18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (955)

27. mál, kirkjur

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfá orð. Hv. 1. þm. Skagf. vék enn að því nokkrum orðum, sem okkur for á milli við 2. umr., nefnilega aðstöðu einstakra manna í stjórninni til einstakra atriða í stjfrv. almennt. Vildi hann enn halda því fram, að öðruvísi væri háttað um mína afstöðu til þessa frv., sem hér liggur fyrir, en afstöðu hv. 1. landsk. til frv., sem hv. 1. þm. Skagf. flutti hér um árið, og sem að vísu ekki var stjfrv., en falið nefnd til flutnings fyrir hönd ráðh. En ég vil enn halda fast við það, að hér sé um samkynja tilfelli að ræða. Hv. 1. landsk. flutti brtt. við frv. meðstjórnarmanns síns, og ég hefi komið fram með óskir um að einstökum atriðum þessa frv. verði breytt. En sá var munurinn, að till. hv. 1. landsk. gengu í þá átt, að eyðileggja frv. eða fella það, og verður afstaða hans að því leyti önnur en mín afstaða til þessa frv., því að mér er annt um, að málið nái fram að ganga, enda þótt ég vilji láta breyta einstökum gr. þess.

Hv. þm. talaði þannig um frv. kirkjumálanefndar, að það væri enginn hér í deildinni, sem hugsaði um þau. (MG: Þetta frv.). Þetta er vitanlega á engum rökum byggt. Sá ráðh., sem ábyrgð ber á flutningi þess, hæstv. Dómsmrh., hefir alls ekki vanrækt þetta frv. Hann hefir, þrátt fyrir annir og lasleika, tekið mikinn þátt í umr. um málið, og fylgt því fast fram. Auk þess ber þess að geta með þakklæti, að hv. allshn. hefir sýnt málinu fullan sóma. Hv. 1. þm. Skagf. er sjálfur í n., og ég geri ráð fyrir, að hann eigi drúgan þátt í hinum skynsamlegu till. n., og um nefndina er það ennfremur að segja, að hún er hlynnt framgangi frv. Enn má geta þess, að sá eini af hv. þdm., sem starfandi er í þjónustu kirkjunnar, nefnilega hv. 1. þm. Reykv., er mjög hlynntur frv. Ég get því ekki séð, að frv. þetta sé á flæðiskeri statt hér í deildinni. Hinsvegar verður því ekki neitað, að fremur hefir andað kalt til frv. frá hv. 1. þm. Rang., enda hefir hann farið lítilsvirðingarorðum um alla starfsemi kirkjumálanefndarinnar. Og ef hv. 1. þm. Skagf. finnst þetta frv. hafa orðið fyrir ómjúkum viðtökum hér í deildinni, þá ætti hann að skjóta þeim fleygum til hv. 1. þm. Rang., því að þaðan hefir vissulega andað kaldast til þessa máls. Að öðru leyti held ég, að það sé óþarfi af hv. l. þm. Skagf. að kalla þetta frv. útburðarbarn, meðan svo margir eru í deildinni, sem láta sér annt um það, enda hefir það berlega komið fram undir umr., að menn telja málið í heild sinni hið þarfasta. Mér er og kunnugt um, að prestastétt landsins er mjög fylgjandi þessum till. og yfirleitt öllum till. kirkjumálanefndar. Ég hefi svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni, en vil sem sagt leggja til, mjög eindregið, að frv. nái fram að ganga.