17.03.1931
Efri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

13. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég get látið í ljósi ánægju mína yfir því, að öll n. skuli leggja til, að frv. verði samþ. Ég gat þess, er ég bar fram þetta frv., að ég hefði verið í vafa um það, hvort framlengja bæri lögin eins og gert var á þingi 1928 eða 1929. Og ég gat þess um leið, að ég hefði viljað ráðgast um ýms atriði við búnaðarþingið og vita. hvort ekki fengist einhver millileið. Sú leið fékkst, eins og hv. frsm. gat um, enda munu brtt. á þskj. 147 vera í aðalatriðum samkv. vilja búnaðarþingsins. Var stungið upp á tveim leiðum. Annarsvegar þeim möguleika að miða þennan styrk við ákveðinn stað, eins og t. d. á Austurlandi að miða þetta á Fljótsdalshéraði við Egilsstaði, og hér á Suðurlandsundirlendinu við Ölfusárbrú. Hinsvegar varð sú niðurstaða búnaðarþingsins að binda þessa styrkveitingu við 40 km. Hefir því meiri hl. n. farið bil beggja. Við lögðum til, að þetta yrði miðað við 20 km., búnaðarþingið 40 km. og n. 30 km. Skal ég ekki gera þetta að ágreiningsatriði. Get ég vel fallizt á 30 km., þótt ég játi hinsvegar, að það hefði orðið einfaldara í framkvæmdinni að miða þetta við 40 km. Getur vel verið, að það verði miðað við 40 km. næst.

Hv. 2. landsk. lýsti yfir því, að hann væri málinu fylgjandi. Og hann sagði réttilega, að það væri álitamál, hve lengi þessi styrkveiting ætti að haldast. Stj. hefir líka álitið, að framlengja bæri þessa styrkveitingu aðeins til ákveðins tíma í senn. Og það út af fyrir sig skiptir ekki miklu máli, hvort framlengt er aðeins til 2 ára eða 3, eins og ráð er fyrir gert í frv.

Það er að vísu satt, að þetta eru allverulegir liðir í fjárl., eins og hv. 2. landsk. benti á. En það er sízt ástæða til að láta sér vaxa í augum þá liði, sem miða að aukinni framleiðslu. Og það gleður mig að sjá, hversu stórir þessir liðir eru í fjárl. Það sýnir bezt, hvað bændur álita sig hafa mikið hagræði af að nota þennan áburð.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að álitlegar fjárhæðir fara til landbúnaðarins. Ekki skil ég, að það komi honum neitt á óvart, því að hann hefir lagt atkv. sitt til þess um mörg ár. Og ég býst við, eftir forsögu þessa hv. þm. hér á þingi, að hann vilji einnig fá þessa fjárhæð lögtekna. Vitanlega dettur mér ekki í hug að halda, að hann sjái eftir því fé, sem fer til þessa. En ég býst við, að hann, þegar hann talar um álitlegar fjárhæðir, meini fallegar fjárhæðir.