13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (850)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég ætla mér ekki að fara að deila um frv. við hv. 1. þm. G.-K. Það er öllum kunnugt, að hann hefir ætið verið andvígur verðtolli, en hinsvegar talið að vörutollur væri hentugri til þess að afla ríkinu tekna. Hv. þm. mun vera fyrsti höfundur vörutollslaganna, að vísu ekki eins og þau nú eru, og er því máske eðlilegt, að hann haldi tryggð við hina upphaflegu stefnu í þessu máli.

Hv. þm. sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að frv. væri illa undirbúið. Færði hann reyndar engin rök fyrir því, en vegna ummæla hans verð ég að skýra frá því, hvernig frv. þetta er til orðið, enda þótt það sé hv. dm. kunnugt.

Frv. var upphaflega samið af mþn. í tolla- og skattamálum, og lagði n. mikla vinnu í málið. N. vann fyrst að frv. árið 1929 og skilaði þá frv. því, sem meiri hl. n. flutti á þinginu í fyrra. Það frv. varð ekki útrætt, en undir meðferð þess í þinginu leitaði ég álits tollstjórans í Reykjavík á því, því að ég var sannfærður um, að hann væri sá maður, sem kunnugastur væri þessum málum og bezt gæti dæmt um, hvernig tollafyrirkomulagið gæti orðið bezt. Eftir þinglokin í fyrra tók mþn. frv. aftur til athugunar og sömuleiðis álit og till. tollstjóra. Skilaði n. frv. síðan til fjmrn., og var það tekið þar til athugunar á ný, í samráði við tollstjóra. Þau ummæli hv. 1. þm. G.-K., að frv. sé illa undirbúið, eru því á engum rökum reist. Þeir, sem að því hafa unnið, hafa sýnt mikla alúð og nákvæmni við starf sitt.

Mér skildist það á hv. i. þm. G: K., að hann væri aðallega mótfallinn verðtolli vegna þess, að þá væri auðveldara að koma við tollsvikum. Vitanlega er það svo um alla tolla og skatta, að hægt er að búast við, að reynt verði að hafa undanbrögð í einstökum tilfellum. Samt hefir engum komið til hugar að hætta að setja l. um þá hluti, þó að hætta geti verið á að svik eigi sér stað, svo að þetta er ekki nægileg ástæða til þess að vera á móti verðtolli. Og því má ekki gleyma, að verðtollurinn hefir gefið ríkinu álitlega upphæð í tekjur, og ég býst við, að tollurinn muni ekki verða minni en gert er ráð fyrir í aths. við frv. (BK: Á hverju byggir hæstv. ráðh. það?). Ætlar hv. þm. máske að fara að halda því fram, að tollurinn muni ekki nema meir en helmingi á við það, sem hann er nú? Mér finnst satt að segja, að hv. þm. megi ekki koma með slíkar ágizkanir án frekari raka.

Hv. þm. talaði mikið um, hvað menn hefðu áður haft á móti verðtolli. Efast ég ekki um, ai5 hann fari rétt með það allt. En þess ber að gæta, að ýms þessara ummæla voru sett fram á þeim tíma, er engin reynsla var fengin um verðtoll og ekki varð stuðzt við annað en spádóma. Þó að leitað væri til lögreglustjóranna úti um land, þá gátu ummæli þeirra ekki orðið annað en spádómar, því að reynsluna vantaði. Hv. þm. ætti að leita álits þeirra núi, þegar búið er að reyna verðtollsl. í sex eða sjö ár. Umsögn lögreglustjóranna myndi vera þyngri á metunum nú en þá.

Hv. þm. las upp álit lögreglustjórans í Reykjavík (núv. tollstjóra) frá þessum tíma. En hv. þm. gengur alveg framhjá áliti þessa sama manns, er fylgir þessu frv. nú, þar sem tollstjórinn setur skýrt fram álit sitt á hættunni á tollsvikum. Ég álit, að það verði að taka meira tillit til þess, sem nú er sagt um málið, heldur en þess, sem einhverntíma var sagt og voru e. t. v. spádómar einir.

Það kemur greinilega fram í áliti tollstjóra, að hann álítur, að hættan á tollsvikum sé engu meiri, þótt hafður sé verðtollur heldur en vörutollur. (JÞ: Það nær ekki nokkurri átt). Það verður að gæta þess, að vörutollurinn er nú allur annar en hann var í sinni upphaflegu mynd. Hann er orðinn miklu fjölbreyttari nú. Eftir því sem vörutollurinn er flokkaður í fleiri flokka, líkist hann meir og meir verðtolli. Það er ómögulegt að halda því fram, að svo verði frá vörutollinum gengið, að ekki sé hægt að koma við tollsvikum. Tollsvik eru vitanlega möguleg, hvaða tollur sem er hafður, eins og greinilega kemur fram í áliti tollstjóra. Hefi ég átt tal um þetta við ýmsa lögreglustjóra úti um land, og hafa þeir sagt mér, að þeir vildu miklu heldur fá þessi lög heldur en að halda því ástandi, sem nú er. Um einstök atriði tolllaga má auðvitað alltaf deila, t. d. um flokkun varanna. En það liggur ekki fyrir nú við 1, umr., en mun koma fram, er væntanleg n. hefir athugað frv.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið nú. Ég get búizt við, að n. muni e. t. v. finna ástæðu til þess að breyta frv. að einhverju leyti. Frv. hefir þó gengið í gegnum hv. Nd. og litlum breyt. tekið þar. Vil ég svo vona, að frv. fái jafngóðar viðtökur hér og í hv. Nd.