hvíldu á gjaldendum og hverjar ekki. Þar sem skipting hæstv. ráðh. segir ekkert um þetta, fann ég ástæðu til að skipta 2. lið í tvennt, svo að það sæist, hvaða skuldir landsmenn verða að bera á sínum bökum.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að hann hefði aldrei beðið hagstofuna um að gera yfirlit um ríkisskuldirnar fyrir árið 1930. Þetta er rétt, samkv. því sem hagstofustjóri hefir skýrt mér frá. En það munu vera mjög margir, sem ekki hafa athugað ummæli hæstv. ráðh. nógu vandlega til þess að sjá, að skipting skuldanna á árinu 1930 er ekki verk hagstofunnar. Það er því rétt, að hæstv. ráðh. hefir ekki staðhæft það, að hagstofan hafi gert skiptingu þessa, en í fjárlagaræðu sinni kemst hann svo að orði:

„ — Hefi ég látið reikna þær út og skipt þeim í tvo aðalflokka, nákvæmlega á sama hátt og hagstofan hefir gert fram til ársloka 1929“.

Með þessum ummælum er hagstofan bendluð þó nokkuð við þessa skuldaskiptingu, og meira heldur en hagstofustjóri segir, því að hann sagði við mig, að hann vildi enga ábyrgð taka á skiptingu ríkisskuldanna fyrir árið 1930. Því hefir þess vegna verið slegið föstu, að þessi skipting ríkisskuldanna er ekki verk hagstofunnar, heldur hæstv. fjmrh.

Ég get alls ekki kannazt við það, að það sé rétt hjá hæstv. ráðh., að allt tal um að skipta skuldunum öðruvísi en hann hefir gert sé sagt út í hött. Ég álít þvert á móti, að sú skipting, sem ég fylgdi, sé miklu hagkvæmari, auk þess sem almenningi í landinu er hún skiljanleg og fræðandi. Hæstv. ráðh. má þó ekki halda, að ég tali hér til þess að upplýsa hann. En þó að hann þurfi þess ekki með, þá geta verið aðrir, sem þurfa þess.

Þá kem ég að því, að ráðh. hefir ekki ætlað fyrir vöxtum af skuld til Hambrosbanka vegna hlutabréfakaupa í Útvegsbankanum. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri ekki gert af vangá, heldur viljandi, þar sem þetta væri lausaskuld og ekki væri venja að ætla fyrir vöxtum af lausaskuldum. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að líta í fjárlögin fyrir árið 1926. Þar er áætlað í 7. gr., eins og venja er til. Fyrst vextir, sem eru sundurliðaðir í vexti af innlendum lánum, af dönskum lánum, af enskum lánum og síðast af lausaskuldum. Þá eru einnig áætlaðar 600 þús. kr. afborganir af lausaskuldum. Svo að ráðh. hefir ekki leitað nógu vel að fyrirmyndum, er hann ákveður að sleppa þessum vöxtum, af því að þeir séu af lausaskuldum. Enda liggur það í hlutarins eðli, að ráðh. ber að áætla fyrir greiðslum af lausaskuldum eins og fyrir öðrum útgjöldum, séu skuldirnar ekki greiddar á því sama ári, sem þær eru stofnaðar.

Ég skal ekki hafa þetta lengra mál að svo stöddu. Ég get slegið því föstu, að hæstv. fjmrh. hafi viðurkennt allar tölur í fyrirspurn minni, nema ef til vill 72 þús. kr. af því, sem heyrir undir 1. lið fyrirspurnarinnar.

Hitt vona ég og, að verði gott samkomulag um, að úr því að skuldir ríkisins hafa aukizt um margar millj. á síðustu þremur árum, og það á þann hátt, að landsmenn verða að bera vexti og afborganir af þeim á sínum herðum, þá séu ekki önnur rök til fyrir því en þau, að gjöld ríkisins hafi orðið meiri en tekjurnar þessi ár, og sé því alrangt að telja, að tekjuafgangur hafi orðið þessi ár. Í þessi þrjú ár hefir orðið tekjuhalli, sem hefir orðið til þess, að bætzt hafa á herðar landsmanna vextir og afborganir af nýjum ríkisskuldum, sem tekjuhallanum nemur.