11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (917)

27. mál, kirkjur

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég get vænzt þess, að umr. um þetta mál verði ekki þeim mun lengri, sem brtt. við frv. eru fleiri en í síðasta máli. Yfirleitt hefir nefndin fallizt á það, að frv. yrði að lögum og að mestu á þá leið, sem það var borið fram. Því að enda þótt brtt. séu nokkuð margar, er margt af því fyrirkomulagsatriði og orðabreytingar og fært til betra máls.

Aðalbrtt. nefndarinnar við frv. er við 2. gr. þess, a-lið, og snertir ákvæði um stærð kirkna. Í frv. er mælt svo fyrir, að hafa skuli kirkjur þær, er byggðar eru, svo stórar, að þær rúmi a. m. k. 1/3 sóknarmanna í sætum, þar sem einn prestur þjónar, en 1/6 sóknarmanna, þar sem messa er sungin tvisvar á dag. Við þessa gr. gerir nefndin þó brtt., að í stað „1/3 og 1/6“ komi „allt að 1/3 og 1/6“.

Ástæða sú, sem nefndin færir fyrir þessari brtt., kemur fram síðast í grg. og er sú, að þar sem enn er ekki seð, hvaða áhrif útvarpið hefir á kirkjusókn í landinu, þykir ekki tímabært, að fastákveða nánar um stærð kirkna.

Mörgum þykir ástæða til að ætla, að útvarpið muni með tímanum hafa þau áhrif, að draga úr kirkjusókn. Það er að minnsta kosti víst, að fólk hlustar heima hjá sér á messur, sem útvarpað er. Og sumsstaðar koma saman dálitlir söfnuðir á heimilum, þar sem heyrnartæki eru. Af þessu þótti nefndinni vissara að gera ráð fyrir, að kirkjusókn kynni að minnka og telur því ekki rétt að hnitmiða svo stærð kirkna, að ekki mætti hafa þær minni, þótt almenna reglan yrði sú, að miða við 1/3 safnaðarmanna.

Þá er ákvæði í 5. gr. frv. um skyldu til að hafa í kirkjum nægileg hitunartæki. Það er gott til þess að vita, að fyrir þessu atriði sé séð í lögunum og verður að skoðast sem sjálfsögð heilbrigðisráðstöfun. nú er yfirleitt að batna fyrirkomulag um hitun híbýla manna, og þá er það eðlilegt, að því verði ekki unað, að mönnum geti ekki liðið sæmilega, meðan þeir sitja í kirkjunum. Við þessa grein vill þó nefndin gera þá brtt., að ráðherra geti veitt undanþágu í þessu efni, þar sem sérstaklega stendur á, t. d. þar sem fáir bæir, 2–3, eru um eina kirkju, eða þar sem kirkjur eru orðnar gamlar eða hrörlegar, og því líklegt, að þær verði bráðlega endurbyggðar. Sæmileg hitunartæki kosta talsvert fé og því getur verið áilitamál, hvort rétt sé að kaupa þau til slíkra kirkna.

Þá er nokkur breyting lögð til við 13. gr. b-lið um samþykki ráðh. um hækkun kirkjugjalds um 100% vegna kirkjubyggingar. Í þá grein hefir slæðst prentvilla, „kirkjugjalda“, en á að vera „kirkjugjalds“; hefir skrifstofan lofað að leiðrétta þetta í prentun. Yfirleitt eru margar af brtt. fyrirkomulagsatriði, í þá átt að mæla svo fyrir, að ýmsum mögulegum ágreiningsatriðum á milli presta og safnaða, eða sóknarnefnda og prófasta, beri að skjóta til ráðherra en ekki biskups. Ég álít, að slíkar deilur geti stundum orðið nokkuð harðar og tel, að með þessum breytingum verði komizt hjá að stofna e. t. v. til leiðinda milli kirkjustjórnar og prófasta eða presta eða safnaðar, sem annars hafa mikið saman að sælda.

Þar sem nú er langt áliðið fundartímann, mun ég ekki hafa fleiri orð um frv. og brtt. Ég vil geta brtt. á þskj. 113, sem hv. 2. þm. Reykv. ber fram. Um fyrra atriði þeirrar brtt. vil ég taka það fram, að nefndin mun ekki fallast á hana, heldur halda sér við sína fyrri skoðun á því efni, — en um síðara atriðið er það að segja, að nefndin hefir þar óbundnar hendur; mun ég fyrir mitt leyti bíða átekta og hlusta á, hvað hv. þm. segir um till. sínar.