13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (860)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég hefi litla ástæðu til þess að kveðja mér hljóðs, því að ekkert það hefir komið fram í ræðum þeirra hv. þdm., sem talað hafa síðan ég lauk máli mínu, sem ástæða er til að svara.

Hv. 1. landsk. talaði um ýmsa agnúa, sem væru á því að innheimta verðtollinn, og taldi meiri hættu á því, að svik gátu átt sér stað í sambandi við hann en um innheimtu annaratolla. Það er rétt athugað, að það er misjafnlega auðvelt að koma við tollsvikum eftir þeim tolllögum, sem nú gilda. Mér kemur heldur ekki til hugar að fullyrða neitt um það, að frv. þetta sé svo fullkomið, að það geti ekki staðið til bóta. Tollsvik geta alltaf átt sér stað, en þeir, sem andmælt hafa frv., gera of mikið úr þessu. Það er nú einmitt svo um vörutollinn, sem þessir hv. þm. hafa haldið svo mjög fram, að ákvæði verðtollsins hafa komið í veg fyrir svik í framkvæmd vörutollslaganna. Tollstjórinn í Reykjavík, Jón Hermannsson, hefir upplýst um, að iðulega komi það fyrir, að óskyldar vörur úr ýmsum tollflokkum séu í sömu sendingunni, svo að þó að farmskrá sé við hendina, þarf samt að athuga innkaupsreikninginn, og þar með fæst svo leiðréttingin.

Annars verð ég að segja fyrir mitt leyti, að ég legg meira upp úr reynslu tollstjórans í Reykjavík en þekkingu hv. 1. landsk., sem kann að vísu að vera mikil, en hún getur þó aldrei jafnazt á við daglega reynslu þess manns, sem haft hefir innheimtuna með höndum í mörg ár.

Mér er ekki vel ljóst, hvað vakir fyrir hv. 1. landsk., er hann leggst svo mjög á móti verðtolli, því að ég held því fram, að vörutollurinn eins og hann nú er orðinn í framkvæmdinni megi fremur kallast verðtollur. Annars er hér verið að togast á um orðalag, sem ég sé enga ástæðu til að vera að deila um.

Ég sé heldur ekki ástæðu til að vera að fara út í einstök atriði við þessa umr., eins og hv. 1. þm. G.-K. gerði. mér liggur það í léttu rúmi, hvort harmonikur, munnhörpur eða lúsakambar eru í þessum flokki eða hinum. Um flokkunina má alltaf deila, en það á betur við að gera það við 2. umr. En það er misskilningur hjá hv. 1. þm. G.-K., að geitur og lús sé sama. Lúsakambar eiga ekkert skylt við geitur. Það er að vísu gömul hjátrú, að lús og geitur standi í sambandi hvort við annað, en ég hélt, að læknarnir og vísindin hefðu kveðið þá hjátrú niður fyrir löngu. Ef hv. þm. er það mikið áhugamál að fá það lögfest, að lús og geitur sé eitt og sama, þá getur hann reynt að bera fram brtt. um það við 2. umr.