12.03.1931
Neðri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (932)

27. mál, kirkjur

0932Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vildi einungis leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann beri 2. og 9. gr. frv. upp sérstaklega, en ekki í sambandi við aðrar gr. frv. Ég álít frv. í heild sinni réttarbót, en þessar tvær gr. mega vel missast úr frv. Eftir þeirri útskýringu, sem gefin hefir verið á orðinu sóknarmaður í 2. gr., þá nær það bókstaflega engri átt að skylda ríkissjóð til þess að byggja kirkju í Reykjavík eins og þar er fyrirmælt, án eðlilegrar þátttöku safnaðar. Slíkt er fjarri öllu viti. Ennfremur nær það engri átt að banna skilmálalaust að geyma í kirkjum annað en muni kirkjunnar, eins og 9. gr. frv. mælir fyrir um. Eftir því ætti að henda út öllu bókasafni Bókmenntafélagsins, sem nú er og hefir verið geymt á lofti dómkirkjunnar í Reykjavík um áratugi. Slík ákvæði sem þetta ná vitaskuld engri átt. Þessi grein þarf að minnsta kosti að orðast um, og það nær engri átt að samþ. hana eins og hún er í frv.