08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (751)

14. mál, Brunabótafélag Íslands

Sigurður Eggerz [óyfirl.]:

Ég hefi ekki skrifað nál. í málinu, þó að það væri réttast, en ástæðan er sú, að ég hefi verið að bíða eftir upplýsingum.

En ég hefi hugsað mér að gera brtt. við frv. fyrir 3. umr. nú er það svo, að ef samþ. verður brtt. við 8. gr., er engin gagnkvæmni í ábyrgð á lausafjártryggingunum og öðrum tryggingum. Og það er sjálfsagt rétt, vegna þess hvað erfitt er að koma því við, eins og ég benti á á síðasta þingi.

Þegar Brunabótafélagið var stofnað, sáu menn, hvað mikil áhætta hlaut að fylgja lausafjártryggingunum. Nú þykir mér nokkuð ógætilega ákveðið í 7. gr. Þar segir, að leita skuli endurtryggingar eða samtryggingar hjá öðrum brunabótafélögum á því, sem vátryggingar eru hærri en á eftir segir:

Steinhús ..................................20 þús.

Timburhús eldvarnarklædd .... 15 —

Önnur hús og mannvirki ..........10 —

En af lausafé:

Í steinhúsum .......................... 12 þús.

Í timburhúsum .......................... 9 —

Í öðrum húsum og annað lausafé 6

Þar sem gert er ráð fyrir, að tryggja megi lausafé án endurtryggingar, hygg ég, að skapazt geti allmikil áhætta fyrir ríkissjóð. Maður gæti t. d. hugsað sér, að fleiri tryggingar væru gerðar í sömu húsum, og eins getur tjón á lausafé orðið gífurlegt, ef stórbruni verður. Þetta er því mjög athugavert. Enda segir hér í 7. gr., að félaginu sé „ekki skylt“ að taka hærri lausafjártryggingar en fyrr segir í greininni, eins og ég las upp. En hér er ekki bannað, að það megi taka hærri tryggingar. Þetta er of ógætilegt, og því hefir mér dottið í hug að koma með brtt., sem takmarkar þetta.

Þá er annað atriði — og vísa ég til aths., sem fylgja þessu stjfrv., um ástæður fyrir því. mér þykir það ekki tilhlýðilegt, nú þegar Brunabótafélagið á að fá svo miklu meira starfssvið og aukið við áhættu sína, að það hafi ekki eitthvert fulltrúaráð, og ég held, að meiri hl. n. hafi verið sammála um, að þess væri þörf. En ýmsir álitu, að hægt mundi vera að hafa sameiginlegt fulltrúaráð fyrir fleiri tryggingarstofnanir. Ég geri því heldur ráð fyrir, að við getum brætt okkur saman um brtt. í þá átt við 3. umr. þessa máls.