30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (882)

20. mál, búfjárrækt

Sigurður Eggerz:

Ég ætla ekki að tala mikið um brtt. n., því að ég get greitt atkv. með þeim yfirleitt. En ég stoð upp til þess að ítreka þá fyrirspurn, er ég gerði til hæstv. stj. við síðustu umr. þessa máls, um það, hvort bústofnslánadeild verði bráðlega komið á fót við Búnaðarbanka Íslands. Það er gert ráð fyrir því í 1. um Búnaðarbanka Íslands, að ríkið leggi fram og tryggi fé í þessu augnamiði, og ennfremur, að ríkið leggi til deildarinnar 300 þús. kr. stofnfé á 6 árum. Ég býst við, að ekkert sé þá til fyrirstöðu frá stj. hálfu, að þessu verði fullnægt, en ég held, að full ástæða sé til, í sambandi við þetta frv., að leggja sérstaka áherzlu á, að þessari deild Búnaðarbankans verði sem fyrst komið á fót. Þess vegna spurði ég um þetta við 2. umr. og ítreka fyrirspurn mína nú. Ég veit, að bændur leggja mjög mikla áherzlu á, að þessir lánsmöguleikar verði opnaðir þeim sem fyrst. Það hefir verið sýnt fram á það í umr. um þetta frv., hve mikilsvert atriði búfjárræktin sé fyrir landbúnaðinn. En það þarf möguleika fyrir lánum til þess að hægt sé að koma upp búum. Margir bændur hafa skrifað mér og beðið mig um að útvega sér lán úr þessari deild Búnaðarbankans. Ég hefi svo farið í bankann, og skýrði einn bankastjóranna mér frá því, að deildin myndi verða stofnuð eftir nýárið, en hún hefir ekki verið stofnuð ennþá.

Er því gott, að skýrar raddir komi fram hér á Alþingi um, að þessu máli verði komið í rétt horf hið allra bráðasta.

Skal ég svo ekki tala meira um málið, en vænti að fá svar frá hæstv. stj., er gangi í þá átt, að búast megi við, að deildin verði stofnuð bráðlega.