09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (808)

5. mál, verðtollur

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. forseti hefir nú lagt þann úrskurð á, að brtt. mínar megi koma til atkvgr. Þarf ég því ekki um það að tala.

En ég vil benda á það ákvæði 5. gr., að póstmenn skuli kvitta fyrir verðtolli með frímerkjum. Ég veit ekki, hvort það hefir verið athugað, að með þessu fá þeir, er tollinn greiða, endurgreidd 40% af tollinum. Það er kunnugt, að fyrir 10 kr. frímerki fást 4 kr. Og fyrir t. d. 1 eyris frímerki fæst 100%. Ég veit, að af póstmönnum verða heimtuð 1-eyris frímerki og tollurinn þar með fenginn endurgreiddur.

Þá vil ég einnig benda á það, að þær vörur, sem sendar eru í póstbögglum, eru samkv. 10. gr. flokkaðar eftir reglum 9. gr. Verða þær því undanþegnar 11/2% verðtollinum, svo sem um getur í 8. gr.

Þá er um það talað í frv., að frímerkin séu stimpluð með venjulegum stimpli. Ég býst því við, að það verði gert á venjulegan hátt, með dagsetningu o. s. frv. En við það verða frímerkin enn verðmeiri. Ég veit, að10 kr. frímerki, sem stimplað var, hefir verið selt yfir 6 kr. Fæst því meir en helmingur endurgreiddur.

Ég hefði nú viljað beina því til hv. n., hvort hún vilji ekki lagfæra þetta, með því að fella niður úr frv. ákvæðið um frímerkin.