23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (814)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Gunnar Sigurðsson:

Ég gat þess í sambandi við vatnamálið, að ég væri stj. ekki eins þakklátur fyrir þetta mál. Er það skemmst af að segja, að þetta er sú vandræðalegasta kákúrlausn, sem ég minnist að hafa séð á stórmáli. Og hefir hæstv. stj. farizt illa allar gerðir í þessu máli.

það er öllum vitanlegt, sem þekkja leiðina austur yfir fjall, að ekki er nema um tvær lausnir að ræða í þessu máli. Annaðhvort járnbraut eða malbikaður bílvegur, sem verður þá að vera yfirbyggður á löngum svæðum. Hvora leiðina eigi að fara, eiga fagmenn að ákveða. Þar á engin pólitík að komast inn í. Og veit ég ekki betur en að fagmennirnir hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að járnbrautin væri sú rétta lausn málsins. Með þessu frv. er heldur engin ákvörðun tekin um þetta. Í niðurlagi grg. segir svo:

„Verður þá á ný (þ. e. þegar búið er að leggja þennan nýja veg frá Lækjarbotnum austur í Ölfus) að taka ákvörðun um, hverra frekari samgöngubóta er þörf, hvort heldur skuli malbika veginn eða ráðast í lagningu járnbrautar“ o. s. frv.

Það sjá allir, að hér er því ekki um neina endanlega lausn á þessu máli að ræða. Hitt má vera, að það sé örlítil bót að þessu í bili, og er að því leyti erfitt að berjast á móti því. En hér er verið að stíga spor, sem aldrei átti að stíga.

Hæstv. forsrh: sagði, að stofnkostnaðurinn væri ekkert aðalatriði í þessu máli, eins og rétt er, en honum gleymdist, að það, sem mestu skiptir í þessu efni, er það, að öruggt sé með öllu, að flutningar austan um fjall teppist ekki á vetrum. Eru það hin mestu vandræði, sem hent getur bændur Suðurlandsundirlendisins og enda Reykjavík, þegar svo tekst til.

Það hefir mjög verið útmálað, hversu flutningar með bílum væru ódýrir. Hefi ég engin gögn til þess að fara út í það, en vil þó leyfa mér að benda á, að bílstjórar komust upp á það síðastliðið sumar að gera með sér samtök, svo sem aðrar stéttir manna gera. Er auðvitað ekkert við þessu að segja — slík samtök eru eðlileg — en varla munu þau hafa áhrif til lækkunar á flutningskostnaði með bílum, enda hefir það þegar komið í ljós. Auk þess hygg ég, að enginn hafi reiknað út, hvað bílarnir kosta okkur í raun og veru. Þar er allt fengið frá útlöndum. — Um járnbraut gegnir öðru máli. Til hennar þarf ekki að flytja inn annað en járn, sem er í sama verði og fyrir stríð, auk einhvers lítilsháttar af timbri. Og á þeirri leið, sem járnbrautin yrði lögð, er undirstaðan allsstaðar ágæt. Öllum er kunnugt, að nú liggur við að fara að virkja Sogið, sem er eitthvert bezta fallvatnið á landinu, og verður þá væntanlega hægt að fá þaðan rafmagn, til þess að knýja járnbrautina.

Ég skal ekki fara frekar út í þetta mál við þessa umr., en mun gera það ítarlegar síðar. Hefi ég um fá mál hugsað jafnmikið sem þetta og alltaf sannfærzt betur og betur um það, að sú eina rétta lausn á því er járnbraut.