17.03.1931
Efri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

13. mál, tilbúinn áburður

Jón Baldvinsson:

Nál. sjálft gefur það til kynna, að sumir nm. vilja gera breytingar á frv. Ég hefði sannarlega getað fallizt á að láta frv. ganga fram óbreytt, þótt ég í n. hafi látið það álit uppi, að réttast væri að framlengja lögin um eitt ár í senn. Upprunalega voru lögin sett til þess að örva bændur til þess að kaupa tilbúinn áburð. Notkun tilbúins áburðar hefir líka aukizt mikið og hefir orðið mikið gagn af því fyrir ræktunina. Hinsvegar getur verið álitamál, hversu lengi eigi að styrkja það, og mér finnst, að þingið ætti að taka það til umhugsunar ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti, hvort þessum styrk eigi að halda áfram.

Nú eru lögin búin að standa síðan 1928 og voru þá sett til þriggja ára. Þetta er og orðinn verulegur liður í fjárlögunum. Árið 1930 var það áætlað 30 þús. kr., en fór 70 þús. kr. fram úr áætlun. Nú í fjárlögum eru ætlaðar til þessa 50 þús. kr., og ef gert er ráð fyrir áframhaldandi aukningu á notkun áburðar, þykir mér sennilegt, að greiða verði upp undir 100 þús. kr. næsta ár. Og árið 1932 hygg ég, að það muni enn hækka, sérstaklega ef viðbót sú, styrkur til landflutninga, sem hér er borin fram, verður samþ.

Tveir nm. vilja láta heimila ríkisstj. að greiða kostnað við flutning á landi, sem fer fram úr 30 km., og þess utan á að greiða fyrir flutning til landsins. — Það má gera ráð fyrir því, að fyrst hafi notkun áburðar byrjað við sjávarsíðuna, en með þessum styrk hefir notkun hans aukizt hjá bændum inni í landi, og það virðist hafa verið tilætlunin að koma þeim upp á að nota hann. En þegar búið er að kenna þeim að nota áburðinn og séð er, að það kemur að gagni, þá finnst mér vera tími kominn til að athuga, hvort ekki eigi að draga úr framlögum ríkissjóðs til þessa. Ég hefði getað sætt mig við að samþ. frv. eins og það er, en ég mun greiða atkv. móti brtt.

Hv. frsm. sagði, að búnaðarþingið hefði gert till. til Alþingis um að styrkja landflutninga, er um vegalengdir yfir 40 km. væri að ræða. Og það er mér kunnugt um, að búnaðarþingið felldi till. um að miða styrkinn við 30 km. með 11 eða 12 atkv. gegn 1. Hér er því gengið mun lengra heldur en búnaðarþingið treystir sér til að fara. Hefi ég ekki fleiri athugasemdir að gera, en mun greiða atkv. á móti brtt. á þskj. 147, en býst við að greiða atkv. með frv. óbreyttu, þó að ég hefði kosið, að það hefði farið skemmra. Þó ber ekki að skilja orð mín svo, að ég sé að telja það eftir, að bændum sé veittur þessi styrkur. En ef blaðið er í fjárlögum síðustu ára, sest þar, að veittar eru allálitlegar upphæðir til landbúnaðarins. Við þetta er auðvitað ekkert að athuga, ef ríkið getur það og hinir atvinnuvegirnir eru ekki vanræktir.