19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (844)

20. mál, búfjárrækt

Fors:

og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson): Þessu frv. fylgir allítarleg grg., sem ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi lesið. Um einstök atriði málsins og um það, sem Búnaðarfélag Íslands hefir látið framkvæma á þessu sviði, vil ég leyfa mér að vísa til þess, sem í grg. frv. stendur.

Ég vil geta þess, að starfsmenn Búnaðarfélags Íslands, sem þessi störf hafa á hendi nú, hafa unnið að undirbúningi málsins ásamt form. mþn. í landbúnaðarmálum, hv. 1. þm. Árn. En að 5. kafla frv. hefir sérstaklega unnið Brynjólfur Stefánsson, sem verið hefir ráðunautur stj. um búfjártryggingarnar að því er fjárhagshliðina snertir.

En þó að ég láti mér nægja að vísa til grg., langar mig að fara nokkrum almennum orðum um málið. Á undanförnum þingum hefir verið nefnt, að ósamræmis gætti um, hvernig fé væri veitt og lög sett til viðreisnar landbúnaðinum. Til jarðræktarinnar hefir runnið langtum meira fé úr ríkissjóði en til búfjárræktarinnar, sem segja má um, að orðið hafi að mestu leyti út undan. Þarf ekki annað en líta á 16. gr, fjárlaganna.1)

Þess ber að geta, að öll þessi stóra löggjöf, sem hér er verið að hleypa af stokkunum, er ekki nema að nokkru leyti nýmæli: Í sumum greinum eru hér eldri ákvæði, sem eru tekin saman í eitt; sumpart og að verulegu leyti er lagabálkur þessi lögfesting á þeirri starfsemi, sem hér hefir verið rekin undanfarin ár, fyrir forgöngu Búnaðarfélags Íslands. Þessi lög byggja á þeim grundvelli, sem lagður hefir verið með starfsemi Búnaðarfélags Íslands í búfjárræktarmálum, og tryggja það að lögum, að svo framarlega, sem slík starfsemi er rekin svo, að vænta megi árangurs af, þá skuli hún njóta styrks og aðstoðar hins opinbera. Slík starfsemi, sem hér um ræðir, hefir um lengri tíma verið rekin með öðrum þjóðum með glæsilegum árangri, en hér á landi einungis um fárra ára bil, eftir að Búnaðarfélag Íslands tók að beita sér fyrir stofnun griparæktarfélaga ýmiskonar, sýningum og kynbótum að hætti erlendra þjóða. Tilgangurinn með þessum lögum er sá, að fullkomna þessa starfsemi og lögfesta fulltingi fjárveitingavaldsins henni til handa, en um leið að stiga nokkur spor fram á leið í þessum greinum búnaðarins. Er jafnan í frv. þessu gert ráð fyrir, að framkvæmdin sé hjá Búnaðarfélagi Íslands, svo sem verið hefir til þessa.

Það er eftir atvikum ekki úr vegi að gefa á þessu stigi málsins nokkurt yfirlit yfir þá búfjárræktarstarfsemi, sem til þessa hefir fram farið á okkar landi:

Fyrsta hrossaræktarfélagið er stofnað 1904. Fyrsta hrossasýning er haldin við Þjórsá 1906. Fyrstu reglubundnu hrossasýningarnar eru haldnar 1926, fyrir atbeina Búnaðarfélags Íslands, og var landinu þá skipt í þrjú umdæmi.

Fyrsta nautgriparæktarfélag er stofnað 1901. Fyrsta nautgripasýning er haldin við Þjórsá 1906. Fyrstu reglubundnu nautgripasýningarnar eru haldnar af Búnaðarfélagi Íslands árið 1926, og var landinu þá skipt í umdæmi.

Fyrsta sauðfjárkynbótabú er stofnað í Þingeyjarsýslu árið 1897. En fyrsta fjárræktarbú, sem Búnaðarfélag Íslands styrkir, er stofnað árið 1903. Fyrstu hrútasýningar eru haldnar árið 1911, en fast skipulag er ekki enn komið á um hrútasýningar. Þó var ætlazt til á Búnaðarþinginu 1925 að fara yfir landið á þrem árum, og voru að því leyti settar reglur um hrútasýningar framvegis.

Hrossaræktarfélög eru nú starfandi 44 í landinu, og spenna sum yfir afarstór svæði. Í lok þessa árs verða þau sennilega 49.

Nautgriparæktarfélög eru 1930 starfandi alls 47, en fjölgar mjög í ár og verða sennilega ekki færri en 70 í lok þessa árs.

Sauðfjárræktarbú, sem Búnaðarfélag Íslands styrkir, eru fimm:

Á Hrafnkelsstöðum í Árnessýslu,

— Höfðabrekku í V.-Skaftafellss.,

— Rangá í Norður-Múlasýslu,

— Þórustöðum í Öngulsstaðahr., Eyf., og í Ólafsdal, Saurbæ, Dalasýslu.

Ég ætla, að hv. þdm. sé vel ljóst, hversu gífurlega mikinn arð vísindalega rekin búfjárræktarstarfsemi getur gefið. Er það sérstaklega athyglisvert fyrir oss Íslendinga, hver reynsla annara þjóða er í þessum efnum. Ég hefi hér í höndum merka bók: „Landbruket í Norden 1875–1925“, þar sem gefið er glöggt yfirlit yfir árangur slíkrar búfjárræktarstarfsemi á Norðurlöndum síðustu 50 ár, frá 1875 til 1925. Ég vil leyfa mér að fara með nokkrar tölur úr þessari bók, og vil ég biðja hv. þm. að leggja sér þær ríkt á minni.

Þá er fyrst að líta á nautgriparækt, t. d. Dana, og framfarir í henni á nefndu arabili. Árið 1871 er meðaltal tekið af 800 þús. kúm, og telst nythæð þeirra til jafnaðar 1350 kg. (lítrar) mjólkur, en smjörmagnið er 44 kg. á hverja kú. Árið 1898 er nythæðin komin upp í 2100 lítra og smjörmagnið orðið 79 kg. á hverja ku. Árið 1924 er nythæðin orðin 3020 lítrar og smjörmagnið 124 kg. á hverja kú. Það er m. ö. o., að nythæðin hefir vaxið meira en um helming og smjörframleiðslan á hverja kú þrefaldazt. Af þessum tölum má sjá, hversu geysilega miklu meiri arð nautgriparæktin í Danmörku gefur, eftir að bændurnir bundust samtökum til að bæta kynið og koma nautgriparæktinni í betra og fullkomnara horf.

Um sauðfjárrækt Dana er sömu sögu að segja. Enda þótt sauðfé sé fátt í Danmörku, þá hefir sauðfjárræktin þar í landi tekið þvílíkum framförum, eftir að búfjárræktarstarfsemi hófst, að ullarafurðir hverrar kindar að jafnaði hafa nákvæmlega tvöfaldazt á árunum 1871 til 1924. hvílíkar tölur má finna hvað snertir hin löndin, Noreg og Svíþjóð. En þess ber að vísu að geta, að þessi hin glæsilega framför í búfjárrækt nágrannalandanna er fleiru að þakka en kynbótastarfsemi, og má þar nefna betri fóðrun o. þvíl. En þetta ætti að nægja til þess að sýna, að sú starfsemi, sem samkv. þessu frv. á að lögfestast á voru landi, er ærið mikils verð, og sízt að ófyrirsynju, þótt tryggð sé aðstoð ríkisins til hennar. Full ástæða er til þess að ætla, að við gætum náð svipuðum árangri og nágrannaþjóðirnar, ef búfjárræktarstarfsemi væri rekin eftir vísindalegum aðferðum og með elju og samtökum.

Um tvo síðustu kaflana, IV. og V., sem fjalla um búfjártryggingar, mun ég ekki fjölyrða að svo stöddu. Vera má, að einstök ákvæði þeirra færu betur öðruvísi, og mun hv. landbn. væntanlega taka það til athugunar, en að öðru leyti býst ég ekki við neinum verulegum ágreiningi um þá kafla í heild.

Mér er það vel ljóst, að þetta er stór lagabálkur og það er vandasamt verk að ganga svo frá honum, að vel sé og að ekki megi á annan veg betur fara. En ég vil mega vænta þess, að hv. landbn. telji ekki eftir sér að stuðla að því, að þetta mál fái þá afgreiðslu, sem slíku máli hæfir, og að það megi verða á þessu þingi. — Vil ég svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og til hv. landbn.