09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (802)

5. mál, verðtollur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Þegar málið var síðast til umræðu hér, var naumur tími og komið að fundarlokum. Gafst mér því ekki tími þá til að minnast á nokkur ummæli, er fellu við 2. umr. Vil ég því lítilsháttar gera það nú.

Hv. þm. Ísaf. komst svo að orði, að ég hefði sagt, að tollar á vörum almennt væru hinn réttlátasti tekjustofn, sem til væri. Þetta er ekki rétt eftir mér haft. Ég sagði einungis, að tollur á óþarfa- og munaðarvöru væri einn hinn réttlátasti tekjustofn. Að öðru hnigu orð mín ekki. Þá talaði sami hv. þm. á þá leið, sem skilja mátti svo, sem hér væri um nýja tollálagningu að ræða. Sama mátti heyra á fleiri hv. þm., svo sem hv. þm. N.-Ísf., en að honum vík ég nánar síðar. En hið rétta er, að þótt frv. verði samþ. óbreytt, þá er um enga nýja tollaálagningu að ræða og enga breytingu á milli vörutegunda frá því, sem nú er, hvorki almennt né á þeim vörum, sem hv. þm. N-Ísf. gerir lækkunartill. um.

Það hefir nokkuð verið rætt um það, að í frv. sjálfu og einstökum brtt., sem fyrir liggja, felist ákveðin verndartollastefna. Að því er frv. sjálft snertir, þá held ég, að varla sé hægt að hafa orð á því, eða nefna það því nafni, þótt að öðru jöfnu lítilsháttar hærri tollur væri lagður á þær vörutegundir, sem framleiddar eru í landinu. Það er ekki annað en sjálfsögð hagsýni og sanngirni gagnvart eigin framleiðslu.

Það virðist svo af umr., sem sumir hv. þm. haldi það, að nýja ávexti eigi að tolla með 20%. Ég vil út af því vekja athygli á því, að þeir eru ekki taldir upp undir þeim flokki. Þar er eingöngu talað um ávexti og grænmeti, þurrkað, saltað, niðursoðið og syltað. Nýir ávextir falla því undir C-flokk og tollast með 5% + 11/2 %, alls 61/2%. Er það mjög líkt þeim tolli, sem á þeim er nú.

Viðvíkjandi þeim brtt., sem fram eru komnar, vildi ég segja fáein orð. Um brtt. á þskj. 302 er það að segja, að ég fyrir mitt leyti get fallizt á fyrri liðinn. Að vísu er þetta ekki mikilsvert atriði, því þær vörur, sem þar eru taldar, eru mjög lítið fluttar inn. En þær mega gjarnan vera í hæsta verðflokki. 2. lið till. hefi ég tilhneigingu til að fallast á, en þykir þar þó fulllangt gengið.

Þá er brtt. 299,1. Um þann lið vil ég aðeins geta þess, að hann er samræmilegur till. n. og mun hún því eigi vera móti þessum lið till.

Annar töluliður þessarar brtt., stafl. a., er líks efnis og fyrri liður till. á þskj. 302. Hefi ég minnzt á efni hennar áður og þarf ekki að gera það frekar hvað þennan lið snertir. Það er einkum c-liður till., sem kemur til álita, því b.-liðurinn er afleiðing af honum. Hv. þm. talaði um þessar brtt. sínar eins og ætlað væri í frv. að hækka toll á þessum tegundum, sem þar eru taldar upp. Svo er þó ekki. Hv. þm. vill færa tollinn á þessum vörum úr 20% niður í 10%. En ég vil upplýsa það, að eftir till. frv. verða þessar vörur tollaðar líkt og nú er. Þetta á við kex, kökur og hverskonar brauð, að undanskildu skipsbrauði, reiðhjól o. s. frv. Nú eru verðtollur og vörutollur samlagðir um og yfir 20% á þessum tegundum. Er því um engan eða nálega engan mun að ræða. Út af fyrir sig væri það að vísu gott, að hægt væri að færa tolla niður á ýmsum vörutegundum. En sé það gert á miklu vörumagni, eins og hér er um að ræða, þá rýrna líka tekjur ríkissjóðs allmjög við þá lækkun. Ég hefi gert það upp lauslega með till. manni, hve miklu sú tekjurýrnun mundi nema, og niðurstaðan var, að tekjurnar af tollinum lækkuðu um 100–120 þús. kr. Af þeim ástæðum er það eingöngu, að ég sé ekki, að fært sé að fallast á þessa lækkun; en ekki af hinu, að ekki sé í sjálfu sér æskilegt að geta haft tollana sem lægsta.