20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (724)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mér finnst þessi ræða hv. þm. Vestm. hafa átt ákaflega lítið erindi hér, því að hún kemur yfirleitt mjög lítið að því máli, sem hér liggur fyrir. Það var helzt á honum að skilja, að ekkert gerði til, hvernig reikningshaldið væri. Hann segir, að bókfærslufyrirkomulagið sé aukaatriði, en hitt aðalatriðið, hvernig fjármálunum sé stjórnað. En þetta er tvennt ólíkt og þarf ekki að fara saman. Ég hefi ekkert talað um, hvernig með fjármál ríkissjóðs hefir verið farið undanfarið, og ekkert tilefni gefið til þess, að á þau væri minnzt. Ég býst við, að tilefni til þess gefist seinna, þótt hv. þm. blandi því ekki inn í hvert einasta mál, sem fram kemur. Og það getur vel verið, að tækifæri fáist til að bera saman stjórn mína á fjármálum ríkisins og stjórn þessa hv. þm. á fjármálum síns kjördæmis. Ég hefi fyrir nokkru borgað ábyrgðarskuld úr ríkissjóði fyrir hans kjördæmi, og mjög mun orka tvímælis um fjármálastjórnina þar, hvað sem um bókhaldið er. Ég held, að þessi hv. þm. ætti fyrst að hreinsa fyrir sínum eigin dyrum, áður en hann fer að tala um mál, sem ekki eru á dagskrá.

Mer hafði ekki dottið í hug að hefja neinar ádeilur út af þessu máli; það er gersamlega ópólitískt, og mér hefði ekki dottið í hug, að nokkur færi að gera það pólitískt.

Að öðru leyti færði hv. þm. ekki hin minnstu rök fram gegn því, að rétt væri að samþykkja þetta frv. og færa bókhald ríkissjóðs í nýtízkuhorf eins og gert er við allar stofnanir, sem vilja vita hið rétta um fjárhagsástæður sínar.