20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (870)

20. mál, búfjárrækt

Sigurður Eggerz:

Það, sem ég hefi að segja í þessu máli, er ekki nema smá aths. og fyrirspurnir viðvíkjandi frv. Það, sem hæstv. forsrh. var að tala um sérfræðingana, gaf mér tilefni til þess að spyrja um það, hvort sérfróður maður hafi rannsakað lög þau um búfjártryggingar frá 1. maí 1928, sem nú eiga að vera upphafin með þessu frv. mér skilst það á lögunum frá 1928, að það sá ákveðið að stofna búfjártryggingasjóð, er skuli annast endurtryggingar á búpeningi, en að heima í hreppunum skuli svo vera aðrir sjóðir, sem búpeningurinn sé fyrst tryggður í.

Eftir þessu nýja frv. skilst mér, að nú eigi að tryggja búpeninginn beint í þessum sjóði. Ég er ekki að lasta þessa breyt., en vildi aðeins óska þess, að þetta vátryggingarfyrirkomulag yrði sem bezt athugað af sérfræðingum, áður en það verður leitt til endanlegra lykta. Jafnframt vildi ég óska þess, að flýtt yrði fyrir framkvæmdum búfjártrygginga. Ég veit ekki, hvort þær hafa nokkuð komið til framkvæmda eftir lögunum frá 1928.

(Forsrh.: Þau eru þegar komin til framkvæmda). Og þá skilst mér, að reynslan hafi sýnt, að breyt. þær, er gerðar eru með þessu frv., hafi reynzt nauðsynlegar. Mig langar til, úr því að ég er staðinn á fætur, að spyrja hæstv. stj. og hv. n., hvað þær ætla, að till. frv. hafi mikinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég spyr ekki að þessu af því að ég ætli mér að verða Þrándur í Götu frv., því það er síður en svo, heldur álít ég, að upplýsingar um það atriði mundu verða til þess, að frv. yxi engum í augum. Auk þess er jafnan æskilegt, að deild og þing hafi sem bezt yfirlit yfir það, hvern kostnað hin einstöku lagafrv. hafa í för með sér fyrir ríkissjóðinn.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í deilu hæstv. forsrh. og n., en býst við, að ef áætlun væri gerð um það, hve mikið sparaðist við brtt. n., þá mundi koma í ljós, að það yrði ekki mikið, og ég verð að segja það, að ég hefi yfirleitt mikla tilhneigingu til að hallast meir að frv. óbreyttu. Hygg ég, að það muni gleðja stj. ekki svo lítið að fá slíka yfirlýsingu frá mér, þar sem ég er nú nýbúinn að fá vottorð hjá einum mikilsvirtum þm. um það, að ég muni vera ágætur búmaður, vottorð, sem hann gaf eftir að ég hafði látið álit mitt í ljós um frv., er fjallaði um landbúnaðarmál.

Ég er sannfærður um það, að kynbæturnar eru þýðingarmikið atriði fyrir sauðfjárræktina og tel, að sá kostnaður, sem leiddi af fjölgun fjárræktarbúa eftir ákvæðum frv., mundi margborga sig. Hinsvegar er ég á þeirri skoðun, að heppilegra væri að hafa fá kynbótabú en góð heldur en mörg bú, sem væru slæm. Það, sem mestu varðar í þessu efni, er án efa, að eftirlitið sé gott. Sama er að segja um hrossakynbæturnar; þær eru vafalaust mjög nauðsynlegar, en fyrst og fremst mun mest undir því komið, að þar sé viturlega ráðstafað.

Ég játa það, og mér er það mjög ljóst, að landbúnaðurinn á við mikla örðugleika að stríða. Ég hefi nýlega átt tal við mjög merkan bónda af Vesturlandi, sem hélt því fram, að hækkun vinnulaunanna væri það, sem alveg virtist ætla að sliga landbúnaðinn, og taldi hann, að minna munaði um alla ríkissjósstyrkina til landbúnðarins heldur en verðhækkun vinnunnar síðastliðin ár.

Hvarvetna í heiminum á landbúnaðurinn erfitt uppdráttar. Hér á landi skortir mjög lánsfé með viðunandi kjörum handa landbúnaðinum. Í sambandi við það langar mig til að gera fyrirspurn til hæstv. forsrh. Ég hefi verið spurður að, hvort búið væri að stofna bústofnslánadeildina, sem ákveðið var að koma á eftir Búnaðarbankalögunum í fyrra, og ég hefi haldið, að hún væri ekki enn tekin til starfa. Og ef það er ekki, þá vildi ég spyrja, hvenær búast mætti við, að henni yrði komið á. Ég veit, að margir bændur hafa áhuga fyrir því að auka búpening sinn, og eftir ummælum hæstv. ráðh. áðan veit ég það, að hann hefir mikinn áhuga fyrir því, að það geti orðið.

Mér hefir skilizt eftir umr., að samkomulag muni fast milli hæstv. stj. og n. um flestar brtt., og finn því að svo komnu ekki ástæðu til að ræða þær frekar.