27.03.1931
Efri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (997)

17. mál, brúargerðir

Páll Hermannsson:

Hv. frsm. hefir lýst yfir því, að gott samkomulag væri um það í nefndinni, að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt. En áður en þessari umr. slítur vildi ég gera grein fyrir því, hvers vegna ég sætti mig við það.

Fyrst þegar ég leit á frv., fannst mér sem gengið væri fram hjá ýmsum vatnsföllum, sem nauðsynlegt væri að brúa, einkum á Austurlandi. Mér er ljóst, að víða getur verið sjálfsagt að brúa ár, þótt vegur liggi ekki að þeim, né verði lagður mjög bráðlega, því að vegleysið er sannarlega nægilega erfitt fyrir þau héruð, sem við slíkt búa, þótt erfiðustu vatnsföll séu brúuð. Í Suður-Múlasýslu eru stórar, sem ekki eru teknar inn í frv., og þar eru ekki akvegir heldur. En eftir viðtal við vegamálastjóra gat ég fallizt á, að frv. væri heppilegast í því formi, sem það er nú. Vegamálastjóri lýsti yfir því á fundi nefndarinnar, að hann ætlaði bráðlega að bera fram viðbætur við þetta frv., og bæta þá inn á það mörgum ám, sem minnzt var á í nefndinni, og þar á meðal mörgum ánum eystra. Því hvarf ég frá því að bera fram brtt. Ég get líka fallizt á þá skoðun vegamálastjóra, að nauðsynlegt sé að hafa rækilegan undirbúning og áætlanir um brýr, áður en þær eru teknar í brúarlög.