18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (952)

27. mál, kirkjur

Sveinn Ólafsson:

Tillögur mínar og hv. þm. V.-Ísf. hafa mætt andmælum, bæði frá hv. frsm. n. og hæstv. Dómsmrh, Þótt svo sé, verð ég enn að halda því fram, að 4. kafli frv. sé vansmíði og ákvæðin um kirkjunefndir aðeins til spillis. Upp í 21. gr. frv. eru tekin flest sömu ákvæðin, sem gilda um sóknarnefndir eftir lögum frá 1907 um skipun héraðsnefnda og sóknarnefnda. Starf sóknarnefnda er með þessu frv. að nokkru leyti tekið og lagt undir þessar nýju kirkjunefndir, sem viðast munu hafa örlítið starf og því verða þýðingarlausar. Breytingin verður því aðeins til þess, að sóknarnefndir skeyti minna um starf sitt, en auk þess mun hætt við ágreiningi um verkaskiptingu milli þessara nefnda, af því að verksvið þeirra er svo óljóslega afmarkað í frv.

Ég ætla hinsvegar ekki að gera þetta að neinu kappsmáli, því að ég tel það ekki mikilsvert, en ég er sannfærður um, að þessi nýbreytni og óljósa verkaskipting veldur bæði ágreiningi og mistökum hjá þeim, sem eiga að sinna þessum störfum, og spillir því aðeins þeim góða árangri, sem annars mætti verða af starfi sóknarnefnda.

Ég vil ekki, vegna þess að margt annað liggur fyrir, tefja tímann með því að tala um þetta frekar. Ég geri ekkert úr mótmælum hv. frsm., og þar sem hann sagði, að ekki mætti samþ. 21. gr. eins og við leggjum til að hún verði, þá er það út í þótt sagt, því að ákvæði hennar, eftir okkar till., eru hliðstæð ákvæðum laga um skipun héraðsnefnda og sóknarnefnda eftir lögum frá 1907, eins og verður að vera, ef samþ. verður till. okkar um að fella niður kirkjunefndir.