20.03.1931
Efri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (700)

140. mál, skekkjur í bráðabirgðauppgerð ríkissjóðs árið 1930

Jón Baldvinsson:

Það hefir farið svo, sem flesta þm. grunaði, að lítið yrði á þessum umr. að græða. Ég hugsa, að áheyrendur fari jafnnær eftir þetta karp, sem hefir átt sér stað milli hæstv. fjmrh. og hv. fyrirspyrjanda. Ég gæti búizt við, að það þætti ekki mikið til þess koma, því ekki hefir komið nema ein grein um málið í Morgunblaðinu. Það er ekki svo, að þeir séu svo mjög ósammála. Í raun og veru eru þeir sammála, þó að þeir séu að gera sig til hver framan í annan. Mér skildist á hv. fyrirspyrjanda, að um ýmsar þessar færslur væri honum sama, hvort þær væru færðar á sjóðreikning eða rekstrarreikning; hann vildi hafa þær í öðrum hvorum reikninganna. En það, sem hlýtur að verða aðalatriðin í fjármálum landsins, er í þessu tilfelli sérstaklega, hvort ráðh. hefir fellt undan og gefið þinginu ranga skýrslu við framtal útgjalda, sem ríkissjóður hefir haft á árinu 1930, og honum hafi verið kunnugt um; en vitanlega með því fororði, sem fjmrh. eru vanir að hafa um skýrslu þessa, að lítið eitt geti skakkað, jafnvel hundr. þúsunda, sem er skiljanlegt, þar sem yfirlitið er gefið svo snemma á þinginu, en skammt frá áramótum. Mér virðist ekki skipta svo mjög máli um það, sem sagt er í 2. og 3. lið fyrirspurnarinnar, því að á bak við eru heimildir þingsins handa stj. til að taka lán til þessara framkvæmda. Öðru máli væri að gegna, hefði ríkisstj. varið fé til mikilla framkvæmda, án þess að hafa heimild þingsins á bak við. Fyrir það má áfella ríkisstjórnir. Mér finnst flest af því, sem þeir hæstv. fjmrh. og hv. fyrirspyrjandi hafa deilt um, ómerkileg atriði og það hafi engin áhrif á afkomu landsins, hvort fært er svo eða svo. Mætti í nánari líkingu benda á, hvað það er, sem þeir deila um. Mætti segja, að hv. 1. landsk. vildi hafa það á fyrstu síðu Tímans, en hæstv. fjmrh. hefði sett það á 3. síðu. Um þetta er deilt milli þeirra, það er varla til þess að halda okkur á fundi allan daginn.

En það er eitt í þessu, sem mér finnst ástæða til að minnast á úr því málið er komið fram, því annars mundi ég hafa gert það, og geri það nánar, þegar fjárlögin koma fyrir. Það er um 1. lið fyrirspurnarinnar. En þar voru þeir ekki svo mjög ósammála. En mér finnst aðfinnsluvert það, sem stj. hefir þar gert, en eftir því, sem hæstv. fjmrh. hefir viðurkennt, hefir þetta verið gert af mörgum stjórnum áður, að láta eitt árið gera meiri framkvæmdir en þingið hefir heimilað og færa útgjöldin til næsta árs. Þetta getur því aðeins réttlætzt, frá mínu sjónarmiði séð, að um verulega lélegt atvinnuár sé að ræða.

Árið 1930 var alstaðar nóg vinna og engin ástæða þá til að láta vinna meira en fjárlög heimiluðu. Hefði jafnvel verið nær að draga nokkuð úr opinberum framkvæmdum.

Hv. fyrirspyrjandi telur, að til vegamála hafi verið eytt 550 þús. kr. fram yfir fjárlög. Eyðsla á þessu sviði fram yfir fjárlög hefir líka viljað við brenna hjá eldri stjórnum, og hefir hún sumpart stafað af lélegum undirbúningi vegamála og sumpart af því, að áætlanir verkfræðinga hafa staðizt illa. Ætti stj. að kappkosta að undirbúa slík mál betur en gert hefir verið.

Það mun vera rétt hjá hæstv. fjmrh., að ekki hefir verið venja að gera ráð fyrir vöxtum af lausum skuldum í fjárlögum. Þó hefir slíkt komið fyrir einu sinni eða tvisvar, en þá mun það hafa stafað af því, að skuldirnar voru orðnar „fastar lausaskuldir“, sem þingið vissi af, en ekki var hægt að lúka. Get ég því eigi talið mjög ásökunarvert, þótt fjmrh. hafi í þessu efni fylgt hinni algengustu venju, enda þótt ég sé því andvígur að fella af fjárlögum nokkuð, sem til útborgunar á að koma.

Ég hefi í þessu máli fundið hæstv. stj. einkum eitt til áfellis, en það atriði kemur seinna til athugunar, þegar út séð er um afgreiðslu fjárlaganna og framkvæmdir á árinu 1932.