23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (820)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Guðmundsson:

Það er ekki margt, sem ég hefi að segja að sinni, en mér virðist allmikill tvískinnungur í málinu. Ég skil hæstv. atvmrh. þannig, að með þessu frv. sé verið að skrínleggja járnbrautina. Hann telur samgöngunum austur vel borgið með byggingu þessa nýja vegar. Ég held ekki, að hér sé um fullnægjandi lausn að ræða. Mín skoðun er eins og áður, að járnbrautin sé það eina, sem sé fullnægjandi samgöngubót, og svipaðri skoðun virðist skjóta upp í aths. við frv. En það er þessi tvískinnungur, sem ég kann illa við. Mér skildist á hæstv. atvmrh., að hann áliti, að með frv. væri gengið af járnbrautarhugmyndinni dauðri. En í aths., sem frv. fylgja, skilst mér álit vegamálastjóra vera það, að málinu sé skotið á frest um óákveðinn tíma. Og þetta kemur mér ekki á óvart, því að vegamálastjóri hefir jafnan verið öruggur fylgismaður járnbrautarinnar og er það sennilega enn. Hann veit, að hjá núverandi stj. getur ekki fengizt sú samgöngubótin, sem bezt er, og því leggur hann með því skásta, sem fæst.

Ég legg áherzlu á það, að það komi skýrt fram, hvort vegamálastjóri og hæstv. forsrh. eru sammála í þessu efni, því að það væri tvískinnungur í meira lagi, ef sá, er frv. semur, og sá, er flytur það, væru á öndverðum meiði.

Ég vil ennfremur taka undir það með hv. 2. þm. Rang., að járnbrautarmálið horfir töluvert öðruvísi við fyrir oss nú, er farið er að knýja vagnana með rafmagni, enda væri heimskulegt af oss að flytja inn kol til slíkra hluta.