26.03.1931
Neðri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (763)

5. mál, verðtollur

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég hefi orðið ósammála framsóknarflokks- og íhaldsmönnum fjhn. um verðtollsfrv., eins og jafnan, er tekjuaukafrv. eru til umr. Milli þessara flokka er nú myndaður einskonar bræðingur um að koma sameiginlegum tekjuaukafrv. fram í þinginu, til þess að komast hjá deilum um þau mál við næstu kosningar.

Þessir flokkar hafa sýnt þetta mjög greinilega við nýafstaðna atkvgr. um tekju- og eignarskattsfrv., þar sem fulltrúi Framsóknarfl. í fjhn. gat ekki fengið samþ. þá brtt. við frv., er hann lagði mesta áherzlu á. Getur hann nú sagt sínum kjósendum þær fréttir, að hann hafi engu komið fram, og þá fallizt á mál Íhaldsins. Báðir þessir flokkar hafa orðið ásáttir um að lækka tekjuskatt þrátt fyrir aukna tekjuþörf ríkissjós, en afla aftur teknanna með auknum tollum á nauðsynjavörum almennings. Það skiptir ekki miklu máli, hvort tollurinn er tekinn sem verð- eða vörutollur. Það er aðeins formsatriði. Tollurinn kemur í aðalatriðum niður á sömu mönnum og einni stétt manna, verkalýðnum í landinu. Virðist svo, sem báðir þessir flokkar ætli að standa saman um það að lækka skatta en hækka tolla og varpa með því gjöldum til ríkissjóðs meir en áður yfir á herðar fátækari hluta þjóðfélagsins.

Við jafnaðarmenn viljum í þessum efnum fara allt aðra leið. Við viljum fella niður C- og D-lið 9. gr. frv., sem þýðir það, að enginn tollur verði lagður á þær vörur, sem þar eru taldar, en það eru allt nauðsynjavörur, sem almenningi er óhjákvæmilegt að kaupa, svo sem fatnaður og allskonar vefnaðarvörur, skófatnaður o. m. fl. En eftir till. frv. og n. eiga þessar vörur að tollast með 10% verðtolli. Ennfremur viljum við fella niður 5% toll samkv. frv. á öðrum vörum, sem teljast mega enn nauðsynlegri, svo sem kornvörur o. þ. u. 1. Auk þess leggjum við til, að hinn almenni tollur sé minnkaður um 1/3, færður úr 11/2 í 1%. —

Tekjuhalla þann, er ríkissjóður mundi bíða af þessum brtt., ætlum við að vinna upp með hækkun fasteignaskatts og tekjuskatts. — Þó till. okkar jafnaðarmanna í þessu efni virðist eigi ætla að fá mikinn byr í þinginu, þá er þó skattafrv. ekki ennþá afgr., og sjáum við því ekki ástæðu til að falla frá okkar brtt. við frv. um verðtoll.

Jafnhliða því, sem þessir flokkar vilja háan toll á nauðsynjavörum, til þess að velta gjaldabyrðum ríkisins sem mest á alþýðuna í landinu, vilja þeir nota þennan háa toll sem verndartoll fyrir þær samskonar vörur, sem framleiddar eru í landinu sjálfu, í stað þess að tolla ekki þær aðflutningsvörur.

Ég get satt að segja ekki annað en undrast yfir framkomu Framsóknarflokksins og Íhaldsflokksins í þessu máli. Ef afstaða þeirra er borin saman við stefnur stjórnmálaflokka í nágrannalöndunum, sem eru nú almennt mjög að snúast á móti hverskonar verndartollum, get ég t. d. nefnt liberala flokkinn í Englandi, sem berst eindregið á móti verndartollum, þá kemur fram alleinkennileg mótsetning. — Framkoma þessara tveggja flokka í skatta- og tollamálum synir glögglega, hve íhaldssamir þessir flokkar eru, sem við jafnaðarmenn eigum í höggi við, að þeir ganga langt fram fyrir skjöldu flestra annara borgaralegra flokka í íhaldsseminni. Það þarf ekki í neinar langleitir til þess að sjá afleiðingarnar af lækkun skatta, en hækkun tolla. Það er alkunnugt, að skattar hvíla á þegnunum eftir efnum þeirra og ástæðum, en tollarnir verða jafnan nefskattar, og sérstaklega verða tollar af nauðsynjavörum nefskattar af verstu tegund, því þeir koma þyngst niður á stærstu fjölskyldunum, sem eru að jafnaði fátækasta fólkið. — Tollafyrirkomulaginu fylgir svo hin rándýra innheimta á þessum gjöldum. Innflytjendur eru látnir greiða tollinn, en svo verða þeir að leggja hann á vörurnar að viðbættu áhættugjaldi, sem að sjálfsögðu leggst á herðar þeirra, er kaupa vörurnar. Ofan á sjálfa tollana leggst þannig, álagning, sem nemur um 10–100% af verðinu, a. m. k. Auk þess, sem þjóðin borgar í ríkissjóð vegna tollanna, verður hún að borga í vasa verzlunarstéttarinnar oft eigi minni upphæð en tollinum nemur.

Ég þykist vita það fyrirfram, að þar sem Íhald og Framsókn hafa komið sér svo vel saman í mþn. og fjhn., þá munum við jafnaðarmenn ekki fá þessum réttlætiskröfum okkar framgengt. En ég býst við því, að það liði ekki mörg ár þangað til þeir þm. muni ekki eiga hingað afturkvæmt á þingið, sem fylgja annari stefnu en Alþýðuflokksins í skattamálum.