13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (861)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. vitnar mikið í reynsluna, en ég legg ekki mikið upp úr henni að því er innheimtu verðtollsins snertir. Það getur auðveldlega dulizt, að felld hafi verið niður greiðsla verðtolls, af því að endurskoðun er engin.

Aftur á móti er hægt að tala af reynslu um vörutollslögin og auðvelt að koma upp þeim misfellum, sem þar kunna að eiga sér stað, enda erfitt vegna endurskoðunarinnar að svíkjast undan lögmætum gjöldum.

Ég skal játa, að ég hefi ekki mikla reynslu um, hve mikil undanfærsla á sér stað um greiðslu verðtolls. En af endurskoðuninni í stjórnarráðinu veit ég, að auðvelt er að skjóta sér undan lögmætum verðtolli.

Það eru aðeins meðmæli með vörutollinum, að hann sé einskonar verðtollur, þannig, að hann miðist a. n. I. við verð vörunnar.

Hæstv. fjmrh. sagðist ekki hafa skilið afstöðu mína. Ég hélt, að ég hefði talað sæmilega skýrt, en skal þó gera það fyrir hann að segja honum það einu sinni enn, að ég álít mjög varhugavert, af ástæðum, sem ég hefi þegar greint, að nema vörutoll með öllu í burt og setja verðtoll í staðinn. Lágur verðtollur með lágum prósentum er minni annmörkum bundinn en þar verðtollur með háum.

Hæstv. fjmrh. lagði mikla áherzlu á það, að ekki mætti blanda geitum og lúsum saman. En þó hér sé um ólíkar lífsverur að ræða, hafa þær þó það sameiginlegt, að báðum tegundum á að útrýma.