07.04.1931
Efri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (978)

12. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.-, og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Örfá orð út af því, sem formenn flokkanna, hv. 1. og 2. landsk. þm., hafa látið fram koma, hvor fyrir sinn flokk. Ég get ekki kannast við, að ég hafi verið í vondu skapi, eins og hv. 2. landsk. sagði. Ég er yfirleitt heldur geðgóður maður, og í dag er ég í bezta skapi. Ég tók sannarlega ekki illa á móti sumum brtt. þeirra. Ég sagði, að ef á annað borð ætti að breyta frv., mundi ég greiða atkv. með þeim. Ég var þá hvorki ergilegur né hvimpinn, eins og hv. 1. landsk. sagði. En það kann að vera, að meiri vottur fari að sjást um samvinnu milli þessara flokka. Ég bíð rólegur, þangað til maður sér, hvað verður. Annars var það hv. 2. landsk., sem sagði: „Svo að ég tali nú alvarlega við ráðherrann“, sagði hann undir lok ræðunnar, og það var þó eitthvert smáatriði, sem kom. Þá hefir víst verið lítil alvaran fyrr í ræðunni. (JBald: það var spaug, eins og hjá hæstv. ráðh.).

Út af orðum hv. 1. landsk. þarf ég ekki að taka fram annað en ég er búinn að segja. Það var alls ekki meiningin að beina þessu ákvæði brtt. minnar gegn virkjun landsmanna sjálfra. Ég kvaddi til mann að afrita tillöguna eins og hún var flutt á þinginu 1927, án þess að muna eftir þeim breyttu kringumstæðum, sem nú heimta, að tillagan sé orðuð öðruvísi. Þá gerði enginn ráð fyrir svo stórum virkjunum innlendra manna sem nú er auðséð að muni koma. Ég hefi ekkert á móti því, að þessari brtt. verði frestað til 3. umr., svo að gallar á henni dragist ekki inn í umr. nú. En mér er þá forvitni á að vita, hvort hv. þm. vill vera með því að gera slíkar ráðstafanir, ef í hlut eiga útlend stórgróðafélög. Ég vildi vita, hvers sú tillaga má vænta frá honum við 3. umr., og að hann léti nú þegar í ljós skoðun sína á því efni.