23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (817)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfáar aths. út af því, sem fram hefir komið í þessum umr.

Mér þóttu undirtektir þeirra misjafnar, hv. 2. þm. Arn. og hv. 2. þm. Rang. Fyrir hv. 2. þm. Árn. er aðalatriðið að fá lausn á samgöngumálunum austan fjalls, án þess að binda sig einstrengingslega við eina ákveðna lausn, og virtist mér hann gera sér vonir um, að með frv. þessu væri um viðunandi lausn að ræða.

En hv. 2. þm. Rang. verður of starsýnt á þá lausn, sem hann hefir bitið sig fastan í áður, en það er járnbraut, og fylgist ekki með þeim breytingum, sem orðið hafa og er þar af leiðandi ekki nógu fljótur að átta sig á nýjum staðreyndum.

Hv. 2. þm. Árn. spurði, hvort þessi væntanlegi vegur mundi duga sem undirstaða fyrir járnbraut, ef horfið yrði að því að leggja hana síðar. Því er til að svara, að mig skortir alla „tekniska“ þekkingu á því máli. En hv. þm. á sæti í þeirri nefnd, sem mun fjalla um málið, og getur þá fengið upplýsingar um þetta atriði hjá vegamálastjóra. Ég get því miður ekki látið ljós mitt skína, né öðru svarað þessari spurningu hv. 2. þm. Árn.

Hv. 2. þm. Rang. taldi frv. vandræðalegt kák á úrlausn þessa máls. Ef hann kallar þetta kák, hvað segir hann þá um það ástand, sem verið hefir, þegar aðeins hefir verið talað um málið, en ekkert aðhafst til að leysa það á neinn hátt nú í heilan mannsaldur? Aftur á móti er ég sammala hv. þm. um, að þetta sé ekki fyrst og fremst pólitískt mál, heldur sé það fagmanna að skera úr, hver sé heppilegasta lausn þess. Þessa leið hefir stj. líka farið, þar sem frv. er samið af vegamálastjóra og fyrst og fremst stuðzt við álit hans og till.

Hv. 1. þm. Rang. virðist ekki heldur ánægður með þessa úrlausn málsins. Hann sagði, að aðalspurningin fyrir sér væri sú, hvort járnbrautin væri, með frv. þessu, úr sögunni eða ekki. En hjá honum er ekki aðalatriðið, hvort samgöngumálið austanfjalls sé leyst með þessu. (MJ: Þetta er ekki velviljuð skýring á orðum þm.). Hann orðaði það eitthvað á þessa leið, en kannske hann hafi meint allt annað. Annars getum við ekki tekið ákvarðanir fyrir hin síðari þing, né ákveðið nú, hvað gert verði t. d. 1940 eða svo. En mín von og sannfæring er sú, að með frv. þessu verði leyst á fullnægjandi hátt úr samgönguvandræðunum austanfjalls, sem geri landbúnaðinn í sveitum þar sem arðmestan. Hinsvegar er ég ekki sá spámaður að geta sagt nú, hvernig þetta rætist. En út frá þekkingu minni á málinu tel ég þetta víst og á því byggjast þær vonir mínar, að á þennan hátt verði bezt leyst úr þessu samgöngumáli fyrir framtíðina.

Það var ekki vingjarnlega spurt hjá hv. 1. þm. Rang., hvort vegurinn ætti að liggja þar sem lægst er og snjóþyngsli mest. En það er einmitt tekið fram beinum orðum í frv. og grg. þess, að veginn skuli leggja þar sem snjóléttast er.

Loks þarf ég að svara hv. 1. þm. Reykv. Hann talaði sanngjarnlega um málið og vænti ég því góðrar samvinnu frá hans hendi. Hann var mér sammála um aðalatriðið: að stofnkostnaðurinn sé ekki mesta atriðið, heldur rekstrarkostnaðurinn. En það hefir hvorugur okkar gögn í höndum til þess að dæma um endanlega, hvort ódýrara muni reynast, vegur eða járnbraut. Ég hefi aðeins bent á, að eftir till. frv. er um minni stofnkostnað að ræða heldur en við að leggja járnbraut, auk þess sem rekstrarkostnaður járnbrautarinnar hlýtur að verða tilfinnanlega mikill. En svo er líka að athuga, að veginn þarf að hafa, þó að járnbraut verði lögð, og verður hann að vera sem allra fullkomnastur. Og loks má geta þess, að alltaf verður að eiga sér stað umskipun á vörunum frá járnbraut, því að hún kemst ekki inn á hvert einasta heimili, en það gera bílarnir.

Annars hefi ég ekki aðstöðu til að kveða upp fullnægjandi dóm um þetta, en með skýrskotun til reynslu annara þjóða í þessu efni, er vafalaust ódýrara fyrir fólkið að nota veg og bíla en járnbraut.