13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (858)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

[óyfirl.]: Ég vildi segja út af ummælum hæstv. fjmrh., að eftir verðtollslogunum er hægt að hafa undanbrögð um greiðslu tollsins, enda mun slíkt hafa komið fyrir.

Hæstv. ráðh. vill einnig viðurkenna þetta, en heldur því jafnframt fram, að svo sé um fleiri tolla og skatta. En þrátt fyrir þessi undanbrögð, sem mögulegt er að koma við í einstaka tilfellum, verðum við þó að hafa tolla og skatta til þess að reyta í ríkissjóðinn. Að því er tekju- og eignarskattinn snertir, þá er ekki hægt að koma við undanbrögðum svo að neinu nemi, vegna þess að hann byggist á lögmætu mati. Fasteignamatið getur að vísu verið ófullkomið, en annars er óþarfi að láta mönnum haldast uppi að koma við undanbrögðum.

Af aðflutningsgjöldum hygg ég, að vörutollurinn sé næstur tekju- og eignarskattinum að því leyti, að erfitt sé þar að koma við undanbrögðum. Er hægt að hafa gott eftirlit um greiðslu tollsins vegna þess, að þar njótum við aðstoðar erlendra tollstjóra, sem byggist á farmskram skipanna.

Hvað verðtollinn snertir, þá kann hann að vísu að hafa sína kosti, en framhjá hinu verður ekki gengið, að tiltölulega auðvelt er að koma þar við undanbrögðum.

Gjaldandi á að sýna innkaupsreikning, og er það fyrsti leiðarvísir fyrir lögreglustjóra að fara eftir við innheimtuna. Af innkaupsreikningnum getur hann gert sér grein fyrir, hvort reikningurinn synir þær vörur, sem farmskrá gerir ráð fyrir. En yfirleitt sýna reikningarnir ekki þann þunga, sem nefndur er í farmskránum, og stafar það sumpart af því, að umbúðir eru ekki taldar með. Þarna hefir því gjaldandi tvo möguleika að draga undan, þó að hann sýni reikning með innkaupsverði varanna.

Reglan er, að lögreglustjórar reikna verðtollinn eftir eyðslu stimpilmerkjanna. Stimpilmerkin eru talin um áramót, og á þá innheimtan eftir verðtollslögunum og aukatekjulögunum að koma heim við eyðslu stimpilmerkjanna. En það kom þráfaldlega fyrir á meðan ég var fjmrh., að samvizkusamir lögreglustjórar höfðu við áramót meira af stimpilmerkjum en átti að vera samkvæmt innheimtureikningum þeirra. Og þegar spurt var um, hvernig á því stæði, var svarið vanalega á þá leið, að gleymzt hefði að lima merkið á innkaupsreikninginn.

Það skal játað, að það er viðkvæmt mál þessi endurskoðun í stjórnarráðinu á innheimtu verðtollsins. Enda er lítil trygging fyrir því, að þeir peningar komi til skila, sem greiða á fyrir verðtollinn. Sá, sem fer með bréfið eða innkaupsreikninginn til lögreglustjóra, til þess að fá það stimplað, tekur kannske ekkert eftir því, að á innkaupsreikninginn séu límd stimpilmerki fyrir þeirri upphæð, sem greidd er. Sannleikurinn er því sá, að skrifstofuþjónn, sem tilhneigingu hefir til þess að draga fé í vasa sinn, þarf ekki annað en að láta lita svo út, að hann hafi gleymt að líma t. d. 100 króna stimpilmerki á innkaupsreikninginn. Þess vegna nær það ekki neinni átt, að þessa hluti sé hægt að framkvæma eins tryggilega og á sér stað um vörutollinn.

Hv. 1. þm. G.-K. skýrði frá því með ljósum rökum, hvernig vörutollurinn er háður eftirliti og endurskoðun fjmrn., en slíku eftirliti er ekki hægt að koma við um verðtollinn. Með þessu vil ég þó ekki segja, að ekki sé hægt að hafa verðtoll; við hofum neyðzt til þess og haft af því miklar tekjur, þó að misjafnlega hafi gefizt. En vegna þess, hve ótryggilega er um innheimtuna búið, tel ég mjög varhugavert að kasta vörutollinum á burt að mestu leyti, en taka verðtoll upp í staðinn.

Út af ummælum hv. 2. landsk. um samkomulag stóru flokkanna viðvíkjandi þessu frv. vil ég geta þess, að innan Sjálfstæðisflokksins hefir hver einstakur þm. hans óbundið atkv.

Hinsvegar get ég tekið undir með honum, að þótt frv. þetta sé að sjálfsögðu fram borið til þess að afla ríkissjóði tekna, þá er þó varhugavert að hækka svo aðflutningsgjald á nauðsynjavörum og hér er farið fram á, því að slík hækkun hlýtur að halda uppi þau verði í landinu. Ég er því sammála hv. 2. landsk., að þörf sé á að nema burtu þær misfellur af frv.