18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (944)

27. mál, kirkjur

Jón Sigurðsson:

Eins og hv. þm. Borgf. drap á, hefi ég flutt tvær brtt. við þetta frv. á þskj. 164.

Fyrri brtt. lýtur að því, að bændakirkjur fái að njóta sömu réttinda og aðrar kirkjur. Nú eru sóknarnefndir aðeins skyldar að innheimta gjöld fyrir safnaðarkirkjur, en eftir þessu frv. eiga þær einnig að annast innheimtu fyrir lenskirkjur og finnst mér það ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt, að bændakirkjur fylgist þar með.

Seinni brtt. snertir 17. gr. frv. Þar eru lögð talsverð víti við vanrækslu af hendi kirkjueiganda, og er valdið til að beita þeim alveg lagt í hendur prófastanna. Í brtt. er aftur ákveðið, að samþykki viðkomandi safnaðar verði a. m. k. að koma til um ákvarðanir prófasts í þessu efni.

Ég geri ráð fyrir, að eitt og annað geti komið til greina, er geri það að verkum, að söfnuðirnir líti öðrum augum á þessi mál en prófastur, sem venjulega á heima í nokkurri fjarlægð.

Annars held ég það orki tvímælis, hvort rétt sé að taka yfirleitt svo hörðum höndum á kirkjueigendum, sem gert er í þessu frv., þegar búið er með lagabreytingu að rýra svo tekjur kirknanna, að þeir eiga mjög erfitt með að halda þeim við, nema með því að leggja til þeirra stórfé frá sjálfum sér. Mér kom til hugar að flytja brtt. við 12. gr. um þetta efni. En ég hætti við það sökum þess, að ég var ekki viss um að ná á þann hátt fullkomlega þeim tilgangi, sem ég hefði helzt kosið. Mér finnst, að rétt hefði verið að taka við úttekt kirkna tillit til hlutfallsins milli þeirra tekna, sem þær höfðu áður, og þeirra tekna, sem þær hafa haft síðustu árin, eftir að lögunum var breytt. Það er ekki rétt að heimta af kirkjueiganda, að hann borgi svo þús. króna skiptir frá sjálfum sér í álag, ef hægt er að sanna, að tekjur kirkjunnar hafi verið rýrðar svo með lögum, að af þeim hefir ekki getað myndast nægilegur sjóður til viðhalds kirkjunni.

Ég skýt þessu fram hér aðeins til athugunar.

Vildi ég svo mega vænta þess, að hv. d. tæki vel þeim smábreytingum, sem ég hefi hér flutt.