23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (784)

18. mál, samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Gunnar Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég get verið hæstv. stj. þakklatur fyrir frv. þetta, því að svo undarlega bregður við, að það hefir alltaf verið mín skoðun, að þannig ætti að taka á málinu. Ég er ekki jafnþakklátur fyrir næsta mál. (Vetrarvegur yfir Hellisheiði). En ég skal ekki blanda því saman. — Samgöngumálin eru hér aðalatriðið, og austurhluti sýslunnar hefir verið svo skorinn frá og samgöngur svo erfiðar, að það mundi sannast, að sýslan byrjaði að leggjast í auðn austan Þverár, ef ekki er bætt úr. Og eins og hæstv. forsrh. tók fram, verður þetta ekki aðeins samgöngubót fyrir austurhluta Rangarvallasýslu, heldur tengir vegina í Skaftafellssýslu við bílvegi vestan Þverár. Það er brú á Þverá, sem mest liggur á, því að eftir henni bíða nú tvær einhverjar blómlegustu sveitir landsins. Ég vil gera þá fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort það sé ekki hans meining, eins og stendur í aths. frv., að byrja þegar á næsta ári. Þar í aths. er gert ráð fyrir, að verkinu verði lokið á tveimur næstu árum. En það er ekki hægt, nema byrjað verði á að brúa Þverá í vor.

Það gleður mig, að vegamálastjóri hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að byrja á samgöngunum og þreifa sig síðan áfram með varnirnar. Ég hefi þá trú, að takast megi að hlaða fyrir öll vötn með tímanum, en til þess þarf meiri reynslu en fengin er. — Ég ætla ekki að fara út í einstakar gr. frv. nú við 1. umr. Þó tel ég það misskilning hjá hæstv. forsrh., að leggja megi 1/4 kostnaðar við framlengingu Seljalandsgarðsins á bændurna, sem hlut eiga að máli. Þeim er í rauninni ofvaxið að bera nokkurn kostnað af þessu, en það munar aldrei mjög miklu í heildarkostnaðinum. Ég vík síðar að þessu.