12.03.1931
Neðri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (926)

27. mál, kirkjur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vildi segja nokkur orð svo sem í framhaldi af ræðu hv. 1. þm. Skagf. — Mér þykir raunar ekki óeðlilegt, að honum sem fyrirrennara mínum í embætti kirkjumálaráðherra, þyki það nokkuð ógætilegt að flytja fram fyrir þingið frv., sem leggur í þessu nokkuð þyngri byrðar á þjóðina heldur en hún hefir átt við að búa næst á undan. En mér þótti rétt, úr því að þessi nefnd var skipuð, þar sem prestarnir höfðu meiri hluta, þá væri þeim gefinn kostur á að koma fram með sínar óskir og kröfur viðvíkjandi kirkjuhaldi, sem þeir eiga sjálfir við að búa, en hafa ekki haft tækifæri til að gera tillögur um í langan tíma. Þar sem prestarnir voru í meiri hluta í nefndinni, er eðlilegt, að andi þeirra komi fram í frv. Þegar nefndin hafði skilað frv. til stjórnarinnar, var um tvennt að velja. Annað, að stj. gerði brtt. við frv. eða þá að leggja frv. fram óbreytt fyrir þingið. Ef stj. hefði farið að breyta frv., þá hafði það þann galla, að ekki varð glögglega séð, hvað var frá stj. og hvað frá nefndinni. Ég kaus þá leið að láta frv. fara óbreytt fyrir þingið, en hugsaði mér sem hverjum öðrum þingmanni, að hafa áhrif á það með orðum og atkv., þegar til umræðu og úrslita kæmi.

Það getur verið, að hv. 1.þm. Skagf. þyki þetta ekki rétt aðferð, en ég hefi nú skýrt frá ástæðunum. Nú hefir viljað þannig til, að frv. hefir verið rætt meðan ég var forfallaður af innflúensu og því hefi ég ekki getað tekið þátt í umr. um það.

Ég er sammála hv. 1. þm. Skagf. um

það, að 2. gr. frv. þurfi eitthvað að breyta. Álít ég, að það geti verið varhugavert að hafa skylduna um stærð kirkna alveg fortakslausa, þegar litið er á örðugan fjárhag safnaða og ríkis, en ég er ekki viðbúinn að gera ákveðnar brtt., en vildi hinsvegar eiga hlut að því með nefndinni eða einhverjum öðrum, að ráða frv. til lykta með því að semja við það brtt. fyrir 3 umr.