26.03.1931
Neðri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (770)

5. mál, verðtollur

Magnús Jónsson:

Það á ekki við að ræða málið almennt við þessa umr., en ég vil þó segja, að ég tel breyt. á tollunum varhugaverða og álit, að ekki beri að gera hana, nema verulegir hagsmunir séu í aðra hönd.

Hv. frsm. heldur því fram, að núgildandi tollafyrirkomulag sameini gallana, sem því eru samfara að hafa verðtoll og vörutoll. Má ef til vill ýmislegt að þessu fyrirkomulagi finna, en ég verð að segja það, að það hefir þann höfuðkost að vera það fyrirkomulag, sem er og hefir lengi verið, því að ég tel allar breyt. á tollalöggjöfinni mjög varhugaverðar. séu tollarnir lækkaðir mikið, kemur það niður á þeim, sem liggja með miklar birgðir af þeim vörutegundum, sem tollalækkunin nær til, og dregur þann dilk á eftir sér, að þeir eiga illt með eða geta jafnvel alls ekki staðið í skilum við banka og aðrar lánsstofnanir, og veldur þetta ýmsum fleiri örðugleikum. séu tollarnir aftur á móti hækkaðir, kemur það niður á kaupendum, þannig, að kaupmenn geta selt gamlar vörubirgðir við uppsprengdu verði í skjóli tollhækkunarinnar. — Ég átti sæti í fjhn. þessarar deildar þau arin, þegar mest var verið að hringla í tollaloggjöfinni, og þá fékk ég skilning á því, hversu hroðalegar afleiðingar allar breyt. á þessari löggjöf geta haft, og þar sem það nú er mjög mikið vafamál, að hér sé um batnaðarbreytingu að ræða, hika ég því ekki við að greiða atkv. á móti þessu frv. Ég vildi þó mæla með því, að brtt. hv. 2. þm. Reykv. yrði samþ., því að því verður ekki á móti mælt, að með því að setja 20% vörutoll ofan á hinn almenna verðtoll, hlýtur það að verka sem hver annar verndartollur. Var góður skilningur á þessu hjá hv. þm. Borgf. Hann mælti eindregið á móti þessari till., enda er hann, svo sem kunnugt er, síbúinn talsmaður verndartolla á landbúnaðarafurðum.

Um verndartolla má ýmislegt segja, með og móti. Þeir, sem verndartollum eru fylgjandi, segja, að nær sé að stuðla að því, að hinar ýmsu iðnaðarvörur séu framleiddar í landinu sjálfu, og vilja ná því marki með hærri og hærri verðtollum. En þetta er mjög varhugavert. Það er mikið kvartað yfir dýrtíðinni hér í Reykjavík og alið á þessu af þeim mönnum, sem virðast ekki eiga annað áhugamál meira en að rægja Reykjavík úti um sveitir landsins. Þaðan stafar öll bölvunin fyrir þjóðina, segja þessir menn. En af hverju stafar þá dýrtíðin hér í Reykjavík? Verðvísitalan í Hagtíðindunum frá því í febrúar í ár sýnir, að frá því í júlí 1914 hafa útlendar vörur hækkað um 57%, en innlendar um 107%. Verðvísitala innlendu varanna er 207, en hinna útlendu 157. Sest af þessu, að dýrtíðin hér stafar ekki hvað sízt af því, hve innlendar vörur eru dýrar, og ef nú væri farið að tollvernda þær, mundu þær stiga enn í verði. Ef menn því vildu minnka dýrtíðina hér í Reykjavík, á að leyfa þessum vörum að koma í flokk með hinum, sem minna hafa hækkað í verði, en ekki að stuðla að því, að innlendar vörur fari hækkandi í verði frá því, sem er.

Þá var það annað atriði, sem ég vildi draga fram í sambandi við þetta frv. Iðnaðarmenn berjast nú með hnúum og hnefum fyrir því að fá fram hátollun á útlendum iðnaðarvörum. Er þetta eðlilegt og sömu ástæður fyrir því sem þessu. Hefi ég ekki tekið undir þessar raddir, þó að iðnaðarmenn hafi þráfaldlega komið að máli við mig um þetta, eins og líklega fleiri þm., vegna þess, að mér er það ljóst, að slíkt mundi verða til að auka dýrtíðina í landinu, því að í kjölfar þessa verndartolls mundu koma aðrir verndartollar, t. d. á landbúnaðarvörum. Ef hinsvegar hér á að fara að neyta aflsmunar og setja verndartoll á landbúnaðarvörur, eins og ég get búizt við, að allmargir hv. þm. séu fúsir til, verður erfitt að standa á móti því, að iðnaðarvörurnar verði einnig verndartollaðar. Hér er nefnilega um vísi að meiru að ræða en menn virðast hafa gert sér grein fyrir. Menn vilja setja verndartoll á kartöflur og allt mögulegt, sem þeir hafa að selja náunganum, en gæta þess ekki, hver böggull fylgir þessu skammrifi. Er það eftirtektarvert, að sú þjóðin, sem mestum fjármálaþroska hefir náð, en það eru Englendingar, skuli standa á móti verndartollastefnunni. Þetta er komið svo fast inn í ensku þjóðina, að hún lætur sig ekki, þó að blaðakóngarnir básúni það fjöllunum hærra, hvílíkt hnoss verndartollarnir séu.

Þriðja atriðið, sem ég vildi drepa á, er ekki síður athugunarvert. Á ég hér við það, hvernig fara mundi fyrir okkur Íslendingum, ef við byggðum kringum okkur verndartollamúr og aðrar þjóðir svöruðu með því sama. Ég er ekki viss um, að það yrði mikill gróði fyrir okkur, ef t. d. Englendingar svöruðu með því að setja verndartoll á ísfiskinn. Menn verða að hafa það í huga, að alltaf er hætt við því, þegar um viðskipti við aðra er að ræða, að maður fái líkt svar og maður yrðir á hinn aðiljann.

Ég hefi þá gert nokkra grein fyrir því, af hverju ég fylgi brtt. hv. 2. þm. Reykv., en hinsvegar mun ég ekki geta fylgt frv. í heild sinni, eins og ég þegar hefi tekið fram.