08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (756)

14. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Tveir meðnm. mínir hafa nú lýst afstöðu sinni og því, að þeir mundu bera fram brtt. um einstök atriði frv. Og vil ég geta þess, að ég get hugsað mér, að þær verði þannig gerðar, að þær þurfi ekki að valda miklum ágreiningi.

Þá ætla ég að minnast á nokkur atriði í ræðu hv. þm. N.- Ísf. Hann talaði eins og það væri nýtt og óvenjulegt ákvæði að skylda menn til að byggja upp á sama stað hús, sem brynnu. Ákvæðin í frv. eru mjög á sama veg og í lögum Brunabótafél. Íslands, sem nú eru í gildi. Ég vil líka benda hv. þm. á, að þessi ákvæði eru alls ekki skilyrðislaus. Þau eru að vísu sett nokkuð stranglega fram í upphafi 14. gr., en þegar liður á greinina, er veitt heimild til að víkja frá þeim. Þá er það fjarri sanni, að þetta sé einstakt fyrir Brunabótafél. Íslands, eins og hv. þm. virtist halda. A. m. k. hefi ég talað við umboðsmenn fyrir önnur félög, sem hafa sagt mér, að slík ákvæði myndu vera í lögum flestra eða allra brunabótafélaga.

Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að þegar skipulagsuppdráttur hefir hamlað endurbyggingu á sama grunni, hefir alls ekki verið beitt þessu ákvæði um frádrátt, ef menn hafa viljað byggja upp annarsstaðar í sama kaupstað eða kauptúni. Hann var að nefna sérstök dæmi um, að menn hefðu orðið illa úti. Má vera, en þau eru þá eldri en ég þekki til, nema ef hann hefir átt við nýlegt tilfelli frá Bolungarvík, þá skal ég upplýsa, að það var þannig, að skipulagsuppdráttur meinaði manninum að byggja á sama stað. Honum var boðið, ef hann byggði upp annarsstaðar í kauptúninu, þá skyldi hann fá brunabæturnar án frádráttar. En hann vildi ekki að því ganga.

Ég minnist annars dæmis frá Ísafirði; þar brann hús og skipulagsuppdráttur meinaði að byggja upp aftur á sama stað, og bæjarstjórn vildi ekki heldur leyfa, að reist væri hús til sömu nota annarsstaðar í bænum. Þetta var sem sé kvikmyndahús. Það var álitið, að í þessu tilfelli ættu þau ákvæði laganna við, að undanþágu frá frádráttarákvæðinu mætti veita. Það var álitið, að almannahagur hamlaði í þessu tilfelli endurbyggingu og eiganda voru greiddar fullar brunabætur.

Loks vil ég benda hv. þm. á, að þessi frádráttur er lækkaður í frv. frá því, sem nú er í lögunum. Í frv. er frádrátturinn ákveðinn 10–20% í stað 15–20% í lögunum, svo að það er þó nokkru sanngjarnara eða næ því, sem hann vill vera láta.

Ástæðan fyrir því, að Brunabótafélagið og önnur vátryggingarfélög setja þessi skilyrði um endurbyggingu á sama stað, er vitanlega sú, að tryggja það, að ekki sé freisting til að valda íkveikjum í húsum, aðeins til þess að losa það fé, sem í húsunum stendur.

Hafi hv. þm. talað í alvöru um það, að heimtað væri, að menn byggðu aftur nákvæmlega á sama stað og í sama formi, getur hann seð, að í 14. gr. segir ekkert um það. Félaginu er aðeins skylt að tryggja það, áður en brunabæturnar eru greiddar, að þeim sé réttilega varið, og því verður það að hafa rétt til að ganga eftir því, að hús sé reist aftur til sömu nota og húsið, sem brunnið hefir.

Hv. þm. talaði um, að iðgjöld Brunabótafélagsins væru svo há, að því minni ástæða væri til að áskilja frádrátt. Ég veit ekki, á hverju hann byggir þessa staðhæfingu. Því ég get fullyrt, að iðgjöldin hjá því eru verulegum mun lægri en hjá öðrum félögum, sem hér starfa og eru í iðgjaldasambandinu. (JAJ: Frádrátturinn er líka mikill). Já, í gildandi lögum sjálfsábyrgðir, en í frv. er heimilað að vátryggja fulla virðingarupphæð.

Geri maður samanburð á iðgjöldum, þá hefir Brunabótafélagið í einum flokki (I. fl.) öll steinhús, hvernig sem þau eru byggð innan, með eldtryggu þaki, og iðgjaldið er 2‰. hjá öðrum félögum er greitt jafnmikið, 2‰, fyrir hús, sem byggð eru úr steini bæði utan og innan. En fyrir þau hús, sem byggð eru með timbri að innan, er greitt eftir taxta þeirra félaga 21/4‰. Í II. flokki, sem er alveg sambærilegur hjá Brunabótafélagi Íslands og öðrum félögum, eru iðgjöld Brunabótafélags Íslands 4‰, en hjá öðrum félögum 5‰. í III. flokki, sem einnig er sambærilegur, eru iðgjöld Brunab6tafélagsins 51/2‰. en hjá öðrum 7‰. Þessi samanburður á aðeins við, þegar frágangur eldfæra er eins og áskilið er í brunamálalögunum. En sé það ekki, má alveg eins gera samanburð. Í I. flokki hjá Brunabótafélaginu eru iðgjöldin þá 21/4‰, hjá öðrum félögum 21/2‰. Í II. flokki 6‰ móti 71/2‰ hjá öðrum félögum, og í III. flokki 8‰ á móti 101/2‰. Af þessum samanburði má sjá, hvað hæft er í því, að iðgjöld Brunabótafélagsins séu hærri en hjá öðrum vátryggingarfélögum.

Hv. þm. spurði, hvort það sé rétt, að einstökum mönnum hafi verið veitt lán úr sjóðnum svo hundruðum þúsunda kr. skipti. Spurningin er nokkuð óákveðin, svo að erfitt er að svara henni, nema ef hv. þm. meinar það einstaka dæmi, sem alkunnugt er, að eitt fasteignaveðslan var veitt einum manni hér í Reykjavík. Þessi lánveiting var sumpart um garð gengin og sumpart undirbúin og fastlofuð þegar ég tók við umsjón sjóðsins. Þá get ég og upplýst það, að nokkrir kaupstaðir og kauptún hafa fengið lán úr sjóðnum, ýmist til kaupa á brunavarnatækjum eða til annars, og þá gegn ríkisábyrgð, en þessar upphæðir skipta ekki hundruðum þúsunda.

Annars finn ég ekki ástæðu til þess að fara langt út í umr. á þessu stigi málsins. Það liggja engar brtt. fyrir frá minni hl. n. eða öðrum hv. þm., en ef þær verða bornar fram, þá er tími til að taka þær til umræðu.