18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (904)

27. mál, kirkjur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil benda hv. þm. Vestm. á það, að þar sem hann talar um rétt, sem tekinn sé af kjósendum, þá er hér ekki um fornan rétt að ræða, heldur nýjung, sem vel getur verið að sé æskileg. Hitt er ekki satt, að neinn forn réttur hafi verið brotinn á kjósendum með því að senda þeim ekki stjfrv. fyrir þing. Ég hefi sjálfur átt sæti á þingi í 8 ár, þar af 5 í stjórnarandstöðu, og fékk á þeim 5 árum ekki eitt einasta frv. fyrir þing. — Eins og hv. þm. V.-Skaft. hefir þegar tekið fram, hefir þessi stjórn yfirleitt ekki sent nokkrum þingmanni stjfrv., a. m. k. hefi ég ekki gert það.

Ég vil minna hv. þm. Vestm. á eitt óskabarn hans, frv. um ríkislögreglu, sem unnið var að í flokki hans mikinn hluta vetrar, en haldið leyndu fyrir öllum landslýð, unz á þing kom. Finnst nú hv. þm. Vestm. ekki, að rétt hefði verið af Jóni Magnússyni að lofa sjómönnunum í Vestmannaeyjum að sjá frv. í tæka tíð, svo að þeir hefðu getað lagt blessun sína yfir það, áður en það kom fyrir þingið?