18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (912)

27. mál, kirkjur

Jóhann Jósefsson:

mér fannst hv. 2. þm. Rang. komast í nokkra mótsögn við sjálfan sig í niðurlagi ræðu sinnar. Hann vildi ekki láta ræða þetta mál, en vildi þó hinsvegar fá því breytt. Skil ég ekki í þeim tvíveðrung. — Það sem hæstv. forsrh. lagði til þessa máls, fannst mér sanngjarnt. Hann var sammála mér og öðrum um það, að óheppilegt væri að hafa ekkert af fyrirætlunum stjórnarinnar til umræðu á þingmálafundum. Ég get vel trúað því, að hann vilji kippa þessu í lag. — En til að minna á, hvernig þetta hefir verið framkvæmt, þá dugar að segja frá umburðarbréfum þeim, sem send hafa verið út um land frá skrifstofu Tímans, eða undan handarjaðri stjórnarinnar. Í bréfi, er sent var út fyrir jólin, hefi ég fyrir satt, að flokksmönnum hæstv. stjórnar hafi verið gefið fyrirheit um, að þeim yrðu send stjfrv. á sínum tíma. Í öðru bréfi, sem kom eftir áramótin, er sagt frá þessum frv. Er þar gengið svo langt, að þar er getið frv., sem stjórnin ætli að leggja fyrir þingið, en sem enn hafa eigi komið fyrir augu þm. Svo er t. d. um fimmtardómsfrv. Sakleysi og hlutleysi hæstv. stjórnar lýsir sér þá á þennan hátt. Ég skal litlu svara hæstv. dómsmrh. — Hann talaði um ríkislögreglufrv. Það var satt, að það kom eigi fram fyrir þing.

Þótt hæstv. ráðh. talaði háðslega um ríkislögreglufrv., þá ætti hann manna sízt að gera það, hann, sem bæði hefir haft lögregluvörð og einkavörð um sig af hræðslu við bolsana. (Dómsmrh.: Bolsarnir hafa verið góðir við mig).