12.03.1931
Neðri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (934)

27. mál, kirkjur

Magnús Jónsson:

Ég þarf ekki að tala langt mál um þá brtt., sem mesta athygli hefir vakið og mestum deilum valdið, því að hún mun vera tekin aftur. Mér dettur ekki í hug að halda fram þeirri nýstárlegu kenningu í stærðfræði, að ekki séu til bendanlega margar tölur fyrir ofan og fyrir neðan 1/3, en það sannar ekkert um það, að það megi ekki eða þurfi ekki að orða till. skynsamlegar en þetta. (MT: Rökvísi prestanna er jafnan söm við sig). Það voru rök þessa þingmanns sjálfs, sem ég var að lýsa.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fella burt 9. gr. frv. Það ætti að nægja að bæta inn í við 3. umr. skilyrði um það, að ekki megi geyma hluti í kirkjum, sem væri þeim til vansæmdar, eða að t. d. ekki megi geyma í sjálfum kirkjusalnum, eða eitthvað þvílíkt. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh., að ekki kemur til mála að banna að geyma í kirkjum eða á kirkjuloftum ýmsa þarflega muni, sem kirkjunni eru til einskis miska. Ég vil þakka mínu gamla sóknarbarni, hv. 2. þm. Árn., fyrir hlýleg ummæli í minn garð. En satt að segja átti ég dálítið erfitt með að skilja, hvað hv. þm. var að fara, þegar hann var að tala um messurnar og réttirnar forðum daga, og taldi þetta tvennt helztu „skemmtanirnar“ fyrrum. Ég held, að hv. þm. hafi ekki meint það sem hann sagði. Ég býst við, að það þætti ósæmilegt og óviðeigandi að segja „góða skemmtun“ við mann, sem væri að fara í kirkju.

Ég held, að hv. 1. þm. Skagf. hafi létt, þegar hv. 2. þm. Árn. tók aftur traustsyfirlýsingu sína á honum, og er það mjög að vonum, að hv. þm. kærði sig ekkert um lof hv. 2. þm. Árn.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Aðeins skal ég geta þess og vekja athygli hv. þdm. á því, að í frv. vantar ákvæði um flutning kirkna, og þarf að athuga það til 3. umr.