23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (816)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Jónsson:

Á flestum þeim þingum, sem ég hefi setið, hefi ég ýmist verið flm. eða stuðningsmaður till, um samgöngumál Sunnlendinga. Þykir mér því vænt um í hvert skipti, sem þetta mál er vakið á einhvern hátt. Undanfarið hefir mest verið talað um járnbraut, en þetta frv. fer fram á vegargerð, eða öllu heldur lítilsháttar byrjun á vegargerð. Þykir mér einkum vænt um frv. vegna þess, að til þessa hefir skort skýr ummæli um það, hvað góður vegur myndi kosta. –Vegamálastjóri hefir áður áætlað, að slíkur vegur myndi kosta um 3. millj. kr., og hefi ég alltaf gengið út frá því við umr. um þetta mal. Nú hefir vegamálastjóri gert nákvæma áætlun um það, hvað þessi vegur muni kosta, og verður það samkv. áætlunum hans um 4 millj. kr., eða nákvæmar tiltekið 3,8 millj. kr.

Þetta frv. breytir þá ekki minni skoðun á þessu máli, nema ef síður skyldi. Skal ég þó játa það, að höfuðkostur vegarlagningarinnar er sá, að hægt er að gera umbæturnar smátt og smátt, t. d. byrja á vetrarveginum og halda svo áfram, eftir því sem fé er til. En það er sá gallinn á þessu, að eftir frv. á þá fyrst að taka ákvörðun um það, hvort leggja skuli járnbraut eða ekki, þegar búið er að leggja þennan vetrarveg og verja til þess 732000 kr. Get ég ekki ímyndað mér, að nokkur maður vilji leggja út í svo þokukenndar framkvæmdir.

Hitt er, eins og hv. 2. þm. Rang. tók réttilega fram, aðeins fyrir kunnáttumenn að skera úr, hvort heppilegra muni reynast fyrir framtíðina, en alls ekki pólitískt mál, sem kosningar eigi að skera úr.

Hæstv. atvmrh. sagði, að stofnkostnaðurinn skipti ekki mestu máli, og má það vel vera. En ef hann aðhyllist það, þá virðist mér undarlegt, að hann skuli vilja heldur leysa þetta mál með dyrum vegi í staðinn fyrir járnbraut, því að þegar búið er að leggja 4 millj. kr. í veg, verður að afhenda ríkinu hann til viðhalds, og sá kostnaður verður ekkert smáræði, en járnbraut ætti að geta borið uppi sinn viðhaldskostnað og er því rekin með arðsvon.

Annars skal ég ekki orðlengja mikið um frv. Það er mikið talað um framfarir á bifreiðum, og er það satt, að þær eru mikið bættar frá ári til árs. En það ætti líka að geta orðið framför á þeim vögnum, sem ekið er eftir teinum. Hin mikla samkeppni við bifreiðarnar neyðir járnbrautarfélögin til þess að taka snöggum framförum, og getur þá orðið sú bylting, áður en nokkurn varir, að járnbrautirnar komizt í þann sama hefðarsess og þær höfðu áður, þar sem miklir flutningar eru og um langan veg að fara. Ég get ekki komið auga á neitt í frv., sem mælir á móti járnbraut. Annars óska ég, að takast megi að leysa mál þetta á sem heppilegastan hátt. Ég mun því ekki leggjast á móti því að þessi vegur verði lagður, ef þau rök koma fram, sem sýna, að það er heppilegasta lausn málsins. Út af fyrir sig er eðlilegt, að menn óski vegarins heldur, því að járnbrautarteinar eru aðeins fyrir þau einu farartæki, sem á þeim ganga, en góðir vegir eru færir öllum öðrum farartækjum.