25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (697)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. En mér finnst rétt að benda á það, í sambandi við hugleiðingar hv. frsm. meiri hl., að meginatriði þessa máls er það, hvort heppilegt er fyrir þjóðfélagið að leggja áfram um 10% á lagtekjur með tollum á nauðsynjavörum, en taka aðeins 31/2% skatt til jafnaðar af þeim tekjum, sem eru taldar umfram framfærslukostnað gjaldenda. Eða hvort á að snúa þessu við, hækka skatta af þeim hluta tekna, sem umfram er framfærslukostnað gjaldenda, til þess að hægt sé að lækka tolla af nauðsynjavörum, sem raunverulega er skattur af þeim tekjum, sem gjaldendur nota sér til lífsframfæris eingöngu.

Út af hugleiðingum hv. frsm. meiri hl. um það, að við jafnaðarmenn séum eignarnámsmenn, og till. mínar í skattamálum miðuðu því að hægfara eignarnámi, vil ég benda á það, að sé ég að leggja til hægfara eignarnám með till. mínum í skattamálum, þá leggur hann til mjög hraðfara eignarnám í till. sínum um tekjustofna sveitarsjóða. Eftir þeim getur nefnilega komið fyrir, að tekjuhæstu gjaldendur þurfi að greiða 104 af hundraði af tekjum sínum til ríkis og sveitarsjóða, eða ofurlítið meira en allar tekjurnar, sem skatturinn er lagður á. Ég tel að vísu rétt, að mikill hluti þess fjármagns, sem notað er við sameiginlegt framleiðslustarf þjóðarinnar, komist í hendur hins opinbera. En við jafnaðarmenn viljum fara heppilegri leið að því takmarki en hv. frsm. meiri hl., sem ekki hefir fundið aðra leið til að samræma álagningu útsvara við álagningu hinna beinu skatta til ríkissjóðs heldur en að margfalda skattstigann með fjórum.

Þá vil ég minnast örlítið á tvo atriði, sem ekki snerta beinlínis hv. frsm. meiri hl.

Ég tel mjög varhugavert að leyfa mönnum að draga frá skattskyldum tekjum tekjuskatt og útsvar, nema þau gjöld hafi fallið í gjalddaga og verið greidd að fullu á sama árinu, sem tekjuframtalið nær til. Ef þetta er ekki tekið skýrt fram í lögum, gætu félög með mjög misjafnri rekstrarafkomu dregið að greiða opinber gjöld þangað til þau eiga að greiða háan tekjuskatt. Ef gjöldin eru þannig dregin saman til fleiri ára, þangað til félögunum er heppilegast að láta þau koma fram á skattskýrslu, geta þau stórkostlega lækkað skattinn.

Ég vil ekki láta hjá líða að benda hv. þm. á orðalag 10. gr. frv., sem 4. brtt. mín á þskj. 209 er við. C-liður hennar er orðáður þannig:

„Til tekna telst ekki - - - - -

c. Tekjuliðir, sem stafa af eyðslu höfuðstóls eða af lántöku“.

Mér finnst ekki ná neinni átt að tala um tekjuliði af því að eyða höfuðstól eða taka lán. Furðar mig, að hv. frsm. meiri hl. skuli ekki geta fallizt á að breyta þessum lið frvgr. Í íslenzku máli er ekki lántaka og enn síður eyðsla talin til tekna.