20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (722)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mér er ekki vel ljóst, hvort hv. 1. þm. Reykv. er á móti þessu frv. eða ekki. Af ræðu hans mátti helzt skilja, að hann vildi halda við hið gamla form, sem notað hefir verið við færslu landsreikninganna. Við því er ekkert að segja, þótt hann vilji halda gamla forminu, þótt mér hinsvegar þyki ástæður hans kynlegar. Honum fannst það einna helzt bera vott um mont og mikillæti af jafnfámennri þjóð og okkur, að vera að apa það eftir nágrannaþjóðunum að hafa glögg og rétt reikningsskil. En þó að þjóðin sé fámenn, er henni ekki síður þörf á en þeim, sem stærri eru, að hafa reikningsfærslu þjóðarbúsins í lagi.

Það er ekki langt síðan Danir skiptu um reikningsfærslu sína, en þess má jafnframt geta, að sú breyting átti talsvert erfitt uppdráttar; en nú dettur engum í hug að hverfa aftur að þeirri reikningsfærslu, sem áður var þar notuð.

Það segir sig sjálft, að úr því að heimtað er með lögum, að einstakir atvinnurekendur geri glögg reikningsskil, og refsing við lögð, ef út af er brugðið, þá verður að heimta hið sama af þeim, sem standa eiga skil á reikningsskilum þjóðarbúsins.

Það er auðvitað nauðsynlegt, að fólkið geti skilið landsreikninginn og fjárhagsástæður landsins, en til þess að hjálpa skilningi þess er það ekki réttasta leiðin, að setja upp ófullkomna reikninga, sem ekki gefa rétta mynd af ástandinu. Að því verður og að gæta, að við höfum mikil viðskipti við nágrannaþjóðir okkar, og þegar þeir menn, sem þar botna eitthvað í fjármálum, fara að líta á okkar gömlu landsreikninga, velta þeir bara vöngum og segja: „Jú, það er gott, það sem það nær, en landsreikningurinn ykkar sýnir ekki allar ykkar skuldir“. Ég býst við, að þeir taki ekki gilt, þó að við segjum, að við búum til svona landsreikninga vegna fólksins.

Þá virðist hv. þm. hneykslast á því, að með þessu frv. væri gert ráð fyrir að setja upp ríkisreikninginn fyrir 1930 eftir þessum nýju reglum; en í frv. stendur: eftir því sem unnt er. Einhverntíma þarf að breyta um, og það er rétt að láta það komast á smám saman.

Þá þótti hv. þm. það undarlegt, að þegar væri byrjað á þessu nýja bókhaldi hjá fjmrn. án þess að spyrja þingið. Þetta er alls ekkert undarlegt, því að fjármálaráðuneytið telur sér heimilt að hafa rétta bókfærslu, án þess að spyrja þingið um það. En engu að síður verður að telja rétt að fá staðfesting þingsins á þessari endurbót, og er því engan veginn rétt, að fjmrn. vilji ekki hafa samvinnu við þingið um þessa endurbót. Mér finnst því óþarfi af hv. þm. að taka það illa upp, þótt ríkið fari sjálft að gera það, sem það heimtar af sínum eigin þegnum.

Ég skal ekki fara að deila um fjárlög Frakka. Ég þekki þau ekki, og þó að hv. þm. fari að segja okkur eitthvað um þeirra fjárhagsreikninga, sem hann sennilega veit lítið um, held ég að það eigi ákaflega lítið erindi til okkar. (MJ: Það var verið að vitna í erlendar þjóðir).

Það er vitnað í nágrannaþjóðirnar og einkum til Dana, sem fyrir fáum árum komu sinni reikningsfærslu í ágætt horf.