26.03.1931
Neðri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (771)

5. mál, verðtollur

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. meiri hl. hélt því fram, að ekki hefði verið hægt að bera verðtollinn saman við neitt annað, þegar hann var settur árið 1922, og að það verk, sem verðtollinum þá var ætlað að inna af höndum, sé nú minna en honum upphaflega var ætlað. Út af þessu vil ég leyfa mér að benda hv. frsm. á það, að það var fyrst árið 1922, að farið var að flokka hinar ýmsu vörur til tollunar, þó að meira hafi að vísu verið gert að því síðar, og að því leyti, sem þetta krefst meira eftirlits, má minna á það, að tolleftirlitið er nú yfirleitt meira og betra en þá var, svo að þetta út af fyrir sig afsannar það ekki, að verðtollurinn geti sinnt stærra hlutverki en honum var ætlað að gera, þegar hann upphaflega var settur.

Þá sagði hv. frsm. það ennfremur, að með því að hafa bæði verðtoll og vörutoll væri haldið í ókostina, sem hvorumtveggja þessum tolli væri samfara. Verð ég að segja það, að því aðeins er rétt að breyta til í þessu efni, ef breytt er um til batnaðar, því að það nær vitanlega engri átt að fara að taka upp fyrirkomulag, sem hefir fleiri og meiri ókosti en það fyrirkomulag, sem nú er ríkjandi. Hefi ég bent á það áður, að aðalkostur vörutollsins væri sá, hve hægur hann væri í framkvæmd, þar sem um er að ræða lítið tolleftirlit, enda er það svo, að sá verðtollur, sem nú er, byggist að miklu leyti á þessum kostum vörutollsins, og reyndar fleiri kostum hans. Þetta er það, sem gerir þá breyt., sem hér er farið fram á að gera, viðsjárverða í mínum augum. (HStef: Tollstjórinn er á öðru máli). Ég var ekki kominn að því atriði, en hv. frsm. getur verið þess fullviss, að ég ætlaði ekki að ganga framhjá því. Vil ég í því sambandi fyrst benda á það, að leitað hefir verið álits tollstjórans hér í Reykjavík eins í þessu máli og vanrækt með öllu að fá álit tollstjóranna úti um land, sem búa við önnur skilyrði, því að hér er tolleftirlitið bezt, en meira eða minna ábótavant úti um landið, og sumstaðar svo að segja ekkert. Ef menn því hefðu viljað fá eitthvað ábyggilegt til að styðjast við um það, hvort heppilegt væri að leggja inn á þessa braut, hefði átt að leita álits þeirra embættismanna úti um land, sem hafa með þessi mál að gera, jafnframt því, sem leitað var álits tollstjórans hér í Reykjavík. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þegar leitað hefði verið álits tollstjórans hér í Reykjavík viðvíkjandi tollamálunum árið 1921, hefði hann ekki haft við annað að styðjast en vörutollinn. Þetta er ekki rétt, því að tollstjórinn hafði þá um nokkurt skeið innheimt ýmsa aðra tolla og byggði umsögn sína á þeirri reynslu, sem hann þannig hafði fengið. Hinsvegar efast ég ekki um það, að ummæli tollstjórans nú séu rétt, borin saman við þá aðstöðu, sem hann hefir, en þau varpa ekki ljósi yfir það raunverulega í þessu máli, af þeim ástæðum, sem ég þegar hefi tekið fram. — Ég get látið mér þetta nægja við hv. frsm. meiri hl. Ég býst við, að það sé nú þegar ráðið, að frv. verði samþ. og reynt verði að fara þá leið, sem það markar, og reynslan þannig látin skera úr, hvað heppilegast sé í þessu efni.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. Reykv. Hann drap á þau orð, sem ég let falla í fyrri ræðu minni viðvíkjandi tollvernd á íslenzkri framleiðslu. Sagði hv. þm., að þetta léti vel í eyrum. En það er nú einmitt það, sem það ekki gerir, því að ef það léti vel í eyrum, mundi meira hafa orðið um framkvæmdirnar í þessum efnum. Sú er ógæfan, að ekki hefir verið hægt að opna eyru manna fyrir nauðsyn tollverndarinnar á ísl. framleiðslu og þeim þjóðþrifum, sem af henni mundi leiða. — Hv. þm. var að tala um dýrtíðina hér í Reykjavík og benti í því sambandi á það, að innlendar vörur hefðu hækkað meira í verði en útlendar síðan fyrir stríð, og átti þetta að sanna, hve varhugavert það væri að gera nokkuð til að reyna að tryggja hér söluna á innlendum vörum fram yfir það, sem er. Ég vil út af þessu leyfa mér að benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að vörur úr dýraríkinu hafa yfirleitt hækkað meira í verði á heimsmarkaðinum en aðrar vörur, t. d. kornvörur, enda er tollurinn, sem við leggjum á þessar vörur, ekki meiri en af öðrum nauðsynjavörum, sem við flytjum inn. Þó að reynt væri að stuðla að því, að við nýtum meira sjálfir hins innlenda markaðs fyrir innlendar vörur en við nú gerum, þarf ekki af því að leiða neina verðhækkun, heldur þvert á móti, en munurinn er, að það fé, sem nú rennur út úr landinu, mundi þá renna til innlendra framleiðenda og gera þeim hægara fyrir með að auka framleiðsluna, og þannig gera vörurnar ódýrari.