11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (918)

27. mál, kirkjur

Héðinn Valdimarsson:

ég mótmæli því algerlega, að nefndin sé bundin við brtt. á þskj. 113. Við nefndarmenn höfum aldrei undirskrifað þær eins og þær líta út á nefndu þskj. Ýmsum þeirra hefir hv. form. bætt á skjalið eftir að nefndin undirskrifaði það.

Hann segir að nefndin sé bundin við þá brtt., að kirkjur skuli rúma allt að safnaðar, en það er alls ekki rétt.

Bæði ég og hv. 3. þm. Reykv. voru á móti því að miða við 1/3 og 1/6 safnaðanna. Í áliti því, sem nefndin undirritaði, var aðallega rætt um væntanleg áhrif útvarpsins á kirkjusókn, og einnig um það, að gera þyrfti frv. mýkra og aðgengilegra. Þó hér sé ekki um stórt mál að ræða, þá get ég ekki fallizt á þessa brtt. hv. formanns n., meðal annars af því, að eftir orðalagi brtt. er aðeins ákveðið, hve stór kirkja megi vera, en ekki hve litil minnst. Brtt. segir bókstaflega ekkert um það, og þó að byggð væri kirkja yfir 1 til 2 menn, þá væri ekkert hægt að setja út á það. Annars get ég verið sammála hv. formanni um það, að eitthvað megi minnka kirkjurnar frá því, sem frv. leggur til. Ég bar fram á nefndarfundi till. um, að í stað 1/3 kæmi 1/4 safnaðanna og í stað 1/6 kæmi 1/8, þar sem messa er sungin tvisvar á dag.

Út af síðara lið 5. gr. frv., vil ég taka það fram, að þar sem ákveðið er að kirkjur skuli vera vátryggðar fyrir eldsvoða, virðist vanta ákvæði um það, að þær séu vátryggðar í Brunabótafélagi Íslands, sem er auðvitað alveg sjálfsagt, þar sem ríkið ber ábyrgð á þeirri stofnun.