23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (819)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Torfason:

Ég stend aðeins upp til þess að yfirlýsa því, að mér þótti miður, að hæstv. atvmrh. gat ekki leyst úr spurningu minni um, hvort þessi fyrirhugaði vegur mundi duga sem undirstaða járnbrautarinnar, því að fylgi mitt við frv. er talsvert undir því svari komið.

Hér er um svo mikinn kostnað að ræða, að það mundi reynast erfitt uppdráttar að leggja síðar járnbraut, ef ekki væri hægt að nota veginn sem undirbyggingu.

Því hefir verið lýst yfir, að austan heiðar eru uppi tvær skoðanir um þetta mal. Sumir hrópa á járnbraut, en aðrir gera sig ánægða með minna. En öllum kemur saman um, að ekki verði hjá því komizt að fá þegar eitthvað, sem geri vetrarflutningana öruggari. Og eftir að mjólkurbúin hafa verið rekin einn vetur, er þessi skoðun enn ofar í mönnum. Þetta er líka mjög eðlilegt, því að segja má, að daglegar og öruggar samgöngur vestur um heiði og á markaðinn í Rvík. séu fjörgjafi mjólkurbúanna; því að hvernig ætti að hagnýta sér hið mikla gras, sem áveiturnar hafa veitt, nema með stofnun mjólkurbúa, sem komið geta framleiðsluvorunum með daglegum ferðum á markaðinn hér í Reykjavík? Og þetta segi ég ekki aðeins fyrir hönd Árnesinga, heldur og líka fyrir nokkurn hluta bænda úr Rangarvallasýslu. Í því sambandi vil ég geta þess, að þegar ég fór á fund mjólkurbús Flóamanna, komu þangað nokkrir Rangæingar, sem báðust upptöku í félagið. Þrátt fyrir ýmsa annmarka á þessum fyrirtækjum, hafa þó mjólkurbúin skilað svo miklum afrakstri, að auðseð er, að þau verða fjöregg landbúnaðarins eystra. En nauðsynlegast af öllu er að geta komið mjólkinni og öðrum afurðum búanna sem allra fljótast á markaðinn, og því verður að taka föstum tökum á því máli að fá greiðar samgöngur við Reykjavík sem allra fyrst. En þær samgöngur verða fyrst um sinn ekki eins öruggar og með járnbraut. Þess vegna er þetta svo að skilja, að ég er sannfærður um, að Árnesingar eru ekki enn fallnir frá kröfunni um járnbraut. Mjólkurbúin munu reynast svo mikil lyftistöng fyrir landbúnaðinn austanfjalls, að eftir 10–20 ár verða ástæðurnar orðnar svo breyttar, að þá munu heyrast háværar raddir, sem kalla á járnbraut.