18.02.1931
Efri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (966)

12. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég hygg tilgangslítið að fylgja máli þessu úr garði með langri tölu. Það er öllum kunnugt, að þegar stjórnarskrárbreytingar eru á döfinni, er gjarnan reynt að sæta lagi um að hrinda þeim áleiðis, þá er reglulegar kosningar fara fram, til þess að komast hjá sérstökum kosningum. Því var það, að fyrrverandi stj. bar fram á þinginu 1927 frv. um breytingar á stjórnarskránni, sem þá náði fram að ganga á því þingi, en þessi hv. d. felldi á þinginu 1928. Aðalbreytingin, sem þingið 1927 vildi gera á stjórnarskránni var að fækka þingum, þannig að hafa fjárlagaþing einungis annaðhvort þar. Sú breyting er ekki tekin upp í þetta frv. Deildin er nú skipuð að mestu sömu mönnum og 1928, og þess er tæplega að vænta, að hún mundi nú fallast á þær hinar sömu breytingar, sem hún felldi 1928. Auk þess hefir reynsla síðustu ára verið á þann veg, að ég tel mjög tvísynt, að það sé í raun og veru framkvæmanlegt að heyja reglulegt þing annaðhvort ár. Við Íslendingar erum í örum vexti á flestum sviðum, breytingarnar eru stórfelldar frá ári til árs, bæði í viðskiptamálum öllum og atvinnuháttum, og peningamál vor eru enn ekki komin í varanlegt horf, meðan gjaldeyrir okkar hefir ekki fast verðgildi. Að þessu vel athuguðu, hygg ég, að stjórnarskrárbreyting í þá átt að fækka þingum, verði ekki talin æskileg, enda hafa ekki heyrzt raddir um það frá kjósendum í seinni tíð, svo teljandi sé. Ég hefi ástæðu til þess að halda, að þjóðin æski ekki breytinga í þá átt.

Með þessu frv. er aðallega gert ráð fyrir tveim breytingum á stjórnarskránni frá 1920. Önnur atriði frv. standa síðan í sambandi við þær tvær höfuðbreytingar. Önnur aðalbreytingin er um það, að fækka þm. niður í 36, með því að afnema landskjörið. Að þessi breyting náði ekki fram að ganga á þinginu 1927, var ekki fyrir þá sök, að hún ætti þar ekki raunverulegt fylgi, því að 6 af 7 nefndarmönnum, sem um málið fjölluðu í hv. Nd., báru fram till. um þetta, sem var felld með 14:14 atkv., af ótta við það, að till. mundi verða felld hér í þessari hv. d. Þeir, sem stóðu að þessari till. þá, voru ýmsir áhrifamenn úr flokki núverandi stjórnarandstæðinga, og má þar nefna Þórarin Jónsson á Hjaltabakka. Ég skal leyfa mér að benda á nokkrar almennar ástæður fyrir afnámi landskjörsins og fækkun þingmanna.

Ég lít svo á, að landskjörið eigi í rauninni ekki tilverurétt. Reynslan hefir synt, að þær vonir, sem menn gerðu sér um landskjörið, hafa mjög brugðizt. Það hefir ekki komið að því gagni, sem til var ætlazt af hálfu formælenda þess. Má og geta þess, að tilorðning landskjörsins var upphaflega tilviljun ein. Þegar konungkjörnu þingsætin voru lögð niður, voru í þessari deild ýmsir áhrifamenn, sem þá hefðu lent út úr þinginu, ef ekki hefði verið gripið til landskjörsins, til þess að afla þeim þingsætis áfram.

Fækkun þm. hlyti að hafa í för með sér ekki óverulegan sparnað við þinghaldið. En auk þess, að ríkissjóði sparaðist við það nokkrir tugir þúsunda, væri öllum landslýð sparaður mikill kostnaður og óþægindi. Það er í rauninni næsta furðuleg tilhögun að stefna saman öllum landslýð til þess eins, að kjósa þrjá þingmenn og kosta til þess stórfé úr ríkissjóði, og baka kjósendum um allt land stórkostlega fyrirhöfn og kostnað.

Loks munu engir halda því fram, að þm. séu of fáir, þótt þeim væri fækkað niður í 36. Og sízt er ástæða til að óttast, að þingstörf gengu ógreiðara en nú, þótt þm. væri fækkað. Það er vafalaust, að við höfum hlutfallslega miklu fleiri þm. en aðrar þjóðir, og hlutfallslega miklu dýrara þinghald. Að öðu leyti vil ég um afnám landskjörsins leyfa mér að vísa til umr. á þinginu 1927.

Um hina höfuðbreytinguna skal ég vera fáorður. Hún er sú, að færa aldurstakmark kosningarréttar og kjörgengis til Alþingis niður í 21 árs aldur, til samræmis við aldurstakmarkið við kosningar í malefnum sveita og kaupstaða, sbr. 1. nr. 23 frá 1929. Enda þótt lítil reynsla sé enn fengin um þá breyt., þá hygg ég þó, að hún bendi fremur til þess, að þessi rýmkun kosningarréttar og kjörgengis hafi verið fyllilega réttmæt, og þau hin sömu rök hníga að þeirri breyt. á stjskr., sem hér er um að ræða. Ég þori að fullyrða, að margir þeirra, sem voru á móti nefndri réttarbót í kosningum sveita og kaupstaða á þinginu 1929, séu nú orðnir á annari skoðun. Ég vænti þess því fastlega, að þessi breyt. muni ekki valda deilum í þessari háttv. deild.

Það hefir jafnan verið venja að kjósa sérstaka nefnd til þess að athuga stjórnarskrárbreytingar, sem fram hafa komið. Ég legg til, að svo verði og gert í þetta sinn, og ennfremur, að málinu verði vísað til þeirrar nefndar, að lokinni þessari umræðu.