07.04.1931
Efri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (975)

12. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það mætti nú líta svo út við fyrstu sýn, að ég mætti una vel undirtektum þeim, sem frv. hefir fengið. Það hefir komið skýrt fram hjá þeim hv. þdm., sem tekið hafa til máls, einkum hefir það þó komið fram í ræðu hv. 1. landsk., að enginn ágreiningur muni vera um að samþ. hin tvö höfuðákvæði frv. Ég geri því ráð fyrir, að ákveðinn meiri hl. fáist með afnámi landskjörsins.

Hinsvegar er það á allra vitorði, að ýmsar brtt., sem hér eru á ferðinni og bera vott um samstarf nokkurt milli hv. flokka til beggja handa við framsóknarmenn, munu sumpart gagnvart þessu frv. ekki af heilindum gerðar og benda í þá átt, að nú standi fyrir dyrum nokkru víðtækari samvinna milli þessara nábúaflokka til hægri og vinstri. Við framsóknarmenn höfum ekkert við það að athuga, þótt slík ný samvinna eigi sér stað.

Ég þykist vita, að það, sem dregur þessa góðvini til samkomulags, samstarfs og samvinnu, muni vera sá sameiginlegi ótti við kosningarnar, sem nú fara í hönd, um að Framsóknarflokkurinn verði ofjarl þeirra beggja. Um þetta skal ég ekki fara fleiri orðum nú sem stendur, en ég vona, að það auglýsist greinilega nú á næstu dögum, hversu víðtæk þessi nýja samvinna er.

Ég skal þá víkja að einstökum brtt. Ég geri ráð fyrir, að búið sé að hafa fast samkomulag milli þessara tveggja flokka um það hvernig eigi að ganga frá málinu, og skal ég því ekki tala hér langt mál, því að sameinaðir ráða þessir flokkar yfir meiri hluta deildarinnar.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að allir eru sammála um, að þeir, sem hafa náð 21 árs aldri, skuli fá kosningarrétt. Hv. 2. landsk. talaði um þetta sem mál síns flokks, sem hann hefði haft með höndum í 12 ár. Ójá, þeir hafa haft það með höndum í 12 ár; — en það erum þó við framsóknarmenn, sem höfum borið málið fram, fyrst á þinginu 1929, að því er snerti kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, og svo aftur nú. Það skiptir ekki máli, hver lengst hefir haft það á dagskrá, heldur hitt, hver ber það fram til sigurs, og það eru framsóknarmenn, en ekki flokkur hv. 2. landsk.

1. brtt. hv. 2. landsk. er á þskj. 277 um að hlutfallskosningar megi fara fram annarsstaðar en í Reykjavík. Ég ætla ekki að fjölyrða um þessa brtt. mi, en ég ætla, að það muni koma í ljós út frá henni, að um viðtækara mál sé að ræða en hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum núverandi. Og liggur hér fiskur undir steini.

Um 2. og 3. brtt. skal ég heldur ekki fjölyrða. Ef ég ætti hér atkvæðisrétt, mundi ég greiða báðum þessum till. atkv. sú fyrri um varaþingmenn er sjálfsögð, til að raska ekki þeim grundvelli, sem hlutfallskosningin í Rvík hvílir á. sú síðari er í samræmi við það, sem áður hefir verið borið fram af stj. Hv. þm. þótti það smásálarskapur af stj., að bera það ekki fram. Það stafar ekki af smásálarskap, heldur af því, að þetta er gamalt deilumál í þinginu; það hefir verið fellt í þessari hv. d., og með því að ég gerði ekki ráð fyrir, að það yrði samþ., taldi ég þýðingarlaust að bera það fram.

Um till. á þskj. 265, sameiningartill. milli hv. 1. og 2. landsk. og þm. Seyðf., skal ég ekki segja margt. hún ákveður, að fara skuli fram kosningar aftur 1932. Það lætur vel í eyrum, að þetta sé gert vegna unga fólksins. En ég hygg, að hér liggi annað og meira á bak við, sem senn mun reynast.

Hv. 1. landsk. bar fram nokkrar almennar aths. um leið og hann mælti fyrir till. sínum og hv. þm. Seyðf. Ég tel ástæðulaust að gera að umtalsefni þessi almennu orð, sem hv. þm. let falla, eða yfirleitt að blanda hér inn í almennum umr. um kjördæmaskipunina í landinu. En hv. þm. gat þess í niðurlagi ræðu sinnar, að hann gæti gengið inn á að fella niður landskjörið, af því að hann byggist við, að á öðrum stöðum yrði þá fjölgað þm., svo að leiddi til meiri réttlætingar. Ég vil upplýsa í því sambandi, að hans flokkur hefir ekki leitað samkomulags við Framsóknarflokkinn um þetta, og fyrst hv. þm. talaði um samkomulag, hlýtur það að byggjast á samningum við einhvern annan flokk. En verið getur, að það eigi eftir að koma tilboð til Framsóknarflokksins.

Um brtt. hv. þm. á þskj. 266 tel ég enga ástæðu að fjölyrða. Þar er ekki um neinar efnisbreytingar að ræða, sem geti valdið ágreiningi.

Loks hefi ég borið fram brtt. á þskj. 322. Ég let þá till. ekki fylgja með frv., af því að ég taldi rétt að láta frv. ekki snúast nema um þessi tvo atriði, sem áður er getið. En þar sem komnar eru fram mjög margar brtt., sem má telja víst að nái fram að ganga, fannst mér rétt að bera hana fram eins og á þinginu 1927, til þess að prófa, hvernig atkv. fellu í þessari d. um þetta mál. Ef hún yrði samþ., mundi ég þó telja ástæðu til að gera breytingu á þessu til 3. umr., vegna hinnar breyttu aðstöðu frá þinginu 1927.

Till. fjallar um það, að ef sérleyfis er beiðzt til stórrar virkjunar, sem er meira en 25000 hestöfl, beri að líta á það sem svo stórt og merkilegt mál, að það þurfi samþykki tveggja Alþinga í röð eins og um stjórnarskrárbreytingar. Það er ástæðulaust að rekja þau rök, sem fyrir þessu voru færð 1927, en ég vil aðeins taka það fram, að þetta var flutt sérstaklega vegna þess tilefnis, að þá var sótt um af hálfu erlendra félaga að fá virkjunarleyfi í stórum stíl; og vegna þess, hve alvarlegt mál það er fyrir okkar þjóð, er nauðsynlegt að búa vel um þá hnúta. Þá gerði enginn ráð fyrir, að í náinni framtíð mundu innlendar stofnanir, eins og t. d. Rvíkurbær nú, fara út í slíka virkjun; svo að ef til kæmi, þyrfti að breyta þessari till. þannig, að hún tæki aðeins til erlendra félaga eða fyrirtækja.