12.03.1931
Neðri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (927)

27. mál, kirkjur

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér þótti vænt um að heyra það, að hæstv. Dómsmrh. er sammála meiri hl. n. um breytingarnar við 2. gr. frv. Enda ættu allir að sjá það, að ekkert vit er í því, á tímum eins og nú virðast vera framundan, að samþykkja að bæta á milljónabyrðum, sem hægt er að krefjast af landsmönnum hvenær sem er.

En þótt ég viðurkenni þetta, þá nær sú viðurkenning mín til hæstv. dómsmrh. heldur ekki lengra. Mér þykir næsta undarlegt, að hann skuli vilja taka við frv. til flutnings frá kirkjumálanefnd og gera það að frv. stjórnarinnar, en er þó ósamþykkur frv. í höuðatr. — Hæstv. ráðh. sagði, að annaðhvort hefði verið fyrir sig að gera, að breyta frv. eða breyta því ekki. Þetta er náttúrlega rétt. En ég álít, að stjórnin hefði alls ekki átt að bera frv. fram, ef hún var að miklu leyti ósamþykk efni þess. En hæstv. ráðh. hefir heldur ekki fylgt þeirri reglu, að láta frv. kirkjumálanefndar koma óbreytt fyrir þingið. Ég veit, að hann breytti a. m. k. einu þeirra í fyrra, frv. um byggingar á prestssetrum, áður en hann lagði það fram. Hann breytti því meira að segja svo, að það varð tilgangslaust og gagnslaust. Styrkurinn var færður svo mikið niður, að ekki var hægt að byggja fyrir hann. Hæstv. ráðh. hefir því hvorugri reglunni fylgt til hlítar, eða réttara sagt fylgt heim sitt á hvað, en engri reglu fylgt gegnum þykkt og þunnt. Ég hélt af þessari ástæðu, að hæstv. ráðh. mundi fylgja frv., eins og það liggur hér fyrir. En ég er feginn því að heyra, að svo er ekki. Okkar skoðanir falla einmitt saman í þessu efni.

Í máli þessu þarf að hugsa um fleira en það, að kirkjan rúmi 1/3 eða 1/4 safnaðar, það þarf líka að líta á það, hvort fé er fyrir hendi til þessa. Í því liggur óvarkárni frv., eins og það er borið fram.

Það getur vel verið, að brtt. n. við 2. gr. hafi ekki verið heppilega orðuð. Ég fyrir mitt leyti samþ. hana með það fyrir augum, að á hana beri að líta svo, að stærðin skyldi að öllum jafnaði vera sem næst því sem í brtt. stendur, eða fyrir 1/3 safnaðarmanna, þar sem ein messa fer fram á helgidögum, en 1/6, þar sem tvisvar er messað sama dag. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ríkið gæti sloppið með það, að leggja ekki nema 250 þús. kr. í nýja kirkjubyggingu í Reykjavík. Söfnuðurinn væri fús til að taka á sig það sem til vantaði. En þótt svo væri, þá er þetta miðað við eina kirkju eða dómkirkju. En þótt þessi kirkja kæmi upp, með þessum styrk frá ríkinu, þá mundi strax þurfa að byggja aðra kirkju jafnstóra. Eru menn viðbúnir því? Ég held, að það þurfi tíma til að undirbúa það mál og safna saman þeirri stóru fjárhæð, sem til þess þarf. Ég er meðmæltur því, að ríkið styrki byggingu dómkirkjunnar hér. En það er ekki rétt að skella frekari skyldum á ríkið, áður en byggingu hennar er lokið. Ef þetta væri samþ., þá mundi Reykjavík vafalaust nota það, og þótt ég sé meðlimur þjóðkirkjunnar og eigi heima hér í Reykjavík, þá vil ég þó frekar líta á hag og nauðsyn ríkisins í þessu máli heldur en það, sem bezt kæmi mér hér. Það er ekki nóg að segja, að hér þurfi stórar kirkjur, ef engir peningar eru til að byggja þær fyrir. Og þegar þeir eru ekki til, þá er hættulegt að leggja þær skyldur á menn og ríkið, sem ekki er hægt að uppfylla.

Ég get ekki verið samþ. því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um kirkjustjórnina. Mér finnst þessi kirkjustjórn eftir frv. svo óákveðið hugtak eða vald. Kirkjustjórn er í raun og veru öll stig frá söfnuðinum til ráðherrans. Mér finnst, að þegar um fullnaðarúrskurð er að ræða, sé nóg að nefna það vald, sem afgerir þau mál, sem ganga lengst. En það vald er hjá kirkjumálaráðherra. Mér finnst, að helzt mætti setja það út á frv., að of miklu sé vísað til úrskurðar ráðherra. það mætti vísa sumu til biskups. Ég hreyfði þessu að vísu í n., en var þar í minni hl. og þótti ekki taka því að gera ágreiningsatkv. um það. Ég geri réð fyrir því, að þegar til úrskurðar kemur, þá leiti ráðherra álits biskups, biskup álits prófasts, prófastur álits prests o. s. frv. Þótt orðið „kirkjustjórn“ virðist vera býsna óákveðið hjá kirkjumálanefndinni, þá virðist þó helzt, að það ætti að takna ráðherra, og þá var rétt að setja það í frv.