23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (821)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil beina örfáum orðum til hv. 1. þm. Skagf. Hann talaði um tvískinnung í málinu og að ég vildi skrínleggja járnbrautina. Ennfremur kvartaði hann undan, því, að ég hefði lagt lítt vingjarnlegan skilning í orð hv. 1. þm. Rang.

Ég sagði, að við ættum að bæta úr samgönguþörfinni þannig, að stofnkostnaður yrði sem minnstur, og samgöngurnar sem ódýrastar fyrir fólkið, sem á að njóta þeirra. Og það er von mín, að í þessu frv. felist fullnaðarlausn á samgönguvandræðunum, þótt ég geti ekki fyllilega um það sagt. Hvorki ég né hv. 1. þm. Skagf. getum bundið hendur komandi þinga um þetta atriði.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að vegamálastjóri væri á öðru máli en stjórnin. Ég get varla annað sagt, en að í þessum orðum felist lítt velviljuð hugsun í garð vegamálastjóra, því að eftir því ætti stj. að hafa þvingað upp á hann þeirri skoðun, sem fram kemur í frv. Ég vil benda á ummæli hans í aths. á bls. 4, þar sem hann segir svo: „Fjárhagsafkoma hennar (þ. e. járnbrautarinnar) verður fyrir breyttar ástæður að teljast miklu lakari en bifreiðarflutninga“. Ég gæti nefnt margt annað, sem ekki bendir til þess, að vegamálastjóri telji járnbraut beztu lausnina. Ég er hræddur um, að hv. 1. þm. Skagf. hafi ekki lesið grg. frv. nógu vel.

Sá verkfræðingur, Sverre Möller, er á sínum tíma gerði áætlun um járnbraut austur, hefir nú aftur gefið út bráðabirgðaálit um járnbrautarmálið. Áliti þessu var útbýtt hér á þinginu í fyrra eða 1929. Þar segir svo, að aðstæður séu breyttar, nýjar staðreyndir fram komnar, og eigi megi binda sig nú við 10 ára gamlar forsendur. Sérfræðingar hljóta að líta á málið eins og það liggur nú fyrir.