19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (749)

5. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson:

Þetta frv. er í beinu framhaldi af frv. því, sem hér var verið að enda við að ræða (frv. um tekju- og eignarskatt), því að af þeirri sameiginlegu skoðun Íhalds og Framsóknar, hæstv. stj. og meiri hl. skattamálanefndar, að fremur beri að lækka en hækka tekju- og eignarskattinn, hlýtur óhjákvæmilega að leiða hækkun tollanna frá því, sem nú er. Enda er það bert, að frv. þetta hefir í fór með sér tollahækkun, og hana mjög verulega, þó að frekar sé reynt að leyna því í grg., að svo sé. Staðfestir þetta enn, að Framsókn og íhald eru sammála í skattamálum, en stefna beggja er að auka á tollana, en hlífa eignum og gróða við sköttum.

Í fjárlagafrv. stj. er gert ráð fyrir, að verð- og vörutollurinn nemi 2800000 kr., en samkv. grg. frv. er verðtollurinn áætlaður 3030000 kr., svo að hér er hækkunin 230 þús. kr. Þó mun hækkunin vera raunverulega miklu meiri, því að áætlun meiri hl. skattamálanefndar er byggð á innflutningi ársins 1926, sem var óvenjulega lítið innflutningsár. Innflutningurinn hefir aukizt mjög mikið síðan. Það er þess vegna ekki vafi á því, að áætlanir skattamálanefndar um tekjur af verðtollinum eru allt of lagar, og að hér er um allstórfellda tollhækkun að ræða.

Hæstv. fjmrh. fjölyrti mjög um það, hversu vandað hefði verið til undirbúnings þessa frv. Skal ég ekki hafa á móti því, að frv. hafi verið sæmilega undirbúið að því er snertir ákvæði um skattheimtuna og hið ytra form frv. yfirleitt. En hinsvegar lít ég svo á, að ekki hafi eins verið vandað til þess undirbúnings, sem að ákvörðun tollanna og upphæð lýtur og því, hvernig þessir skattar koma niður á landsfólkið, en einmitt það tel ég aðalatriðið. Vægast sagt virðist mjög fljótvirknislega frá ákvæðunum um tollabreytingarnar og flokkunina gengið og því líkast, sem flest sé þar af handahofi. Ég skal færa þessu stað með nokkrum dæmum.

Samkv. frv. skal lagður 11/2% allsherjarverðtollur á allar vörur, sem til landsins flytjast, en auk þess eru fjórir verðtollsfl., á, B, C og D. Svo mun til ætlazt af flm. og meiri hl. skattamálan., að í A- og B-flokki séu aðeins þær vörur, sem þeir telja hreinar óhófsvörur, og í C- og D-flokki vörur, sem þeir að vísu telja óþarfa, en þó ekki jafnmiklar óhófsvörur og í hinum fyrstu 2 flokkum. Ég skal leyfa mér að nefna 3 tegundir af þessum „hreinu óþarfavörum“, sem n. telur og falla undir B-flokk. Eru það: ný egg, ávextir og leir- og glervörur, þ. e. algengur borðbúnaður og búsáhöld. Allar þessar vörutegundir eiga eftir frv. að verða tollaðar með 20% verðtolli auk 11/2% allsherjartolls, eða samtals með 211/2% verðtolli. Samkv. gildandi lögum eru hver 10 kg. nýrra eggja tolluð með kr. 1.80; veit ég ekki með vissu, hversu mikil hækkunin er af hundraði á þessum tolli samkv. frv., því að ég hefi ekki við hendina upplýsingar um verð á eggjum, en vist er hún mikil — alls ekki undir 200%. — Um ávextina er það að segja, að samkv. núgildandi l. eru þeir tollaðir með kr. 0,60 pr. 10 kg., og verður hækkunin þar varla minni, líklega enn meiri. Tollurinn á leir- og glervoru hækkar úr 10% upp í 21%, eða yfir 100%. Þessar 3 vörutegundir virðist meiri hl. n. telja hreinar óhófsvörur, en vitanlegt er flestum, hversu nauðsynlegar þær eru alþýðu manna, og get ég vart trúað því, að meiri hl. hafi í raun og veru ætlað sér að setja þær með óhófsvörum og hækka toll á þeim svo gífurlega; hygg ég fremur, að þetta hafi orðið svo af fljótfærni. En þá fer því fjarri mjög, að þetta sýni góðan undirbúning frv., heldur þvert á móti handahófsmat:

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að C-og D-flokkunum. Þeir skipta í raun og veru miklu meira máli, vegna þess, að þar er um langtum stærri upphæðir að ræða og þar eru teknar flestar algengustu neyzlu- og nauðsynjavörur. Í C-flokki er sértollurinn 10% og að auki bætist svo við allsherjartollurinn, sem nemur 11/2%, svo sem ég áður sagði. Verður þar í þessum flokki fyrst fyrir mér niðursoðin mjólk, sem nú er tolluð 60 aurum pr. 10 kg., en samkv. frv. verður tollurinn af henni alls 111/2 %, þannig, að á þessari vörutegund nemur tollhækkunin a. m. k. 120–150%. Tollurinn á smjörlíki er nú 60 aurar pr. 10 kg., en verður samkv. frv. 111/2%, svo að hækkunin er þar um 200%. Kartöflur eru nú tollaðar 30 aurum pr. 50 kg., og miðað við verð, sem á þeim var í fyrra, verður tollhækkunin á þeim yfir 300 %.

Algengur leður- og gúmmiskófatnaður — hér er svo sem ekki um silki eða lakkskó að ræða, sem spjátrungar nota — er nú tollaður kr. 1.80 pr. 10 kg., en verður samkv. frv. 111/2%. Tollhækkunin er yfir 200%. Olíufatnaður er nú tollaður kr. 1.00 pr. 50 kg., en tollurinn á að verða með frv. 61/2%. Veit ég ekki, um hversu mikla tollhækkun hér er að ræða, en bezt gæti ég trúað, að hún nemi um 500%. Í D-flokki vil ég auk olíufatnaðar geta tveggja vörutegunda, kola og salts, sem samkv. frv. á að tolla um 61/2% alls. Nú er tollur á kolum kr. 2.00 pr. 1000 kg., en salttollurinn kr. 1.00 pr. 1000 kg. Á báðum þessum vörutegundum er því um mjög verulega tollhækkun að ræða.

Ég efast ekki um það, að ef hv. þdm. athuga þetta, muni þeir sjá, að þetta er hvorki hagsýni né réttlæti. Það er engin skynsemi í því að ætla sér að hækka tekjur ríkissjóðsins með því að hækka enn afarháa tolla á þessum vörum, sem nú nefndi ég, og fleiri vörum, sem svipaða þýðingu hafa fyrir alþýðu manna, sízt þegar bent er á annan skattstofn, arð og eignir, sem bæði er réttlátara og meiri hagsýni að nota. Hinsvegar er ekki því að neita, að það er eðlilegra að hafa einn toll en bæði vörutoll og verðtoll á þeim vörum, sem á annað borð eru tollaðar. En ég lít svo á, að allar nauðsynjavörur almennings og framleiðsluvörur eigi í raun réttri að vera tollfrjálsar. Þegar litið er til þess, að útflutningsgjald af öllum vörum nemur 1% til ríkissjóðs, verður því þó ekki neitað, að nokkurt samræmi er í því, að tekið sé hliðstætt innflutningsgjald af öllum vörum, t. d. 1%. Samkv. till. meiri hl. skattamálanefndar er gert ráð fyrir, að allsherjarverðtollurinn af innfluttum vörum nemi 11/2%. Það legg ég til, að verði lækkað niður í 1 %, eða um þriðjung. En þótt ég sé ósammála hv. meiri hl. um allsherjarverðtollinn, tel ég þó megingalla þessa frv. og finn því mest til foráttu, að við þennan allsherjarverðtoll er bætt 5–10 % aukatolli, og í sumum tilfellum 20%, á flestallar nauðsynjavörur almennings í landinu, vörur, sem ekki verður komizt hjá að kaupa, ef fólkið á að geta lifað og starfað hér á landi. Verður þó ekki sagt, að þessa sé þörf, þar sem afla má ríkinu tekna í stað tolla þessara með nokkurri hækkun á tekju- og eignarskatti og fasteignaskatti, eins og ég áður hefi bent á og sýnt fram á í frv. mínum um þessi mál.

Ég mæli ekki gegn því, að þetta frv. fái að fara til n., en hinsvegar mun ég leyfa mér að bera fram brtt. við það.

Vildi ég mega vænta þess af hv. deild, að hún láti frv. þetta fá verðskuldaðan dauðdaga, ef ekki tekst að fá sniðna af því stærstu agnúana, þá, sem ég nú hefi bent á.