18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (905)

27. mál, kirkjur

Hannes Jónsson:

Á þingmálafundum í Vestur-Húnavatnssýslu hefir þráfaldlega verið undan því kvartað síðustu 6 – 7 árin, hve óheppilegt væri að hafa ekki stjfrv. fyrir sér. Man ég, að þáverandi þm. kjördæmisins, Þórarinn Jónsson, ataldi þetta harðlega á sínum tíma. Það mun rétt vera, að þetta hafi ekki verið venja í tíð fyrrverandi stjórnar. En ef nauðsynlegt er, að það verði venja, er rétt að hv. þm. láti vilja sinn í ljós um það. Aðalatriðið er hér sem oftar, að breyta til batnaðar, en ekki að sakast um orðinn hlut. Ég vil taka það fram, að mér hafa engin frv. verið send. Hinsvegar hafði ég fengið að vita um efni sumra þeirra með því að gera fyrirspurnir. En það er ekki nóg. Kjósendur þurfa að hafa frv. sjálft fyrir sér, svo að þeir geti látið álit sitt á þeim í ljós, þótt það álit sé að vísu eigi ávallt staðgott, þar sem oft er lítill tími til að athuga og rökræða málin á stuttum fundum. Vestfirðingar hafa tekið upp þá aðferð að halda lengri fundi, þar sem menn fá tækifæri til að rannsaka málin og koma með rökstutt álit. Myndi mjög til bóta, að slíkt fundarsnið yrði tekið upp víðar.

Ég skal svo eigi fara fleiri orðum um þetta efni, en vona að stjórnin breyti sem fyrst um reglu.