26.03.1931
Neðri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (768)

5. mál, verðtollur

Pétur Ottesen:

Það á nú raunar ekki við að tala mjög almennt um málið, þar sem það er nú til 2. umr., en þar sem aðrir hv. þm. hafa leyft sér það, þá vona ég, að hæstv. forseti hafi ekkert við það að athuga, þótt ég tali um málið á nokkuð breiðum grundvelli.

Árið 1912 var fyrst komið á vörutolli hér á landi, til þess að fylla það skarð, sem höggið var í tekjur ríkissjóðs með áfengisbanninu. Síðan hafa jafnan verið uppi tvær stefnur í tollamálum: vörutollsstefnan, þ. e. að tolla vöruna eftir þunga hennar, og verðtollsstefnan, sem er í því fólgin, að lagður er tollur á vöruna eftir verðgildi hennar.

Árið 1912 var mikið deilt um það, hvorn kostinn skyldi taka. Að lokum fór þó svo, að vörutollsleiðin var farin. Á næstu árum var svo oft farið fram á það að breyta vörutollinum í verðtoll að mestu leyti. En það var jafnan fellt, og náði þessi verðtollshugmynd sér lítið niðri um nokkra hríð.

Árið 1921 kom einnig slík till. fram í þinginu. Var þá leitað álits allra lögreglustjóra í landinu á því, hvort heppilegra væri að hafa verðtoll eða vörutoll. Stj. bárust svör frá 10 lögreglustjórum. 9 þeirra lögðu eindregið á móti því, að horfið væri frá vörutollinum. Aðalástæður þeirra voru þær, að miklu erfiðara væri að innheimta tollinn, ef verðtollsleiðin væri farin. Voru góð og gild rök færð fyrir þessari skoðun í grg. þessara lögreglustjóra. Eini lögreglustjórinn, er var hlynntur verðtolli, færði engar ástæður fram fyrir skoðun sinni. Það varð ofan á í þetta sinn sem fyrr að láta vörutollinn haldast.

Á þinginu 1924 var loks samþ. að leggja á verðtoll jafnhliða vörutollinum. Hefir svo staðið þangað til nú, að lagt er til í frv. því, er hér liggur fyrir, að vörutollurinn skuli algerlega þoka fyrir verðtollinum. Og í frv. er gert ráð fyrir, að eins miklar tekjur verði af verðtollinum einum framvegis og af báðum tollunum áður. mér er ekki kunnugt um, hvort nú hefir verið leitað álits lögreglustjóranna í landinu, að tollstjóranum í Reykjavík undanteknum. Hann hefir látið álit sitt í té, og er það á þá leið, að hann telur, að verðtollsleiðin sé eins heppileg. Þessi sami maður lét í ljós álit sitt árið 1921, og var það alveg gagnstætt áliti hans nú.

Þó að tollstjórinn í Reykjavík áliti, að jafnhægt sé að innheimta verðtoll og vörutoll, þá verður að gæta þess, að lögreglustjórar úti um land hafa allt aðra aðstöðu en hann. Það er öllum kunnugt, að tollstjórinn hefir heilan hop manna í kringum sig, til þess að líta eftir því, að tollar séu greiddir af öllum tollskyldum vörum. Svo að þó að hann líti svo á, út frá aðstöðu sinni, að jafnhægt sé að innheimta verðtoll og vörutoll, þá geta verið mjög miklir annmarkar á því úti um land, þar sem tollþjónar eru ekki nema í stærstu kaupstöðunum.

Það er fengin reynsla fyrir því, að sé vörutollsleiðin farin, þá hafa þeir, sem innheimta tollinn, jafnan glögg gögn í höndum, er gera þeim auðvelda innheimtuna og koma í veg fyrir tollsvik. En um verðtollinn er þessu ekki til að dreifa. Verður þá mest að byggja á reikningum þeim, sem innflytjendur leggja fram um vöruverðið. En sé vörutollur hafður, þá má alltaf hafa til hliðsjónar hleðsluskírteini skipanna, er jafnan liggja fyrir.

Þá er og annar mikill galli á verðtollinum. Hann er sá, að tollurinn hækkar að sama skapi og vöruverðið. Sé þannig mjög hátt verð á nauðsynjavörum, þá verður tollurinn af þeim einnig mjög þar. Eykur það þannig enn á dýrtíðina og hina erfiðu tíma, sem af henni leiðir. Þetta er mikill okostur, sem verðtollurinn hefir fram yfir vörutollinn. Auðvitað kemur þetta ekki að sök með nauðsynjavörur, sem óþarfi er að flytja inn og við getum framleitt sjálfir í nógu ríkum mæli.

Fylgismenn þessa verðtollsfrv. vitna til þeirrar reynslu, sem þegar er fengin um innheimtu verðtollsins síðan 1924. En þess ber að gæta, að með því að hafa vörutoll jafnframt, hefir það orðið miklu léttara að innheimta verðtollinn. Hygg ég því, að menn renni að mestu leyti blint í sjóinn hvað þetta snertir.

Hvað það snertir, að verðtollur sé réttlátari en þungatollur, þá má það að vísu til sanns vegar færa í sumum tilfellum. En það getur áreiðanlega brugðið til beggja vona, hvort fyrirkomulagið sé betra og hagkvæmara ríki og þjóð, eins og ég hefi áður bent á.

Tveir hv. þm., hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. Reykv., hafa talað töluvert um verndartolla í sambandi við þetta frv., og byggja þeir á því, að samkv. frv. verður nokkur hækkun á tollum af ýmsum þeim vörum, sem fluttar eru frá útlöndum, en framleiða má í landinu sjálfu.

Hvar sem er í heiminum hefir verið deilt um verndartolla. Það er alveg rétt, að verndartollastefnan hefir yfirleitt átt erfitt uppdráttar. En hitt mun öllum ljóst, sem fylgzt hafa með þessum málum, að henni er alltaf að aukast fylgi. Og ég veit ekki betur en að á Englandi hafi einmitt komið upp háværar raddir nýlega um að vernda innlenda framleiðslu gegn útlendri með tollum. Ég held meira að segja, að þessar raddir hafi komið frá jafnaðarmönnum þar, og að sjálfur fjármálaráðherrann, Philip Snowden, hafi verið þessari stefnu mjög fylgjandi.

Það eru ýmsir stjórnmálamenn og fjármálamenn í löndunum hér í kring, sem sjá ekki aðra leið út úr erfiðleikunum en að gera ráðstafanir til að tryggja innlenda framleiðslu með verndartollum, og nú er svo komið, að við erum, miðað við fólksfjölda, einhver mesta framleiðsluþjóð heimsins, en markaðurinn, sem við eigum við að búa, er mög þröngur og okkur óhagkvæmur, og þá leiðir af sjálfu sér, hve mikilsvert er fyrir okkur að geta notað þann markað, sem er til í landinu fyrir þessa voru, út í æsar. En innflutningsskýrslur tala skýru máli í þessu efni; árlega eru fluttar inn frá útlöndum vörur, sem eru okkar helzta framleiðsla, t. d. árið 1925 var flutt inn mjólk og mjólkurafurðir, fiskur og kjötmeti fyrir 11/2 millj. kr. Svona hefir það verið og er síðan, og stundum miklu meira, og fram yfir þetta komu kjötbirgðirnar, sem fluttar voru inn í sumar, þvert ofan í gildandi lagaákvæði um þetta efni. Frá okkar bæjardyrum séð er það vert, að eitthvað sé gert til þess, að notaður sé sá markaður, sem til er í landinu, fyrir framleiðsluvörur okkar.

Þess vegna er ég fyrir mitt leyti mótfallinn brtt. hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 168, að fella nokkrar af framleiðsluvörum okkar undan tolli. Ég býst við að styðja að því við 3. umr., að gert verði eitthvað til að tryggja, að markaður okkar fyrir innlenda voru verði betur notaður en verið hefir — Ég fer ekki út í það, hve mikið tjón er að því að flytja út ullina okkar, sem er vitanlega til þess hæf að veita okkur skjól og hlýindi hér úti á hjara veraldar, og flytja svo í stað þess inn silki, bómull og allskonar grisjuvefnað, sem miðaður er við loftslag heitu landanna. —1928 var fluttur inn tilbúinn fatnaður, sem eingöngu er úr ull, fyrir fullar 3 millj. kr. Sama ár var fluttur inn ýmiskonar vefnaður fyrir fulla millj. kr. — Þarna eru komnar 4 millj., og að viðbættu því, sem flutt hefir verið inn úr dýraríkinu, sem er 11/2 millj., þá verður þetta alls 51/2 millj. kr.

Við skyldum sjá, hvort búskapur okkar og afkoma væri ekki öðruvísi, ef við hefðum notað okkar eigin framleiðslu, í stað þess að kaupa allt frá útlöndum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en við 3. umr. verður það till. mín að hlúa að innlendri framleiðslu og stuðla að því, að upp verði tekið hagkvæmara búskaparlag í landinu.