17.03.1931
Efri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

13. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Páll Hermannsson):

Í frv. því, sem stj. lagði fyrir Alþ. 1928 um tilbúinn áburð, var gert ráð fyrir því, að gefin yrði heimild um óákveðinn tíma til þess að greiða úr ríkissjóði flutningsgjöld á áburði til landsins. Við meðferð þingsins tók þetta atriði þeirri breyt., að heimildin var gefin, en var miðuð við 3 ár, arin 1929, 1930 og 1931.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er reyndar eingöngu framhald af þessari þriggja ára heimild. Í frv. er farið fram á að framlengja á ný um 3 ár heimildina til þess að greiða úr ríkissjóði farmgjöld af áburði til landsins. Landbn. hefir orðið sammála um að mæla með því við hv. d., að þetta frv. verði samþykkt. Þetta hefir n. látið í ljósi á þskj. 136. Ég þarf ekki að segja fleira um þetta frv. fyrir n. hönd. Það kom í ljós strax á þinginu 1928, að ýmsir þm. litu svo á, að það mundi vera rétt, þar sem ríkið greiddi fyrir flutning til landsins, að það greiddi líka fyrir flutning um landið. Á því þingi komu fram raddir um þetta. Það varð þó ekki úr því á því þingi, en á næsta þingi var lögunum breytt á þann hátt, að inn í þau var sett ákvæði um styrk til landflutnings áburðar. Frv. gerir reyndar ráð fyrir því, að þessi lög verði felld úr gildi, en bæði hefir það komið í ljós á búnaðarþingi því, sem fyrir skömmu var haldið hér, að allir fulltrúarnir á því þingi álitu, að ekki væri rétt að fella niður þessa heimild til styrktar flutningum um landið, og eins er vitanlegt, að margir hér á Alþ. líta eins á málið. Það vill svo til, að 2 af þeim, sem eiga sæti í landbn., hafa sömu skoðun um þetta. Hv. 4. landsk. og ég höfum því í félagi leyft okkur að bera fram breyt. við frv. á þskj. 147, sem gengur fyrst og fremst í þá átt að gera nokkuð fyrir landflutninginn.

Á þinginu 1929 voru búnar til reglur í stórum dráttum um það, á hvern hátt skyldi greiða fyrir landflutningi. Það var ætlazt til þess, að ríkið verði til styrktar flutnings á áburði upphæð, sem svaraði til farmgjalds til landsins, en tæki nokkuð af því, sem hefði komið til þeirra, sem bezt eru staddir, og verði því til þeirra, sem verst eru staddir, þ. e. til þeirra, sem þurfa að flytja áburðinn langa leið á landi.

Ég veit, að hv. þdm. er kunnugt um þetta, en vil geta þess, að við reynslu þá, sem við höfum fengið á þessu, hefir komið í ljós, eins og margan grunaði strax, að þetta fyrirkomulag er þunglamalegt og erfitt til framkvæmdar.

Í till. okkar um þetta atriði höfum við hugsað okkur að taka upp aðra reglu. Við höfum hugsað okkur, að greitt yrði úr ríkissjóði farmgjald til hafna hér á landi, en auk þess yrði greitt fyrir landflutning þannig, að greiða fyrir kostnað við flutning á landi fyrir vegalengdir, sem færu fram úr 30 km., eftir nánari reglum, sem atvinnumálaráðuneytið í sambandi við Búnaðarfélag Íslands setur þar um. En við höfum einnig hugsað okkur að vinna upp á líkum grundvelli og lagt var til 1929 líka upphæð þeirri, sem til landflutningsins er varið, með því að leggja framvegis hærra prósentugjald á en áður var leyfilegt.

Eftir lögunum frá 1928 um tilbúinn áburð er heimilt að leggja á áburð 2%. Á síðastliðnu ári námu innkaup á útlendum áburði fullum 700 þús. kr. og á sama ári var varið til styrktar landflutningi allt að 20 þús. kr. Þess má geta, að á síðasta ári var landflutningsstyrkurinn veittur fyrir vegalengdir, sem voru umfram 20 km.

Þegar menn vita, að varið hefir verið til landflutnings á síðastl. ári um 20 þús. kr. og þær eru nálægt 3% álagning á vörunni, geta menn ímyndað sér, að 2% álagning í viðbót mundi nokkurnveginn svara til þess kostnaðar, sem fer til flutnings umfram 30 km.

Búnaðarþingið lagði til fyrir sitt leyti, að flutningur á landi yrði styrktur fyrir vegalengdir, sem væru umfram 40 km. Okkur flm. þótti þessi merkilína liggja nokkuð hátt, einkum með hliðsjón af þeirri reglu, sem notuð var á síðasta ári, að miða við vegalengdina inn í miðjan hrepp. Þá geta ýmsir bændur verið an styrks, sem flytja þurfa áburðinn 60 km. eða jafnvel lengra. Annars er það álitamál, hvar setja á markið.

Þó að landbn. hafi öll orðið sammála um að mæla með frv., höfum við tveir samt fundið ástæðu til að bera fram till. á þskj. 147. Fyrsta till. er um að styrkja landflutning fyrir vegalengdir, sem lengri eru en 30 km, Önnur till. er um að bæta 2% við álagningu til þess að vinna upp kostnað, en þriðja grein er afleiðing af þessu.

Ég vildi mega vænta þess, eins og ég fyrir n. hönd óska þess, að þessi hv. deild sjái sér fært að samþ. frv. þetta, að hún geti einnig orðið sammála um að samþ. þessar brtt.