20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (726)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. fjmrh. var að tala um fjárstjórn mína fyrir Vestmannaeyjakaupstað. Það er svo sem eftir öðru í fari þessara herra, sem fara með völdin her, að þola ekki réttmæta gagnrýni andstæðinganna án þess að fara út í fjarskyld efni, en hæstv. fjmrh. skal vita það, að úr því að hann kýs að fara út í þessa sálma, skal hann ekki hafa betra af. Þeim skeytum, er hann sveigir að okkur Eyjamönnum fyrir þessar sakir, skal beint að honum sjálfum, því að þótt ýmsir fjárhagsörðugleikar hafi steðjað að okkur hin síðari árin, þá hefir þó fjárstjórnin ekki verið lakari en svo, að við höfum til mikilla muna grynnt á skuldunum, á sama tíma, sem hann hefir aukið skuldir ríkisins og komið fjármálum ríkisins í öngþveiti, (HJ: Með því að borga skuldir fyrir Vestmannaeyjabæ). Litli fjármálaráðherrann getur kannske beðið á meðan ég tala; ég veit, að það sem hæstv. fjmrh. átti við, er það sama, sem litli fjármálaráðherrunn var alltaf að stagast á í fyrra, nefnilega skuld við Monberg, sem ríkið hefur orðið að hlaupa undir bagga með í bili fyrir Vestmannaeyjahöfn. Nei, hæstv. ráðh. ætti ekki kinnroðalaust að tala á þennan veg. Hann ætti sízt að brýna aðra með illri fjármálastjórn, og sízt okkur Eyjamenn, þar sem við höfum stórlega bætt efnahag okkar á síðari árum. Þetta eru þakkirnar, sem við fáum fyrir að leggja meira en hálfa milljón króna til ríkisþarfa árlega, þrátt fyrir það, að atvinnu- og bjargarskilyrði okkar eru að ýmsu leyti mjög erfið, t. d. er höfnin, sem Monbergsskuldin var greidd fyrir, enn ekki í því standi, að hún geti staðið straum af sér sjálf, þrátt fyrir það, að við greiðum fjórum sinnum hærra gjald af mörgum vorum, sem fara um höfnina í Vestmannaeyjum, heldur en greitt er t. d. í Reykjavík og Akureyri. Við Eyjamenn höfum vissulega ekki verið eftirbátar annara, hvað atvinnu og framtak snertir, og við erum sannarlega vel að því komnir, þótt ríkið leggi okkur eitthvert lið, þegar óvenjulegir örðugleikar steðja að. Ég stend því hér alveg kinnroðalaust sem fulltrúi þessa kjördæmis hér á Alþingi, og vísa slíkum svigurmælum hæstv. fjmrh. í garð míns kjördæmis, algerlega á bug. Ef hann vildi leggja það til, að Vestmannaeyjar yrðu skildar að fjárhag við ríkið, þá skyldi hann fá að sjá það, hvort við Eyjamenn værum ekki menn til að standa á eigin fótum fjárhagslega. Við mundum áreiðanlega geta bjargazt af með allt það, sem nú er sogið af okkur til ríkissjóðsins, og gæti þá hæstv. ráðh sparað sér allan rembing í okkar garð fyrir þessar sakir. Annars mun hæstv. ráðh. aldrei kvaddur til ábyrgðar fyrir fjárstjórn Vestmannaeyjabæjar, og mun hann samt hafa ærið nóg á sinni könnu, ef til þeirra kasta kæmi, að hann væri gerður ábyrgur sóunar sinnar á ríkisfé.

Þá lagði hæstv. ráðh., að við hefðum blandað pólitík inn í þetta mál, drýgt þá óhæfu, að gera þetta mál pólitískt. Þetta er jafnan viðkvæðið í herbúðum stjórnarinnar, er við andstæðingarnir dirfumst að sýna minni andakt og auðmýkt gagnvart frv. stjórnarinnar en hún vill vera láta. Ef við dirfumst að kalla hlutina þeirra réttu nöfnum, þá er það pólitík. Er við stjórnarandstæðingar leyfum oss að kryfja eðli og rök ýmissa þeirra mála, sem stj. hefir á takteinum, og sýna fram á, hvernig hún fer að því að unga sífellt út nýjum embættum og í sífellu auka útgjaldabyrði ríkissjóðsins, allt undir yfirskyni sparnaðar og umbóta, og er við þorum að ganga hreinlega fram í andstöðunni og taka „Tyren ved Hornene“ eins og Danskurinn segir, þá er svarið þetta og aðeins þetta: „hið eruð að blanda pólitík inn í þetta mál“. Þetta er nú næsta barnaleg aðfinning hjá hæstv. fjmrh., þar sem vitað er, að hér blandast meiri og minni pólitík í öll mál, enda eðlilegt að svo sé. Ég er nú satt að segja orðinn langþreyttur á þessum sparnaðarfrv. núverandi stjórnar, þessum sífelldu fóðrunum á nýjum embættum, fjáreyðsluaukningum og sukki stjórnarinnar. Ég er orðinn langþreyttur á þessum umbótafjálgleik, þessari sparnaðarhræsni stjórnarinnar, þegar hún er að breyta fyrirkomulagi á embættum og stofna ný, alltaf til þess að „spara“ og „spara“. Það ætla ég, að fjárhagur ríkisins segi nú til um það, hversu mikil alvara hefir legið á bak við þetta sparnaðarhjal stjórnarinnar. Þess vegna má hæstv. fjmrh. vita það, að meðan ég er hér innan vébanda Alþingis, mun ég nota minn þingmannsrétt til þess að segja stjórninni til syndanna, eftir því sem mér þykir við horfa í hvert skipti, og með þeim orðum, sem við eiga á þingi, jafnvel þó að ráðherra kalli það óviðeigandi „pólitík“ Hæstv. ráð. má verða reiður; honum skal alls ekki hlíft af minni hendi, svo fremi hann og athafnir hans gefi tilefni til slíks. Og hann verður að þola það, þótt hlutirnir séu nefndir þeirra réttu nöfnum; hann verður að læra að horfast í augu við blákaldan veruleikann. Hann skal vita það, að hæstv. ríkisstjórn mun ekki stoða yfirdrepsskapur einn og blekkingar til langframa.