18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (957)

27. mál, kirkjur

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég þarf ekki miklu að svara, enda þykist ég ekki hafa eytt fleiri orðum um þetta mál en þörf hefir verið á.

Ég skal fyrst snúa mér að hv. 1. þm. S.-M. Hann var á móti kirkjunefndunum og óttaðist, að þær mundu verða sóknarnefndunum til meins og trafala. ég er á allt öðru máli um þetta atriði. Ég er sannfærður um, að almennt tækist hin bezta samvinna milli sóknarnefnda og kirkjunefnda, enda myndi það aðalhlutverk kirkjunefndar að hlynna að kirkjunni, skreyta hana og fegra eftir föngum. Og ég er viss um, að þær yrðu sóknarnefndunum haukur í horni, ef um bygging nýrrar kirkju væri að ræða. Það mun engum vafa undirorpið, að ef byggja á sæmilega guðsdóma hér á landi, þá mun fé kirknanna sjálfra hrökkva skammt til, heldur mun verða að leita frjálsra samskota í flestum tilfellum, og það er vafalaust, að til þess eru konur bezt fallnar.

Þá var það hv. þm. Borgf., sem mátti ekki heyra prófast nefndan í sambandi við bygging kirkna. Ég verð nú að segja það, að mér finnst nokkur munur á því, hvort prófastur á nokkurn íhlutunarrétt um þetta, eða alls engan, eins og hv. þm. Borgf. vill vera láta. Ég hélt, að það væri eðlilegast, að einhver af kirkjunnar mönnum hefði einhverja hönd í bagga um bygging nýrrar kirkju, en samkv. till. hv. þm. Borgf. á enginn úr hopi kirkjunnar manna neinn minnsta íhlutunarrétt eða tillögurétt um þá hluti, heldur skal sóknarnefnd ein öllu ráða. Eftir gömlum og gildum lögum hefir prófastur forgöngu í þessum efnum, og virðist það eðlilegt og sjálfsagt, að svo sé. Ef hinsvegar kirkjunnar mönnum er meinað að koma nærri þessum málum, eins og hv. þm. Borgf. vill, þá er verið að mynda djúp milli safnaða og presta, sem örðugt verður að brúa. Er þá illa farið högum kristinnar kirkju á landi hér, því að vissulega veltur á miklu, að sem bezt sambúð sé milli þessara aðilja.

Í þessu sambandi hefir mér verið brugðið um það, að ég vildi ekki efla biskupsvaldið. Þetta er rétt að sumu leyti og sumu leyti ekki. Ég hefi litið svo á, að þeir, sem nær væru söfnuði, prestar og prófastar, ættu að raða tiltölulega meiru um þessi mál, en ef til ágreinings kæmi, þá kæmi til úrskurðar ráðherra. Þetta hefir og verið svo til þessa. Biskupar hafa haft tillögurétt og umsagnarrétt, en ráðherrar og áður landshöfðingjar haft úrskurðarvaldið. Með þessu er biskup í varinu, því að öll óánægja bitnar á ráðuneytinu, og góðri samvinnu milli safnaðar, klerka og biskups er í enga hættu teflt. Þetta tel ég einkar mikilsvert atriði. Hitt er að vísu alveg rétt, að ég er fremur mótfallinn því, að fara að setja á stofn nyti kennivald í landinu.

Hv. þm. Borgf. leit svo á, að 5. gr. frv. væri gagnslaus, ef 2. gr. væri samþ. Þetta er ekki rétt. 2. liður 2. gr. fjallar um endurbygging og endurbætur kirkju, en 5. gr. fjallar um það, hversu skuli að fara, þegar búið er að ákveða að endurbyggja kirkju. Prófastur á að vera milligöngumaður milli ráðuneytisins, húsameistara og safnaðar um þessa hluti, og verð ég að telja það mjög æskilegt, meðal annars af ástæðum, sem ég hefi áður drepið á.

Ég þóttist ekki hafa í ræðu minni gefið hv. þm. Borgf. nokkurt minnsta tilefni til þess að sletta halanum. Ég þóttist tala með fullri alvöru um málið, sem vera ber. En hv. þm. gat ekki á sér setið, heldur reyndi að þjóna lund sinni með óþarfa keskni, svo sem háttur er illa innrættra og illa siðaðra manna. En hann lét sér ekki nægja, að hafa í frammi hverskyns óþokkayrði í minn garð, heldur gekk hann jafnvel svo langt, að reyna að ljúga því upp á Pál postula, að hann hefði verið kvennamaður! Ég hefi ekki nokkru sinni heyrt þess getið, að nokkur maður hafi nokkurn tíma borið postulanum slíkt á brýn, og ég hefi fulla ástæðu til þess að ætla, að hv. þm. fari hér með staðlausa stafi. En hitt mun sönnu nær, að postulinn Páll hafi lítið dregið taum kvenna. Og svo mikið er víst, að lítið er kvenfrelsiskonum um Pál gefið, enda hafa þær jafnan haft horn í síðu hans, þegar þær hafa því við komið. En eitt er þó víst, að hvað sem misjafnt má segja um Pál postula, þá hefir hann aldrei kysst né klappað né kjassað kerlingarnar á Akranesi meðan karlarnir þeirra voru á sjó! Þetta ætti hv. þm. að leggja sér ríkt á hjarta, áður en hann fer að flytja þingheimi speki sína viðvíkjandi kvennamennsku postulans.

Annars þótti mér það næsta undarlegt af hv. þm. Borgf. að fara að rifa sig úr roðinu í þessu máli, með því að umr. gáfu ekki hið minnsta tilefni til þess. En þeim sem þekkja þennan hv. þm., kemur slíkt engan veginn á óvart. Það er öllum hv. þdm. kunnugt, að hv. þm. Borgf. er á marga lund svo sérkennileg persóna og svo ólíkur því, sem fólk er flest, að hann gæti efalaust orðið sálfræðilegt viðfangsefni vísindamanna, a. m. k. ef hann þá þætti ekki um leið of ómerkileg persóna til þeirra hluta. á vínöldinni var sá háttur manna, þeirra er efni höfðu á, að fá sér „strammara“ að morgni dags, en sá siður kvað nú vera lagður niður að mestu leyti. Hv. þm. Borgf. vantar eitthvert slíkt meðal, til þess að vinna bug á geðvonzku sinni, þó að ekki væri nema um stundarsakir. Mér dettur í hug saga af verzlunarstjóra í einum kaupstað landsins. Hann átti sérstaklega ágengan og frekan húsbónda, sem sigaði honum á viðskiptamennina og krafðist þess af honum, að hann kæmi fram öllum óþokkaverkum, sem hann krefðist af honum. Verzlunarstjórinn, sem í rauninni var allra bezti maður, varð brátt svo önugur og óþýður viðureignar, vegna þessarar örðugu aðstöðu, að hann gat ekki án þess verið að skammast einu sinni á dag. Og þar kom, að er menn þurftu að eiga viðskipti við verzlunarstjórann, er undir var komið, þá sendu þeir mann til þess að rífast við hann, því að þá var hann bezti maður það, sem eftir var dagsins. Ég dreg þá ályktun af framkomu hv. þm. Borgf. að hann sé kominn á alveg sama lagið, að hann þurfi endilega að rífast einhvern tíma á daginn, og þá finni hann sér allt af eitthvert tilefni, ef aðrir gefa honum ekki tilefni til þess. Vona ég að hann taki þetta sem heilræði. Ég gæti sagt miklu meira og hefði ástæðu til þess, en ætla að láta hér við lenda, því að ég vorkenni hv. þm. Vona, að þegar honum nú er bent á þetta, þá hagi hann sér eftir því, og ég er viss um að honum líður þá miklu, miklu betur.